Fréttaviðtal við forseta sameinaðs þings
Þriðjudaginn 19. desember 1989


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég tók eftir því að hv. 3. þm. Vesturl., formaður þingflokks Alþfl., lagði á það ríka áherslu hér í sinni ræðu að ekkert endanlegt samkomulag hefði verið gert milli stjórnar og stjórnarandstöðu og talaði um það í sömu andrá að formaður Sjálfstfl. hefði hvorki af því heiður né sóma að hafa talið að samkomulag hefði komist á. Nú höfum við unnið þannig í fjh.- og viðskn. Ed. síðast í dag eins og samkomulag væri komið á. Ég veit ekki hvort þessum hv. þm. var það kunnugt að ég hafði ekki fylgst með þingstörfum þegar fundur hófst í fjh.- og viðskn. hér kl. 4, en það var alveg ljóst á þeim fundi að allir sem þar voru höguðu sér með þeim hætti. Ég tel því mjög undarlegt að hv. þm. skuli komast svo að orði í þessu samhengi vegna þess að venjulega hefur það verið svo að stjórnarandstaða hefur verið með þvergirðingshátt síðustu daga fyrir jól og stjórnarandstaða hefur reynt að standa í vegi fyrir eðlilegri afgreiðslu mála. Svo hefur ekki verið að þessu sinni, en ég tek á hinn bóginn undir það sem kom fram hjá hv. 2. þm. Reykv. Það er e.t.v. ekki vansalaust hversu hratt við höfum látið þessi mál ganga í gegnum þingið. Ég get tekið sem dæmi það frv. sem var til umræðu í dag í fjh.- og viðskn. Ed., frv. um hækkun á tekjuskatti. Fulltrúar frá aðilum vinnumarkaðarins sátu fund með fjh.- og viðskn. í dag og lýstu þar þeirri skoðun sinni að frv. væri úr takt við það sem væri að gerast í þjóðfélaginu. Á sama tíma og bæði launafólk og aðrir atvinnuvegir verða að láta sér nægja minna, á sama tíma og við sjáum fram á verulegt atvinnuleysi á næsta ári, óöryggi almennt í þjóðfélaginu, heldur ríkisstjórnin sinn fyrri kúrs, heldur áfram að hækka margvíslega þjónustu, heldur áfram að hækka skatta með margvíslegum hætti, m.a. tekjuskatt sem nær til allra launaflokka, allra launastiga, ef það er rétt sem hagfræðingur Alþýðusambandsins sagði á þessum fundi, þannig að vissulega er það ámælisvert hversu litla mótstöðu við í stjórnarandstöðunni höfum sýnt
þessum skattafrumvörpum sem eru nú að stefna í hættu því samkomulagi sem vinnuveitendur og fulltrúar Alþýðusambandsins eru að reyna að gera þvert ofan í ríkisstjórnina við þær þröngu aðstæður sem við Íslendingar búum nú við. Við í stjórnarandstöðunni viljum koma til móts við aðila vinnumarkaðarins og viljum reyna að stuðla að því að það náist friður með þeim hætti úti á hinum almenna vinnumarkaði að hægt verði að halda verðbólgu niðri og við náum varðstöðu, getum reynt að vernda og verja kaupmáttinn, reynt að fjölga ekki hinum atvinnulausu, en það kostar líka á hinn bóginn um leið að hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnin verða að minnka skattheimtuna. Þetta voru þau hreinu skilabð sem við fengum á þessum fundi frá aðilum vinnumarkaðarins svo að það er auðvitað ámælisvert ef við reynum ekki með einhverjum hætti að standa á móti því að skattheimta af þessu tagi gangi yfir okkur.
    Í öðru lagi er það athyglisvert þegar sagt er að við

eigum að láta það gott og gilt að samkomulag sem gert hefur verið við sveitarfélögin og staðfest á Alþingi á sl. vori með löggjöf um nýja verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, að við eigum að láta sem það skipti engu máli þótt slíkt samkomulag sé brotið. Við þingmenn höfum verið að fá bæði skeyti og bréf frá sveitarstjórnum út um land þar sem þeir hvetja okkur til þess að standa á verðinum og láta ekki ríkisstjórnina yfir sig ganga. Og það er auðvitað heilög skylda okkar sem höfum unnið drengskaparheitið hér á Alþingi að við reynum að stuðla að því að þingið standi við sínar skuldbindingar í þessum efnum.
    Við skulum taka bara lítið dæmi um það hvernig gengið er á hlut annarra. Lögum samkvæmt ber ríkinu að greiða 100 kr. til kirkjugarða og aðrar 100 kr. eiga sveitarfélögin --- ( Forseti: Má ég spyrja hv. 2. þm. Norðurl. e. hvort hann sé raunverulega að tala um þingsköp?) Ég vil biðja hæstv. forseta að vera ekki að trufla, hann hefur talað nóg. --- og sveitarfélögin eigi að greiða ríkinu jafnmikið til kirkjugarðanna. Nú á að flytja brtt. við lánsfjárlög þar sem hlutur ríkisins er skertur en sveitarfélögin eiga að greiða það sama og áður, ganga á rétt sveitarfélaganna.
    Ég vil segja, hæstv. forseti, út af þeim ummælum sem hér hafa orðið í kvöld að óhjákvæmilegt er að þingmenn fái í hendur endurrit af þeim ummælum sem hæstv. forseti lét sér um munn fara í Ríkisútvarpinu í kvöld. Þar talaði hæstv. forseti um að menn vildu rjúfa það samkomulag sem gert hefði verið. Ekki var það að heyra á formanni þingflokks Alþfl. að honum þætti nein vansæmd að því að komast þannig að orði, enda er hann óvanur því að snúa skeytum sínum að samherjum sínum í ríkisstjórninni og talar helst minnst þegar verið er að skattleggja þjóðina þó svo að alþýðuflokksmenn hafi einu sinni talað munninn fullan af minna tilefni.
    Ég vil líka segja, hæstv. forseti, að það gladdi hjarta mitt þegar sú yfirlýsing kom úr forsetastóli að forseti Sþ. telur sig ekki vera forseta þingflokks og þingmanna Sjálfstfl. ( Forseti: Þetta er ósatt, þm.) Ég hygg að hæstv. forseti hafi oft talað ósannara orð í þessum þingsal.