Lánsfjárlög 1990
Miðvikudaginn 20. desember 1989


     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Frv. til lánsfjárlaga er í raun öðrum þræði fylgifrv. með frv. til fjárlaga og endurspeglar að sjálfsögðu þá stjórn ríkisfjármála sem við verðum að una við og um leið þá stjórn efnahagsmála sem við búum við í landinu. Í lánsfjáráætlun fyrir yfirstandandi ár er gert ráð fyrir 6 milljarða sölu á spariskírteinum á þessu ári en 3,5 milljarða innlausn, þ.e. að sala umnfram innlausn nemi 2,5 milljörðum kr. Þann 6. des. hafði tekist að selja 4,6 milljarða en innleyst skírteini námu 4,1 milljarði, þannig að sala umfram innlausn var einungis hálfur milljarður kr. Vonir eru bundnar við að lífeyrissjóðirnir kaupi það sem upp á vantar í lok ársins en þeir eru tregir til m.a. vegna þess að við það mun ávöxtun þegar keyptra skírteina lækka.
    Í lánsfjáráætlun fyrir næsta ár er gert ráð fyrir sölu spariskírteina sem nemur 6,3 milljörðum kr. samkvæmt þeim brtt. sem hér liggja fyrir, en að innlausnin verði einungis 2 milljarðar þannig að sala umfram innlausn er áætluð 4,3 milljarðar sem þýðir 46% aukningu í sölu spariskírteina að raungildi. Þessi mikla aukning í nettósölu spariskírteina byggir að verulegu leyti á áætlunum um ráðstöfunarfé lífeyrissjóða. Það er talið verða 24,1 milljarður kr. á næsta ári og aukast úr 17,6 milljörðum, eða um 37%, eða 18% að raungildi. Eigið framlag þeirra er talið verða um 17,3 milljarðar og aukast um 36% eða 17% umfram verðbólgu. Verður að telja áætlun um aukið ráðstöfunarfé sjóðanna mjög ríflega og verulega hættu á að hún gangi ekki eftir. Ef litið er á innkomin iðgjöld þá hækka þau mun meira en nemur breikkun iðgjaldsstofns og áætlaðri hækkun launa eða um 27% á milli ára.
    Samkvæmt þeirri þjóðhagsáætlun sem lögð var fram á fundi fjh.- og viðskn. í morgun hækka ráðstöfunartekjur í krónum talið um 9,5% en einkaneysla um 13,6%. Einkaneyslan er áætluð um 200 milljarðar kr. á næsta ári og sé gert ráð fyrir að einkaneysla og ráðstöfunartekjur standist nokkurn veginn á mun sparnaður
heimilanna minnka um 8 milljarða kr. eða lántaka aukast um sömu upphæð, allt eftir því hvort ráðstöfunartekjur nema lægri eða hærri upphæð en einkaneyslan.
    Það frv. sem hér liggur fyrir ber þess glöggan vott að við höfum nú búið við minnkandi landsframleiðslu í tvö ár og hér er verið að gera áætlun um þriðja árið þar sem enn hallar undan fæti. Endurskoðuð þjóðhagsáætlun fyrir það ár gerir ráð fyrir að fjármunamyndun muni dragast saman um 1%. Þar af stendur fjárfesting í íbúðarhúsnæði í stað, fjárfesting hins opinbera eykst um 3,7% en fjárfesting atvinnuveganna dregst saman um 4,4%. Ekki verður séð að samdráttur í fjárfestingu skapi nægilegt svigrúm fyrir áframhaldandi sókn ríkissjóðs inn á lánamarkaðinn. Þrátt fyrir að nokkur hluti fjárfestingarinnar séu innfluttar flugvélar er samdráttur

