Virðisaukaskattur
Mánudaginn 18. desember 1989


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég verð nú, svipað og hv. síðasti ræðumaður, í raun að fagna fjarveru ráðherra hér í salnum. (Gripið fram í.) Ég er að tala um ráðherrana almennt, enda eru þeir mjög fáséðir fuglar hér inni og liggur við að maður þurfi að kynna sig fyrir þeim ef þeir detta hér inn í húsið. Oft sem maður álítur að hér sé um að ræða ókunna menn af götunni. Það er líka spurning, ef maður vill ræða við þá eða leggja einhverjar spurningar fyrir þá, hvort það verði ekki að vera skriflega uppi í ráðuneyti eða nota meira fyrirspurnatímana en gert hefur verið. Það er reyndar merkilegt hvað stjórnarliðar láta sig þessa umræðu litlu máli skipta og þá kannski sérstaklega minn gamli flokkur og mínir félagar sem þar eru enn. Ég veit ekki betur en þeir, alla vega í orði, þykist berjast af fullum krafti gegn matarskatti og hér er nú það frv. til umræðu sem tekur á matarskattinum. Þá heyrist hvorki hósti né stuna frá þeim mönnum. Ekki einu sinni að þeir láti sjá sig hér í þingsal. Ekki virðist því mikið að marka þau orð og þá baráttu.
    Hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir kom í örfáum orðum hér inn á danskennslu og furðaði sig mikið á að hún skyldi ekki undanþegin virðisaukaskatti og bar hana saman við alls kyns íþróttastarfsemi. Ég get vissulega tekið undir með hv. þm. að danskennsla á að vera undanþegin virðisaukaskatti. Ekki með hliðsjón af öðrum íþróttagreinum heldur með hliðsjón af öðrum kennslugreinum því mér virðist að eina kennslan sem ber í dag virðisaukaskatt sé einmitt danskennslan. Réttara væri að bera hana saman við aðra kennslu og ég skal vissulega standa að brtt. með hv. þm. í þá veru.
    Hér er á ný komið inn á borð okkar frv. til laga um virðisaukaskatt. Ég ætla að leyfa mér, hæstv. forseti, að rifja upp gang umræðna hér á þingi á sl. ári
enda tel ég þingheimi til góðs að rifjuð séu upp ummæli sem þá féllu hjá hinum ýmsu þingmönnum sem nú eru í annarri stöðu hér á þinginu en þá. Í grundvallaratriðum er ég fylgjandi upptöku virðisaukaskatts eins og fram kom í málinu þá. Helstu ástæður þess eru að augljóst er að núverandi söluskattskerfi er löngu úrelt og úr sér gengið og á því eru fjölmargir gallar. Til að mynda mismunar það mjög atvinnugreinum sem virðisaukaskattskerfi gerir ekki ef rétt er með farið. Það mismunar atvinnugreinum allverulega, eins og ég mun sýna fram á í ræðu minni. Er það miður að svo skuli vera komið að strax áður en lögin taka gildi skuli í raun vera búið að skemma þau.
    Ég lýsti því yfir í umræðunum á síðasta ári að ég gæti ekki samþykkt virðisaukaskattinn nema hann væri í tveimur þrepum, þ.e. annað lægra þrep á alla matvöru. Um það fjalla ég nánar síðar í ræðunni en get þó sagt strax að ég er enn á sömu skoðun og þá og mun ekki greiða þessu frv. atkvæði mitt nema til komi nýtt skattþrep fyrir matvæli. Í umræðunum í fyrra kom margt athyglisvert fram og er afar fróðlegt

að bera saman skoðanir hinna ýmsu þingmanna þá og nú. Sérstaklega hin snöggu skoðanaskipti þingmanna gömlu flokkanna, þ.e. Alþb., Sjálfstfl. og minna gömlu stefnuföstu félaga í Borgfl. Í umræðunum í fyrra lýstu alþýðubandalagsmenn og borgaraflokksmenn yfir algjörri andstöðu við frv., einkum vegna hins alræmda matarskatts. Nú kveður hins vegar við annan tón hjá þessum mönnum og eru þeir eins og hæstv. menntmrh. lýsti yfir í umræðunum í fyrra, en þá sagði hann um kratana að hér væru á ferð menn sem væru eins og nýfrelsaðir menn sem hefðu fundið hjálpræðið, hina endanlegu lausn, svar við öllum vanda við upptöku virðisaukaskatts. Þá hafði hæstv. ráðherra mörg og stór orð um þá svívirðu að ætla sér að skattleggja matvæli og nauðsynjavöru heimilanna. En hvað er hann að gera í dag? Fyrir hverju stendur hann nú? Er það ekki nákvæmlega það sem hann gagnrýndi svo harkalega í fyrra? Er hann ekki að stuðla að því að matarskatturinn verði endanlega festur í sessi? Er það orðið svo að ekkert er að marka orð manna hér á þingi þar sem þeir leyfa sér að hafa breytilegar skoðanir með tilliti til þess eins hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu? Er það virkilega svo að þingmenn eigi að starfa eftir slíkri reglu og hvernig samræmist það því að þingmenn skuli breyta eftir eigin samvisku? Hvað segir það í raun um samvisku slíkra þingmanna? Ég vildi ekki eiga neitt undir slíkri samvisku.
    Hæstv. forseti. Ég ætla að leyfa mér að rifja upp nokkur af þeim ummælum sem hæstv. samg.- og landbrh. Steingrímur Sigfússon hafði um þetta frv. að segja á þessum tíma, með leyfi forseta:
    ,,Það er enginn vafi á því að upptaka söluskatts á matvæli, og í framhaldinu upptaka virðisaukaskatts, er mesta áfall sem íslenskur landbúnaður hefur fengið á sig um áratuga skeið og eru þá vondar ríkisstjórnir og harðindi og kalár ekki undanskilin.``
    Nú er hv. þm. orðinn hæstv. landbrh. og væri ekki úr vegi að inna hann eftir því, ef hann væri hér í salnum, en það væri kannski hægt að koma því til hans, hvort hann sé ekki sömu skoðunar nú og hann var fyrir rúmu ári síðan. Eða telur hann stöðu landbúnaðar og afkomu heimilanna nú betri en þá? Ef svo er væri fróðlegt að fá útskýringar ráðherra á því mati. Hvað er það í þeirri
frumvarpsmynd sem nú liggur fyrir sem hefur afstýrt þessu mesta áfalli sem íslenskur landbúnaður hefur lent í, svo miklu að ekki verður við harðindi jafnað né kalár? Ég geri mér grein fyrir því að í þessu dæmi er ekki hægt að undanskilja vonda ríkisstjórn. Ég held að nauðsynlegt sé að hæstv. landbrh. upplýsi okkur um þetta. Hann er raunar hér í salnum og væntanlega ekki í húsinu, hæstv. forseti, hins vegar er hæstv. fjmrh. fulltrúi sama flokks og getur væntanlega hlaupið í skarðið fyrir hæstv. landbrh. en það verður bara að koma í ljós. Ég ætla ekki að gera kröfu um það að kallað verði á hæstv. landbrh. ( Forseti: Hann er í húsinu.) Hann er í húsinu, já. Síðar í sömu ræðu segir hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:
    ,,Þessi skattur er þyngstur í skauti lágtekjufólks.``

    Hann talaði þar um hinn illræmda matarskatt sem leggja ætti á matvæli og aðrar nauðsynjar fólks. Hann minnti á að víðast hvar annars staðar væru þessar vörur annaðhvort með öllu undanþegnar slíkum skatti eða mjög lágt skattlagðar. Og hann minnti enn fremur á að óvíða í heimunum væru matvæli dýrari en á Íslandi. Þá gat hann þess að kaupmáttur tímakaups væri mun lægri á Íslandi og eitt er víst að síðan þau orð féllu hefur kaupmáttur á Íslandi ekki aukist, heldur þvert á móti hefur hann stórlækkað. Þá talaði hann um að matarskattur á Íslandi væri mun verri ráðstöfun en hann er víðast hvar annars staðar og sagði að af þeirri ástæðu einni, þó ekkert annað hefði komið til, hefði það aldrei komið til greina af hálfu Alþb. að standa að slíkri skattheimtu, að þetta væru mikil mistök og í raun og veru forkastanleg vinnubrögð. Lagði hann þá fram brtt. þess eðlis að sala á matvöru yrði undanþegin virðisaukaskatti. Hvað skyldi nú hafa breytt skoðun ráðherrans á þessum stutta tíma? Er það eingöngu mjúki ráðherrastóllinn, er það einkabílstjórinn, eru það hærri laun, eru það kokkteilboðin, eru það utanlandsferðirnar eða er það umhyggjan fyrir fólkinu í landinu? Eitt er alveg ljóst að það er ekki umhyggjan fyrir fólkinu í landinu. Eða er þessi skattur ekki lengur illræmdur í huga ráðherrans? Er ekkert að marka viðmiðunina við útlönd lengur? Skiptir kaupmátturinn ráðherra Alþb. engu máli lengur? Og skipta mikil mistök og forkastanleg vinnubrögð engu máli lengur?
    Það er mjög í tísku nú orðið að vitna til Ragnars Reykáss þegar einsýnt er að menn snúast eins og skopparakringlur í skoðunum. Hvað varðar þingmenn Alþb. á samlíking við þessa persónu mjög vel við þessa dagnana.
    Hv. þm. Ragnar Arnalds, fyrrv. fjmrh., sagði t.d. við umræðurnar í fyrra að hann hefði aldrei talið koma til greina að leggja virðisaukaskatt á mat og talaði þá um að það væri stórkostlegt hagsmunamál fyrir hina lægst launuðu. Skyldi hann telja að hag hinna lægst launuðu væri nú betur borgið? Það efast ég um. En eins og nafni hans Reykás hefur hann sennilega skipt um skoðun og skattpíndur almúginn má bara éta það sem úti frýs.
    Sorglegt er að horfa upp á enn eitt stefnuleysi fyrrverandi félaga minna í Borgfl. þar sem þeir seldu sál sína fyrir ráðherrastól og trekvart úr öðrum undir því yfirskini að þeir mundu fella niður matarskattinn eða stórlækka hann. Nú er hins vegar ljóst að innkoma þeirra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hefur engu breytt í þeim efnum né öðrum að öðru leyti en því að styrkja stöðu óvinsælustu ríkisstjórnar sem við völd hefur setið frá því mælingar hófust.
    Nei, það eina sem almenningur í þessu landi veit með vissu um Borgfl. er að öll fyrri stefnumál flokksins skipta þann flokk engu máli lengur og einnig hitt að sá flokkur hefur hjálpað þessari ríkisstjórn við að koma í gegn skattpíningarfrumvörpum jafnt hvort sem þeir eru utan ríkisstjórnar eður ei.
    Þær matvörur sem nú falla undir 14%

virðisaukaskatt voru þegar ákveðnar í endurgreiðsluþrepinu áður en Borgfl. gekk til liðs við ríkisstjórnina þannig að Borgfl. hefur engin áhrif haft í þá veru að lækka verð á matvælum í landinu. Og það er aumkvunarvert að hlusta á ráðherra Hagstofu reyna að telja þjóðinni trú um að fimm þm. Borgfl. hafi áorkað einhverju í þá átt. Auðvitað er hér um hið versta mál að ræða enda sagði til að mynda hv. formaður fjh.- og viðskn. Ed. Guðmundur Ágústsson í þessari umræðu í fyrra, með leyfi forseta:
    ,,Það þarf ekki að líða langur tími á milli þess að menn skipti um skoðun og allt í einu eru vondu málin orðin að góðum málum.``
    Þetta virðist í dag vera helsta stefnumál Borgfl. Þessi orð lýsa þeim flokki allra orða best enda töluð af núverandi þingflokksformanni Borgfl.
    Hæstv. ráðherra Hagstofu var mikið á móti þessu frv. Talaði hann um að hann hefði grun um að kerfiskörlunum í ráðuneytunum, eins og hann orðaði það, hafi liðið dálítið illa í hanastélsboðunum erlendis þegar þeir voru ekki umræðuhæfir um virðisaukaskatt. Nú er þessi sami ráðherra farinn að sitja alþjóðaráðstefnur og er e.t.v. kominn á skoðun kerfiskarlanna sem hann lýsti í fyrra og er því kannski af þessari ástæðu einni fylgjandi því að virðisaukaskattur verður tekinn upp á Íslandi.
    Það er hins vegar hörmulegt til þess að vita að sá flokkur sem harðast barðist fyrir því að matarskatturinn skyldi falla niður, í það minnsta á meðan Albert Guðmundsson fór þar fyrir flokki, skuli nú taka þátt í því að viðhalda
þessum illræmda skatti.
    Þeir sömu menn taka þess í stað þátt í því nú að fella niður virðisaukaskatt af ýmsum þáttum sem í raun ættu að vera aftar í forgangsröðinni. Mætti því allt eins spyrja þá hvort íslensk alþýða geti að þeirra viti lagt sér til munns bókmenntir eða menningu. Með öðrum orðum, nú skal bókvitið í askana látið og ef alþýða þessa lands vill eitthvað annað, þá hún um það.
    En formaður Borgfl. sagði meira. Hann sagði einnig að algjörlega væri fráleitt að leggja háan skatt á landbúnaðarafurðir. Það gengi einfaldlega ekki og þá yrði ekki líft í landinu. Því lagði hann fram brtt. þar sem gert var ráð fyrir að lægra þrep í virðisaukaskatti yrði ekki hærra en 6% á matvæli og aðra nauðsynjavöru heimilanna. Og nú spyr ég: Var engin sannfæring á bak við þessi orð? Voru þetta bara orðin tóm, sýndarmennskan ein eða er hann tilbúinn að lýsa því yfir hér og nú, ef hann mætti nú einu sinni í þingið, að hann mundi styðja slíka brtt. ef fram kæmi?
    Hæstv. forseti. Ég ætla að ljúka þeim þætti ræðu minnar er snýr að umræðunni í fyrra á því að líta sem snöggvast á málflutning sjálfstæðismanna sem var allur á þá leið að mæla fyrir einu skattþrepi. Það er þá ánægjulegt til þess að vita að sá flokkur virðist hafa vitkast síðan þá og tekur nú undir málflutning okkar, frjálslyndra hægrimanna, um lægra skattþrep á matvæli enda batnandi mönnum best að lifa. Þessu ber

að fagna en hafa þó á allan fyrirvara í ljósi reynslunnar. En hún er sú að sameiginlegt virðist vera með öllum flokkum sem til valda komast að þeir gleyma strax stóru orðunum, loforðum sínum um minni skattheimtu og skattpíningu og lækka ekki skatta er þeir komast til valda. Í þessa gryfju mun Frjálslyndi hægriflokkurinn ekki falla komist hann einhvern tímann í valdaaðstöðu.
    Hæstv. forseti. Það er afar athyglisvert að lesa yfir álit meiri hl. fjh.- og viðskn. Ed. en þar segir, með leyfi forseta, í 2. málsgr.:
    ,,Samkvæmt þeim gögnum, sem lágu fyrir við samþykkt laganna, átti virðisaukaskattur að leiða til einföldunar í skattlagningu, réttlátari skattheimtu og skilvirkari innheimtu. Átti skatturinn ekki að mismuna atvinnugreinum þar sem virðisaukaskattur er hreinn neysluskattur sem leggst með sama hætti á alla kaupendur vöru og þjónustu --- ríki, sveitarfélög og almenning. Þá var gert ráð fyrir að allt skatteftirlit yrði auðveldara vegna þess eðlis skattsins að í honum felist sjálfvirkt innbyggt eftirlit.``
    Hér er það sagt nánast berum orðum að virðisaukaskattur leiði ekki til einföldunar í skattlagningu, réttlátari skattheimtu og skilvirkari innheimtu, en það hafi hann hins vegar átt að gera. Enn fremur er sagt að skatturinn átti ekki að mismuna atvinnugreinum og það hafi verið gert ráð fyrir því að skattaeftirlit yrði auðveldara. Sem sagt, allt átti þetta að vera svona og svona en virðist að mati meiri hl. fjh.- og viðskn. Ed. ekki vera eins og til var ætlast. Þetta er sennilega einhver harðasta gagnrýni sem þetta frv. getur fengið, það er að öll megináhersluatriðin séu brostin.
    Þá er það einnig afar merkilegt sem fram kemur í álitinu að traust nefndarmanna, þ.e. meiri hl., er ekki meira en svo til ríkisstjórnarinnar að hann afgreiði frv. frá sér á þeirri forsendu að ríkisstjórnin standi við gefnar yfirlýsingar. Það er greinilegt að fleiri en stjórnarandstæðingar vantreysta þessari ríkisstjórn.
    Í niðurlagi álits meiri hl. í Ed. er síðan lögð áhersla á að ströngu verðlagseftirliti verði komið á við upptöku virðisaukaskatts. Ég óska eftir skýringum stjórnarliða á þessari kröfu. Er hér verið að boða afnám frjálsrar verðmyndunar? Ég fæ ekki annað séð en að svo sé, að hér sé verið að fara fram á slíkt og vil mótmæla slíkum hugmyndum harðlega. Ég spyr hæstv. fjmrh. hvort þetta sé hans skilningur, hans stefna sem verið er að boða með þessari yfirlýsingu.
    Hæstv. forseti. Ég reikna fastlega með því að eyru hæstv. fjmrh. séu hér handan við þilið. Ef svo er ekki þá óska ég eftir því að ráðherra verði viðstaddur þessa umræðu. ( Forseti: Voru þetta tilmæli til forseta?) Er ekki viðkunnanlegra að ræða frv. um virðisaukaskatt með a.m.k. eyru ráðherra nálægt þó hann sé ekki allur hér? ( Forseti: Hæstv. fjmrh. gekk á brott úr salnum fyrir svona u.þ.b. tveimur til þremur mínútum. Sagðist mundu koma að vörmu spori ef eftir sér yrði spurt. Hv. ræðumaður getur ef hann vill beðið í ræðustól þar til ráðherrann kemur.) Það er ekki óþekkt í mínum flokki, hæstv. forseti, að bíða þegjandi í ræðustól en

ég held að ég muni ekki þiggja það boð.
    Það er ljóst að frv., eins og það lítur út í dag, mun verulega mismuna atvinnugreinum og valda neyslustýringu sem hið opinbera á ekki að skipta sér af. Mismunurinn kemur m.a. fram í því að virðisaukaskatt á að endurgreiða að hluta af dilkakjöti en ekki af öðru kjötmeti sem að sjálfsögðu felur í sér neyslustýringu. Þessu er mótmælt af Stéttarsambandi bænda en í fréttatilkynningu sem það sendir frá sér eftir fund stjórnar sambandsins segir að það leggi áherslu á að allar innlendar landbúnaðarvörur sitji við sama borð varðandi álagningu virðisaukaskatts, eins og aðalfundur sambandsins hafði reyndar áður ályktað um.
    Stéttarsambandið leggur einnig áherslu á að tvö þrep verði í virðisaukaskatti með lægri skattprósentu á matvæli. Einnig hefur sambandið alla fyrirvara á um endurgreiðslu búvara á heildsölustigi og telur að sú aðferð sé ótraust og vitnar í því sambandi til söluskattskerfisins og reynslunnar af því. Enda segir í greinargerð þeirra að óhætt sé að fullyrða að reynsla landbúnaðarins og neytenda af þessu fyrirkomulagi hafi orðið samkvæmt verstu hrakspám. Það er því stefna Stéttarsambands bænda að tvö innheimtuþrep verði í virðisaukaskatti og það sé eina lausnin sem hægt verði að sættast á.
    Þá segir sambandið enn fremur að sú fullyrðing skattyfirvalda að eitt þrep í virðisaukaskatti sé forsenda þess að tryggja nægjanlegt öryggi við innheimtuna sé í raun áfellisdómur skattkerfisins yfir sjálfu sér þar sem fjölþrepa virðisaukaskattur er innheimtur í flestum löndum innan OECD. Enda hefur verið mótuð sú stefna innan EB að stefnt skuli að tveimur þrepum í virðisaukaskatti, hið lægra fyrir matvæli, og verði það á bilinu 4--9%. Vandséð er hvernig við ætlum að standa að því að fara í samstarf við EB í gegnum EFTA ef við ætlum að hafa annað fyrirkomulag hér en gildir í öðrum löndum sem að samstarfinu standa. Væri það vissulega innlegg í þá umræðu sem fer hér fram væntanlega seinna í kvöld eða nótt.
    Hæstv. fjmrh. hefur lýst því yfir að upptaka virðisaukaskatts sé nauðsynlegt skref til að aðlaga okkur því sem gerist í Efnahagsbandalaginu. Því hlýt ég að spyrja hæstv. ráðherra, sem er fjarstaddur, hvort það sé stefna hans að aðlaga virðisaukaskattskerfið algjörlega að stefnu EB og fylgja þeim skatthlutföllum sem þar verða ákveðin í framtíðinni.
    Hæstv. forseti. Þar sem hæstv. fjmrh. er nú enn fjarverandi leyfi ég mér að beina þessari síðustu spurningu til hæstv. forsrh. sem heiðrar okkur hér með nærveru sinni.
    Í frv. er gert ráð fyrir því að virðisaukaskattur leggist ekki á dagblöð og tímarit en hins vegar eiga bækur að bera skatt fram til 16. nóv. Ég óska eftir skýringum á því hvers vegna svona er að málum staðið. Hvers vegna eru bækur ekki frá upphafi undanþegnar virðisaukaskatti eins og annað prentað mál og hvert verður tekjutap ríkissjóðs af því að innheimta ekki virðisaukaskatt af bókum á tímabilinu

1. jan. til 16. nóv.?
    Það þarf varla að koma inn á hversu þungt þessi skattur leggst á námsfólk. Þess vegna er afar athyglisvert að prófessor við Háskóla Íslands, sem ætti að vera manna kunnugastur fjárhagserfiðleikum og þrengingum námsmanna, skuli standa fyrir því að íþyngja þeim fjárhagslega með þessum hætti. Hélt ég satt að segja að þeir ráðherrar Alþb. teldu sig hafa gert nóg á hlut íslenskra námsmanna og væri ekki á bætandi. En því er greinilega öðruvísi farið og öll stóru orð þeirra í gegnum stjórnarandstöðutíma innantóm og meiningarlaus.
    Auðvitað leiðir þetta til þess að námsmenn hreinlega fresta námsbókakaupum fram í miðjan nóvember með tilheyrandi töfum á námi. Þeir láta ekki prófessorinn við Háskólann snýta sér svo auðveldlega.
    Hæstv. forseti. Ég fagna komu hæstv. fjmrh. í salinn. --- Svipaða sögu mætti segja um bókaverslun almennings upp úr miðju ári. Allur almenningur mun fresta þeim bókakaupum sem mögulegt er fram í nóvember og treysti ég á að Neytendasamtökin haldi þar mönnum við efnið þannig að fólk sé ekki að stofna til aukaútgjalda að óþörfu.
    Þá væri einnig óhætt að koma hér inn á þær undanþágur sem hafa verið á hinni ýmsu menningarstarfsemi, tímaritum og dagblöðum eins og ég var að minnast á, og leikhúsum og öðrum þáttum og inna hæstv. fjmrh. eftir því hvernig standi á því að einn þáttur virðist enn standa út af borðinu sem er íslensk hljómplötuútgáfa. Ég hygg að ef sanngirnissjónarmið fá að ráða hljóti ráðherrann að kippa þessum lið inn í einnig. Með þessum orðum er ég þó ekki að mæla fyrir öllu því undanþágufargani en tel að þarna eigi sanngirnissjónarmið að ráða ferðinni.
    Ekki ætla ég að fara að tala almennt gegn menningu en í mínum huga ber fyrst og fremst að leita leiða til þess að lækka matvælaverð í landinu. Meðan matvæli bera virðisaukaskatt á ekki að veita undanþágur á öðrum veigalitlum sviðum sem skipta líf heimilanna í landinu afar litlu máli. Hvað skiptir það hina venjulegu fjölskyldu þó að virðisaukaskattur sé á þýddum reyfurum, dagblöðum eða tímaritum? Ég sagði það hér fyrr í ræðu minni að fólk nærist ekki á prentuðu máli. Það þýðir ekkert að setja það í askana. Hins vegar ef verið er að gera undanþágu á annað borð þá verður eitt að ganga yfir alla í sömu atvinnugrein.
    Samkvæmt frv. hefur nú verið bætt inn í það undanþágu á virðisaukaskatti af aðgangseyri að tónleikum, leiksýningum og leikhúsum. Ég hef mínar efasemdir um að það fjaðrafok sem var á síðasta ári um menninguna og aðgangseyri að leikhúsum hafi verið þessum greinum til góðs. Þessar svokölluðu menningarstofnanir falla undir 2. gr. laganna um virðisaukaskatt sem þýðir það að þau skuli bera sjálf innskatt af öllum aðföngum. Það er hins vegar reikningslegt dæmi hvort kemur í raun betur út fyrir þessar stofnanir. Það er hins vegar alveg á hreinu að

þær þurfa að bera allan innskatt og í
virðisaukaskattskerfinu eru engar undanþágur til þessara aðila eins og er í söluskattskerfinu.
    Ég hef að vísu ekki handbærar áreiðanlegar tölur um þessa starfsemi almennt en ef við tökum tölur sem hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir hafði hér í umræðunni á síðasta ári um Leikfélag Reykjavíkur, þá nefndi hún það að gjöld alls hefðu verið 80 millj. kr. en tekjur af miðasölu 40 millj. kr. Ef þessar tölur eru réttar, sem ég efast ekki um, þá hafa hv. þm. Kvennalistans og Alþb. komið því til leiðar að Leikfélag Reykjavíkur þarf ekki að greiða virðisaukaskatt af 40 millj. kr. tekjum en þarf hins vegar að bera allan innskatt. Þetta kem ég hér inn á til að hvetja þessa þingmenn til að kanna nú rækilega hvor leiðin kemur betur út fyrir leikhúsin í raun. Hvort þau séu í raun betur sett með undanþágu eða hvort það kemur betur út fyrir þau að geta notað sér frádrátt á innskatti.
    Hvað viðkemur gjaldfresti á virðisaukaskatti við innflutning þá hefur það komið fram í umræðunni í Ed. að stjórnarsinnar vilja veita gjaldfrest á hráefnum til innlendrar framleiðslu og vegna olíuviðskipta. Og nú segi ég bara: Hvar er nú stefið sem sungið hefur verið með þessu virðisaukaskattsfrv. um að ekki skuli mismuna milli atvinnugreina? Fjöldi félagasamtaka og aðila hafa bent á að verði gjaldfrestur ekki innleiddur í tolli muni það hafa áhrif til 1--2% verðhækkana almennt.
    Í lögunum um virðisaukaskatt er afdráttarlaus heimild til handa ráðherra til að veita gjaldfrest á virðisaukaskatti í tolli. Er hér um að ræða 34. gr. laganna þar sem fjmrh. er heimilað að nota ákvæði 109. gr. tollalaga, nr. 55/1987, um gjaldfrest aðflutningsgjalda af innfluttum vörum. Og undir þetta fellur virðisaukaskatturinn.
    Á prenti lítur þessi grein ákaflega fallega út og það gerði hún líka í tollalögunum. En lítum aðeins nánar á það sem sagði í grg. með 109. gr. tollafrv., þ.e. athugasemdir við einstakar greinar þess. Þar er talað um að þeim verði fyrst veitt þessi heimild sem árið 1985 fluttu inn vörur fyrir 124 millj. kr. eða meira. Samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra mundi þetta þýða að aðeins 26 innflytjendur vöru yrðu gjaldgengir. Ef verðmætamörkin yrðu færð niður í 100 millj. kr. yrðu 66 aðilar gjaldgengir í viðskiptum þessum en 100 aðilar ef mörkin yrðu færð niður í 80 millj. kr. Allar þessar tölur eru samkvæmt verðlagi ársins 1986. Samkvæmt þessu yrði fyrirtækjum mismunað eina ferðina enn. Að mínu viti eiga allir innflytjendur að sitja við sama borð hvað þetta atriði varðar, enda hefur ríkisvaldið það í hendi sér að stöðva lánsviðskipti tímabundið eða að fullu, allt eftir eðli málsins, og einnig að stöðva tollafgreiðslu ef um vanskil innflytjanda er að ræða. Þar af leiðandi eru tryggingar með öllu óþarfar. Allt eins mætti spyrja hvers vegna innflutningsversluninni einni allra atvinnugreina skuli gert að fyrirframgreiða virðisaukaskatt. Og það mætti áfram spyrja hvar réttlæti er að finna í slíku, enda hafa komið fram hörð mótmæli frá Kaupmannasamtökunum og kemur það

ágætlega fram í Dagblaðinu laugardaginn 16. des. sl. þar sem viðtal er við Magnús Finnsson, framkvæmdastjóra Kaupmannasamtakanna, þar sem hann segir, með leyfi forseta: ,,Versluninni var lofað því að greiðslufrestur yrði í tolli þegar umræðan hófst um upptöku virðisaukaskattsins. Það loforð hefur nú verið svikið.`` Enn fremur segir í greininni, með leyfi forseta: ,,Magnús segir að viðskrh. hafi tilkynnt verslunarsamtökunum þetta á fundi með þeim í gær. Hann tilkynnti okkur jafnframt að greiðslufrestur virðisaukaskatts væri eingöngu heimilaður í iðnaði. Að sögn Magnúsar þarf verslunin að taka um 4 milljarða kr. að láni hjá lánastofnunum vegna þess að hún fær ekki gjaldfrest eins og lofað var.``
    Ég ætla ekki að fara lengra í þetta viðtal sem er allt hins vegar mjög athyglisvert og hefði þingheimur gott af því að það væri lesið, en ég reikna nú með að menn geti klárað þetta sjálfir.
    Afleiðingar þess ef ekki verður orðið við óskum innflutningsverslunarinnar geta orðið margvíslegar. Í fyrsta lagi skal nefna að lánsféð sem innflutningsverslunin þyrfti að fá er mjög dýrt og yrði hún að velta þeim kostnaði áfram út í verðlagið með tilheyrandi verðlagshækkunum. Í öðru lagi mundi þetta leiða til þess að innflytjendur færu að flytja inn minni, óhagkvæmari og þar af leiðandi dýrari sendingar sem að sjálfsögðu leiðir einnig til hækkandi vöruverðs. Í þriðja lagi þýðir þetta að innflutningsverslunin mun ekki geta gert eins hagstæða samninga við hina erlendu seljendur vöru vegna minnkandi vörumagns pr. pöntun. Og enn mætti halda áfram að telja.
    Hæstv. forseti. Enn eitt dæmið um þá mismunun sem þessi lagabálkur leggur á atvinnuvegina er sá þáttur sem að bifreiðaeign fyrirtækja snýr. Í 16. gr. laganna segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Til innskatts er ekki heimilt að telja virðisaukaskatt á aðföngum er varða t.d. öflun, rekstur og leigu fólksbifreiða fyrir færri en níu menn.``
    Í nýsettri reglugerð, nr. 530 14. nóv. 1989, hefur hæstv. fjmrh. útvíkkað þessa grein og bætt inn í hana á eftir orðinu fólksbifreiða: þar með talið
skutbifreiða (station) og jeppabifreiða.
    Nú er það svo að ýmis smærri atvinnufyrirtæki nota slíkar bifreiðar af hreinum hagkvæmnisástæðum. Fyrir það skal þeim nú hegnt. Ef þeir vilja njóta skattfrádráttarins vegna reksturs fyrirtækisbifreiðar verða þeir nú annaðhvort að kaupa sér sendiferðabifreið eða lúxusstationbíl sem getur flutt níu manns eða fleiri.
    Hér er því enn eina ferðina verið að ráðast til atlögu við atvinnureksturinn í landinu með íþyngjandi aðgerðum sem hvetja til óhagstæðs reksturs. Hvað á lítið fyrirtæki að gera með stóra bifreið þegar lítil, segjum stationbifreið, dugar fyrirtækinu? Og þegar hún dugar ekki er leitað til sendibílastöðva. Af hverju á að pína slíka aðila út í kaup á stærri bifreiðum en þeir hafa í raun not fyrir? Þá má allt eins spyrja hvort hér sé ekki verið að ráðast til atlögu við þá aðila í þjóðfélaginu sem stunda rekstur sendibifreiða því það liggur í augum uppi að ef minni fyrirtækin eru pínd

út í það að kaupa sér sendibifreiðir þá hlýtur það að koma niður á starfsemi sendibifreiðastöðva. Þarna er e.t.v. skýringin á þessu fáránlega ákvæði að sendibifreiðastöðvar eru þyrnir í augum ríkisstjórnarinnar sem sér þá einu leið til þess að koma höggi á þá starfsemi að gera það með þessum hætti.
    Í umræðunni í fyrra kom ég m.a. inn á hina svokölluðu reikningsaðferð við uppgjör skattskyldrar veltu í stað svokallaðrar greiðsluaðferðar. Lögin kveða skilyrðislaust á um að greiða beri virðisaukaskatt af öllum skrifuðum reikningum á uppgjörstímabilinu, óháð því hvort greiðsla hefur borist fyrir vöruna eða þjónustuna eða ekki. Mælti ég fyrir því þá að vel athugandi væri að bjóða upp á val milli uppgjörsaðferða þar sem ég tel mjög ósanngjarnt að seljendum vöru og þjónustu sé gert að greiða virðisaukaskatt af ógreiddum reikningum. Töluvert er um það að t.d. póstkröfur séu ekki innleystar og því endursendar seljendum. Kaupendur skila oft vörum eða hluta af vörum, reikningar liggja oft lengi ógreiddir, til að mynda hjá ríkisstofnunum. Það er því í hæsta máta óeðlilegt að seljanda sé gert að greiða ríkinu virðisaukaskatt sem ekki hefur verið greiddur, að í raun sé seljanda gert að greiða ríkinu þær fjárhæðir sem ríkið á inni hjá þriðja aðila. Er það ekki fullmikil innheimtugleði hjá hæstv. fjmrh. að ætlast til þess að seljandi skili virðisaukaskatti af vöru sem t.d. ríkisstofnun hefur ekki greitt?
    Þá vil ég ítreka það sem ég sagði um 20. gr. í fyrra sem fjallar um það að reikningseyðublöð skuli vera fyrir fram tölusett í samfelldri töluröð. Það er næsta hlálegt að á tímum tölvutækni sé aðilum meinað að notfæra sér þá möguleika sem sú tækni býður upp á. Ef ég hef skilið rök fjmrn. rétt, að þetta sé nauðsynlegt vegna þess að hægt sé að svindla í tölvusettri númeraröð, að þeir sjái svindlara í hverju horni, þá bendi ég hæstv. fjmrh. á að það er örugglega enginn vandi að finna prentsmiðjur sem mundu prenta eitt og eitt aukanúmer inn í hina samfelldu töluröð ef menn kjósa að svindla eins og ráðuneytið virðist mest umhugað um.
    Hugsum okkur stærra fyrirtæki sem hefur e.t.v. 20 prentara til að skrifa reikninga og fyrirtækinu ber skylda til að geyma eitt eintak af hverjum reikningi ef skattyfirvöldum dytti nú í hug að koma í heimsókn og skoða bókhaldið. Ef um tölvusetta númeraröð væri að ræða lægju allar upplýsingar fyrir í réttri og samfelldri númeraröð. En þar sem þetta sama fyrirtæki þarf nú að vera með fyrir fram tölusetta reikninga og þeir eru dreifðir í ýmsum númeraflokkum á hina ýmsu prentara í hinum ýmsu deildum, þá verður að byrja á því að sannreyna fyrst hvaða númer eru óprentuð til að finna út hvort eitthvert númer vantar inn í númeraröðina. Ef einhver númer vantar þarf að fara í allar deildir, jafnvel á milli húsa og bæjarhverfa, til að sannreyna að þessi númer liggi nú einhvers staðar óprentuð í einhverri deildinni. Þetta er eins og að lemja hausnum við stein og reyna að streitast á móti tækninni. Ég mun því eins og í fyrra flytja brtt. við þessa grein og

reyndar fleiri greinar frv.
    Hæstv. forseti. Nú á síðustu dögum hefur það verið að koma í ljós að verulegir vankantar hafa verið á útreikningi á áhrifum virðisaukaskatts á sveitarfélögin í landinu með þeim afleiðingum að mörg hundruð milljónir kr. bætast á sveitarfélögin í formi virðisaukaskatts. Sem dæmi um það má nefna hina nýju frárennslislögn og dælustöð sem Reykjavíkurborg hefur í hyggju að setja upp á Grandanum og mun kosta um 2 milljarða. Af þeirri framkvæmd ætlar Ólafur Ragnar að hirða 400--500 millj. kr. í virðisaukaskatt. Ber þetta nú vott um hug stjórnarsinna til umhverfis- og mengunarmála sem svo mjög eru til umræðu þessa dagana?
    Þessi þáttur er hins vegar á mjög viðkvæmu stigi og mun ég ekki fara nánar út í hann á þessu stigi mála en reikna með og vona að þetta verði komið á hreint við 2. umr. þessa máls. Hins vegar er það alveg ljóst að ríkisvaldið verður að standa við gefin fyrirheit gagnvart sveitarfélögunum í landinu.
    Hvað varðar endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna viðgerða og endurbóta á húsnæði, þar sem gert er ráð fyrir því að aðeins sé hægt að fá skattinn endurgreiddan fari viðhaldskostnaður yfir 7% af fasteignamati, er hægt að hafa
langt mál. Það er kristalklárt að þessi mörk eru sett allt of hátt og væri fróðlegt að fá að vita hjá hæstv. fjmrh. hvað hann reiknar með að margir geti nýtt sér þessa heimild á næsta ári með hliðsjón af liðnum árum. Mér segir svo hugur að þeir verði ekki margir, enda hér um allt of há viðmiðunarmörk að ræða. Til að mynda hjá sjálfum mér þá þyrfti ég að framkvæma fyrir um 800 þús. kr. til þess að geta notið þessarar endurgreiðslu.
    Þetta þýðir það eitt að svört vinna stóreykst og við það mun ríkissjóður tapa meira fé en hann hagnast um með þessu kerfi. Enn þá furðulegra er að þessi ákvæði skuli einungis eiga við um viðhald á almanaksárinu sem þýðir það að ekki er ráðlegt að hefja framkvæmdir við viðhald eða endurbætur á húsnæði seinni hluta árs því varla er von á að ná tilsettum viðmiðunarskilyrðum fyrir áramót.
    Allur virðisaukaskattur af viðhaldsvinnu ætti að vera endurgreiðsluhæfur til þess að koma í veg fyrir að slík vinna færist í sífellt auknum mæli út á hinn svokallaða svarta markað. Þetta staðfestir Landssamband iðnaðarmanna og fullyrðir að svört vinna muni aukast ef hugmyndir frv. verða að veruleika hvað varðar endurgreiðslur til húsbyggjenda. Þeir benda einnig á að taka þurfi af öll tvímæli um hvernig fara skuli með skattlagningu, kaup og verksamninga til langs tíma, ekki síst þá samninga sem verða í gangi við gildistöku laganna. Því ætla ég að notfæra mér tækifærið og biðja hæstv. fjmrh. að útskýra það fyrir okkur hvernig farið verður með þennan þátt mála. Reyndar hef ég hér, hæstv. forseti, undir höndum tvö bréf frá Landssambandi iðnaðarmanna sem hafa að geyma mikinn fróðleik og ég hygg að rétt væri að fá að vitna í þar sem nóttin er enn þá ung.

    Í bréfi, dags. 8. des. 1989, sem stílað er til hæstv. fjmrh. segja samtökin, með leyfi forseta:
    ,,Samtökin hafa nú fengið send frá ríkisskattstjóra drög að reglugerðum, dagsettum 7. des. 1989, um greiðslu virðisaukaskatts af byggingarstarfsemi og um frjálsa og sérstaka skráningu vegna leigu eða sölu á fasteign. Þrátt fyrir tvo fundi með starfsmönnum ríkisskattstjóra, ítarlegar ábendingar samtakanna um fyrirsjáanleg vandamál við framkvæmd virðisaukaskatts í byggingariðnaði miðað við þá aðferð sem skattyfirvöld ráðgera og tillögur samtakanna um mun einfaldari og betri aðferð hefur lítið sem ekkert tillit verið tekið til ábendinga þeirra í umræddum reglugerðardrögum. Í þessu sambandi vísar embætti ríkisskattstjóra til þess að ekki liggi fyrir ákvörðun fjmrh. um aðra útfærslu en lögin gera ráð fyrir.
    Samtökin telja að þessi reglugerðardrög geti í núverandi mynd aldrei orðið grundvöllur eðlilegrar og viðunandi framkvæmdar virðisaukaskatts í byggingariðnaði og miðað við það að nánast enginn tími er til stefnu til kynningar eru þessar reglugerðir algjörlega óraunhæfar. Þótt margsinnis áður hafi verið tíundaðir þeir alvarlegu gallar sem eru á ráðgerðri framkvæmd skattyfirvalda skal það samt gert hér enn á ný miðað við fyrirliggjandi reglugerðardrög.`` --- Sem mér skilst eftir samtal við Þorleif Jónsson, framkvæmdastjóra Landssambands iðnaðarmanna, að séu nánast óbreytt.
    Um þessi reglugerðardrög segir Landssambandið, með leyfi forseta:
    ,,Í 2. gr. er skattstofn skilgreindur sem kostnaðarverð, þ.e. ekki er ætlunin að skattleggja virðisauka í sama einfalda skilningi og í öllum öðrum atvinnugreinum heldur innri hreyfingar hjá byggingaraðila sem er vægast sagt flókið og erfitt í framkvæmd. Auk þess telja samtökin að þessi flókna aðferð muni leiða til endalausra spádóma og mismunandi túlkunar um skattmeðferð eftir því hvernig að framkvæmdum er staðið og þar með til misræmis í skattlagningu.
    Í þessu felast með öðrum orðum sömu erfiðleikar í framkvæmd og skatteftirliti og eru í núverandi söluskattskerfi. Vandamálunum mun hins vegar fjölga mikið vegna víðtækari skattskyldu. Þessi aðferð er því gloppótt og býður upp á alvarlega misnotkun og skattsvik.
    Skattaðferðin tekur ekkert tillit til eðlis þessarar starfsemi að því er varðar verðmyndun og markaðsaðstæður. Þannig gerir 5. gr. ráð fyrir því að ýmsir kostnaðarþættir, sem koma til skattlagningar, lúti ákvörðun skattyfirvalda og séu því óháðir raunverulegum kostnaði eða því endurgjaldi sem í reynd fæst fyrir viðkomandi þætti. Þannig er hætt við því að skatthlutfall bygginga verði mjög mismunandi eftir markaðsaðstæðum hverju sinni. Jafnframt er ljóst að virðisaukaskattur mun verða mun hærra hlutfall af markaðsverði fasteigna í þeim landshlutum þar sem fasteignaverð er lágt heldur en þar sem fasteignaverð er hátt.
    Samkvæmt 6. gr. og drögum að reglugerð um

sérstaka skráningu er innskattsfrádráttur mjög takmarkaður og afar flókinn í framkvæmd. Þessar reglur munu hafa í för með sér mikla en mismunandi fjárbindingu og óeðlilega mismunun milli aðila, bæði í atvinnuhúsnæði og íbúðarhúsnæði.
    Í 7. gr. eru gerðar kröfur um bókhald byggingaraðila sem er langt umfram það sem lög um bókhald gera og margfalt meiri en hjá öðrum innheimtuaðilum virðisaukaskatts. Þessar kröfur eru gjörsamlega óviðunandi og óframkvæmanlegar. Þær munu leiða til mjög aukins kostnaðar hjá byggingaraðilum
við flókið bókhald og þar með til hækkunar á byggingarkostnaði fyrir húsbyggjendur.
    Þessar kröfur eru mun meiri en gerðar eru samkvæmt lögum og reglugerðum í Danmörku, en þangað hafa íslensk skattyfirvöld sótt allar fyrirmyndir að hinu íslenska virðisaukaskattskerfi. Auk þess er vitað að fæstir þeirra sem þessar kröfur eru gerðar til munu geta undirbúið sig undir þær á þeim fáu dögum sem til stefnu eru.
    Einnig er vitað að endurskoðendur og bókhaldsstofur munu almennt ekki geta veitt byggingaraðilum þá þjónustu að færa bókhald samkvæmt þessum kröfum. Skilyrði fyrir sérstakri skráningu samkvæmt þessu [og er þá verið að tala um reglugerð um frjálsa og sérstaka skráningu] eru óeðlilega þröng og munu í reynd leiða til fjárbindingar hjá aðilum sem byggja á eigin reikning til að selja skattskyldum aðilum. Ekki verður séð að nauðsynlegt sé að byggingaraðilar setji fyrir fram tryggingar vegna sérstakrar skráningar. Hér ættu að duga almennar reglur um það þegar byggingar skattskyldra aðila breyta um notkun.
    Að auki ítreka samtökin að þau hafa engar upplýsingar fengið um raunhæfar leiðir við endurgreiðslu á virðisaukaskatti til íbúðarbygginga sem komið geti í veg fyrir hækkun á byggingarvísitölu og lánskjaravísitölu eftir gildistöku laganna.
    Enn eru óleyst mjög flókin og erfið úrlausnarefni varðandi meðferð verk- og kaupsamninga sem verða í gangi við gildistöku laganna.
    Loks skal þess getið að samtökin telja að þau viðmiðunarmörk sem sett eru sem skilyrði fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts af viðgerðum og endurbótum, þ.e. 7% af fasteignamati, séu of há og muni leiða til svartrar atvinnu.``
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að vitna meira í þetta bréf þeirra sem er afar athyglisvert og ég vonast eftir að hv. fjh.- og viðskn. taki til gaumgæfilegrar athugunar og væntanlega hæstv. ráðherra einnig. Hins vegar sendi landssambandið hinn 18. des. umsögn um frv. til hv. fjh.- og viðskn. og bendir þar á tíu mjög veigamikla þætti í frv. sem þeir telja að þurfi að skoðast betur. Ég ætla ekki að þreyta viðstadda með því að fara yfir þá þar sem þetta bréf er þegar komið í hendur formanns þeirrar nefndar, hv. þm. Páls Péturssonar, og veit ég að það er í góðum höndum þar.
    Ég ætla ekki að hafa efnislega fleiri orð um frv.

Það gefst tækifæri til þess við 2. umr. eftir að hv. fjh.- og viðskn. deildarinnar hefur farið yfir það og fengið nánari skýringar á þeim atriðum sem enn eru óljós. Ég vil hins vegar eyða nokkrum orðum í það að fara svona almennt í málin.
    Eins og þingheimur veit átti þetta frv. upphaflega að verða að lögum um síðustu áramót. Það takmark náðist ekki og var því gildistöku laganna frestað til 1. júlí 1989. Það takmark náðist ekki heldur. Nú er stefnt að því að lögin taki gildi um næstu áramót. Það er nokkuð víst að því takmarki verður náð og ber í sjálfu sér að fagna því þó að um leið verði að harma það hvernig staðið hefur verið að þessu máli frá upphafi og í raun áfellisdómur fyrir yfirvöld að eftir allan þennan tíma skuli þurfa að afgreiða stórmál sem þetta í tímaþröng og jafnilla unnið og óunnið sem raun ber vitni.
    Sl. sumar átti að starfa nefnd skipuð fulltrúum allra þingflokka að því að fullvinna þetta frv. Það er skemmst frá því að segja að nefndin var sárasjaldan kölluð saman. Leiddi þetta til þess að allur undirbúningur hefur verið í molum sem við höfum reyndar orðið vitni að með stórfelldum átökum innan ríkisstjórnarinnar svo að við lá að hún félli, sem varð því miður ekki, og með þeim afleiðingum að fram á þennan dag eru að berast reglugerðir um framkvæmd laganna. Þetta hefur komið sér afar illa fyrir fyrirtækin í landinu sem ekki hafa getað undirbúið sig sem skyldi þar sem enginn gat verið viss um að lögin mundu taka gildi um áramót eins og stefnt var að, sérstaklega í ljósi yfirlýsinga einstakra ráðherra sem nánast fullyrtu að fresta yrði upptökunni. Þetta hefur komið sér illa fyrir atvinnulífið og í mörgum tilfellum fyrir verslunina þar sem allmargir hafa frestað innkaupum á frádráttarbærum hlutum sem í dag bera söluskatt en með upptöku virðisaukaskattskerfisins verða virðisaukaskattslausir. Nægir þar að nefna t.d. tölvur og önnur skrifstofutæki.
    Það kemur reyndar fram í áliti 2. minni hl. fjh.- og viðskn. Ed. að nær öllum gestum þeirrar nefndar þótti undirbúningur fyrir þessa skattkerfisbreytingu ónógur og gilti þá einu hvort menn aðhylltust virðisaukaskattskerfið eða ekki. Það er hins vegar alveg stórkostlegt að heyra hæstv. fjmrh. tala sífellt um það að virðisaukaskattur hafi lækkað úr 26% í 24,5%. Það er eins og ráðherrann viti ekki að í lögunum um virðisaukaskatt er prósentutalan 22% og að fara úr þeirri prósentu í 24,5% er auðvitað hækkun en ekki lækkun. Því ætti hann að tala um staðreyndir og þær eru að hér er auðvitað um skattahækkun að ræða svo að milljörðum skiptir.
    Það væri nú ekki úr vegi að minna þá alþýðuflokksmenn á kjörorð þeirra þegar þeir voru að berjast fyrir þessari skattbreytingu en þau voru einfalt kerfi, skilvirkt, réttlátt og undanþágulaust kerfi. Allt er þetta fokið út í veður og vind. Kerfið er orðið svo flókið að enginn skilur upp né niður í því og
sérstaklega er tekið fram hjá öllum aðilum að sýna verði þolinmæði við greiðendur virðisaukaskatts fyrstu mánuðina vegna þessa. Þá er alveg ljóst að vegna

hinna fjölmörgu gata sem í lögunum felast verður skilvirkni ekki til staðar og leiðir til undandráttar frá kerfinu eru fjölmargar og á mörgum sviðum er fólki beinlínis att út í það að notfæra sér þær. Og síðast en ekki síst er undanþágulausa kerfið morandi í undanþágum sem í raun skemmir strax í upphafi kerfið. Þannig eru öll áhersluatriði þeirra alþýðuflokksmanna orðin að engu og hafa snúist upp í andhverfu sína.
    Ein rök fyrir því að taka þetta kerfi upp, og þau rök sem m.a. voru þess valdandi að ég fyrir mitt leyti gat stutt þetta skattkerfi, voru þau að það ætti ekki að mismuna atvinnugreinum. Nú er það einnig ljóst að því megineinkenni á þessu kerfi hefur verið kollvarpað og það allkyrfilega eins og ég hef sýnt fram á hér fyrr í ræðu minni. Nægir í því sambandi að minna á hinar ýmsu greinar landbúnaðarins sem ekki sitja við sama borð og einnig innflutningsverslunina sem ein allra atvinnugreina þarf að greiða skattinn fyrir fram.
    Þá er það einnig ljóst að með því skemmdarverki sem unnið hefur verið á kerfinu mun það leiða til tilviljanakenndra hækkana á framleiðslukostnaði. Ég lýsti því yfir í umræðunni í fyrra að ég væri í meginatriðum sammála því að taka upp virðisaukaskattskerfi. Öllum meginkostum þess virðist nú hafa verið kastað fyrir róða og flestum vegna kjarkleysis ráðamanna sem hafa látið undan þrýstingi hagsmunahópa. Því er það orðið æðierfitt fyrir mig að standa að samþykkt þessa frv. Ég lýsti því hins vegar yfir að ég gæti ekki samþykkt það á sínum tíma nema í kerfinu væru tvö skattþrep. Annað lægra á matvæli, og þá á ég við öll matvæli, og svo hitt hærra á aðra þætti. Við þetta stend ég. Verði tekið upp lægra skattþrep á öll matvæli mun ég greiða slíku frv. mitt atkvæði.
    Það er stefna Frjálslynda hægriflokksins að virðisaukaskattur af matvælum verði felldur niður, að lægra skattþrepið verði núll-þrep. Þetta er hægt að okkar mati með því t.d. að fella allar aðrar undanþágur niður, með því að hætta niðurgreiðslum og með því að fara í raunverulegan niðurskurð í opinbera geiranum. En því miður, til þess að gera slíkt þarf kjark og sá kjarkur er ekki til á stjórnarheimilinu í dag.
    Hæstv. forseti. Þeir sem eitthvað hafa fylgst með verslun í landinu í gegnum tíðina vita að álagning heildsala er mjög lág í samanburði við álagningu smásölunnar sem er mjög eðlilegur hlutur, að smásalan þurfi á hærri álagningu að halda en heildsalan og er það viðurkennt af öllum sem til þekkja. Reyndar var það svo þegar verðlagshöft ríktu hér fyrir örfáum árum að þá var það yfirlýst stefna Verðlagsstofnunar að álagning heildsala var snöggtum lægri en álagning smásala. Ástæða þess að ég tek þetta upp hér og nú er sú auglýsing sem fjmrn. sendi frá sér í haust um virðisaukaskatt, en þar er um heilsíðuauglýsingu að ræða um það hvernig virðisaukaskattskerfið sé. Þar er tekið dæmi sem á að sýna hvernig virðisaukaskattur er innheimtur. Í því dæmi kemur glöggt fram hugarfar fjmrn. til heildsala

í landinu því þar er dæminu stillt þannig upp að heildsalinn er sýndur með 70% álagningu en smásalinn með um það bil 35% álagningu. Hér fullyrði ég að annarlegar hvatir liggi að baki.
    Innflutningsverslunin hefur alla tíð verið þyrnir í augum þeirra alþýðubandalagsmanna og þeir hafa alla tíð reynt allt sem í þeirra valdi hefur staðið til þess að sverta þá atvinnugrein. Og svo illa eru þeir haldnir að nú eru þeir farnir að beita fyrir sig opinberum sjóðum til þess að koma höggi á þessa atvinnugrein. Ég vil biðja hæstv. fjmrh. að benda mér á einhver raunhæf dæmi um þá álagningaraðferð sem hann sýnir fram á í umræddri auglýsingu. Hvar þekkist það að heildsali sé með 100% hærri álagningu en smásali? Geti hann það ekki tel ég að honum beri að biðja þessa atvinnugrein afsökunar á þessum atvinnurógi sem settur er út um allt land.
    Hæstv. forseti. Það eru aðeins tvær vikur þar til lög um virðisaukaskatt eiga að taka gildi. Þrátt fyrir það eru ekki allar reglugerðir tilbúnar. Þetta er því enn eitt dæmið um það að í augum ráðherra er Alþingi ekkert annað en stimpilstofnun fyrir þá og ráðuneyti þeirra. Í öllum meiri háttar málum þar sem vænta má mikillar umræðu og skoðanaskipta er það nánast regla hjá ráðherrum að setja frv. svo seint fram að enginn tími vinnist til þess að vinna málin sem skyldi í nefndum. Þetta eru auðvitað forkastanleg vinnubrögð sem því miður eru orðin árlegur viðburður. Þessum vinnubrögðum ber að hafna. Þingmenn eiga ekki að láta þetta yfir sig ganga ár eftir ár.
    Það er mín skoðun að vegna slælegra vinnubragða við þetta frv. eigum við eftir að horfa upp á veruleg vandkvæði á framkvæmd laganna og mikla óvissu hjá þeim sem eftir þeim eiga að fara. Og það eru ekki fáir aðilar. Talið er að það verði um 25 þúsund aðilar sem þurfa að standa skil á virðisaukaskatti. Mikill meiri hluti þeirra veit ekki hvað snýr upp og niður á þessu kerfi þannig að ljóst er að mikið öngþveiti á eftir að skapast víða hjá greiðendum. Þar af leiðandi þarf hið opinbera að vera tilbúið til þess að aðstoða alla sem á aðstoð þurfa að halda og vera sveigjanlegt og lipurt í garð þeirra sem mistök gera. Viðurlög og refsingar hljóta því að vera í algeru lágmarki fyrst um sinn
eða þangað til ætla má að hinni raunverulegu kynningu á framkvæmd kerfisins sé lokið.
    Hæstv. forseti. Þar sem um það hefur verið gert samkomulag að flytja ekki langt mál hér í kvöld um þetta mál við 1. umr. mun ég ekki hafa þessi orð öllu fleiri að sinni og segi því máli mínu lokið.