fjárfestingar áætlaður minni en í ár. Alls dregst fjárfesting atvinnuveganna saman um fimmtung án flugvélakaupa og mun allt það svigrúm hverfa og ríflega það vegna minni sparnaðar og aukinnar lántöku ríkissjóðs. Allar líkur eru á að lánsfjáröflunin í ár muni ganga treglega og ríkissjóður verði að brúa bilið með erlendri lántöku í byrjun næsta árs.
    Enn þá verr horfir um næsta ár. Ríkissjóður áformar að stórauka sölu spariskírteina nettó og velta áfram 3,8 milljörðum í ríkisvíxlum á sama tíma og þjóðhagsáætlun felur í sér minni sparnað. Við þetta bætist að horfur eru á að halli á ríkissjóði verði meiri en fjárlagafrv. gerir ráð fyrir og að ráðstöfunarfé lífeyrissjóða sé ofmetið. Það mun eitthvað bresta, annaðhvort verða raunvextir innan lands áfram háir eða hækka eða ríkissjóður verður að taka mikil erlend lán til að rétta stöðuna við Seðlabankann í upphafi árs 1991. Líklega verður það blanda af þessu tvennu.
    Eins og fram kom á fundum nefndarinnar var það sammæli allra þeirra sem komu fyrir hönd fjárfestingarlánasjóða að eftirspurn eftir lánum til fjárfestingar á þessu ári hefði dregist saman og það var sammæli þeirra einnig að mikið væri um það að lán hefðu verið veitt á árinu til skuldbreytinga og þeir töldu að þeirrar tilhneigingar mundi gæta í vaxandi mæli á næsta ári. Þó svo að gert sé ráð fyrir því í frv. til lánsfjárlaga að lántökuheimildir verði skertar hjá stofnfjársjóðum atvinnuveganna á næsta ári var ekki annað að heyra en forsvarsmenn sjóðanna teldu að það kæmi ekki að sök vegna samdráttarins í atvinnulífinu.
    Á næsta ári er talið að landsframleiðsla minnki enn um 3% og talið er að einkaneysla minnki um 2,1% frá því sem er á þessu ári. Búist er við því að kaupmáttur ráðstöfunartekna rýrni um 5,5% á næsta ári. Rýrnun ráðstöfunartekna á mann hefur þannig orðið um 2,7% á sl. ári, 8% á þessu og nú er því spáð að rýrnunin muni verða 5,5% á hinu næsta. Um leið og þessi geigvænlega kjaraskerðing liggur fyrir eru allar horfur á að atvinnuleysi verði vaxandi á næsta ári. Jafnvel er búist við því að í byrjun næsta árs gæti það farið upp í 4--5% sem er auðvitað miklu meira en við höfum þekkt um áratugi hér á landi. Það þýðir að atvinnulausir í janúarmánuði gætu orðið eitthvað um 5000 manns. Sumir eru svo bjartsýnir að þeir ætla að dragi úr atvinnuleysi yfir sumarmánuðina en skiptar skoðanir eru um það vegna þess mikla samdráttar sem er í atvinnulífinu sjálfu, en á hinn bóginn er bent á að íbúðarbyggingum hefur
verið haldið í horfinu og auðvitað liggur ekki endanlega fyrir enn hversu mikil opinber fjárfesting verður.
    Hvað sem öðru líður er það ljóst, herra forseti, að það frv. til lánsfjárlaga sem hér liggur fyrir er frv. um samdrátt. Það felur í sér minnkandi kaupmátt og atvinnuleysi, endurspeglar þá mynd sem við horfum nú fram á um leið og fram kemur í lántökuheimildum fyrir ríkissjóð að eyðsla hins opinbera mun síst minnka.
    Ef ég vík að einstökum greinum þessa frv. þá hef

ég út af fyrir sig ekkert að athuga við I. kafla frv., eins og ástandið er. Mér finnst að vísu sjálfgert að 4. gr. frv. verði felld þar sem Þróunarfélag Íslands kærir sig ekki um að fá ríkisábyrgð á sínum lánum og mér finnst ástæðulaust að þvinga ríkisábyrgð upp á þetta ágæta félag.
    Annar kaflinn er að venju takmörkun á ýmsum merktum tekjustofnum sem með lögum hafa verið ákveðnir til margvíslegrar starfsemi. Ef við horfum t.d. á 14. gr. þá er þar talað um framlag úr Stofnlánadeild landbúnaðarins vegna Lífeyrissjóðs bænda. Auðvitað væri miklu hreinna að þetta framlag gengi beint til lífeyrissjóðsins eða til Framleiðsluráðs heldur en að hafa Stofnlánadeild landbúnaðarins sem millilið. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það að Lífeyrissjóður bænda getur ekki staðið við skuldbindingar sínar til lengri tíma litið og væri auðvitað ástæða fyrir hæstv. landbrh. að taka það mál upp sérstaklega.
    Í 15. gr. er fjallað um Bjargráðasjóð. Það er ekki mikið af bændum hér inni sem eru stuðningsmenn þessarar ríkisstjórnar en ef svo væri, ef þeir væru hér inni þá mætti rifja það upp að höfuðverkefni Bjargráðasjóðs er tengt margvíslegum tjónum sem verða í landbúnaði. Með því að svipta Bjargráðasjóð framlagi frá einu ári til annars hefur smám saman fjarað undan honum. Eigið fé Bjargráðasjóðs hefur minnkað frá ári til árs og fyrirsjáanlegt, ef svo heldur fram sem horfir, að hann verði gjaldþrota á árinu 1991 eða 1992, eftir því hversu mikil tjón falla á hann. Örlög hans eru í raun ráðin með þessu frv. sem hér liggur fyrir. Annaðhvort næsta haust eða þarnæsta haust verður lagt hér fram á Alþingi frv. í sama dúr og frv. um Fiskimálasjóð nú í haust, jarðarfararfrv. sjóðsins. ( Gripið fram í: Útfararfrv.) Útfararfrv. sjóðsins og auðvitað nauðsynlegt úr því að ríkisstjórnin vill halda þessari stefnu áfram að hún með einhverjum hætti beiti sér fyrir endurskoðun á því hverjir eigi að taka við því hlutverki sem Bjargráðasjóður hefur gegnt. Á meðan engin slík tillaga liggur fyrir er auðvitað út í hött að skerða framlagið til Bjargráðasjóðs. En ég geri ekki ráð fyrir því að Bjargráðasjóður eigi marga formælendur í ríkisstjórninni.
    Í 16. gr. er fjallað um Hafnabótasjóð. Það kom fram í þeim plöggum sem fjh.- og viðskn. fékk í nefndinni að fjárþörfin í Hafnabótasjóði er eitthvað á annað hundrað millj. kr. Mér skilst að meiri hlutinn ætli að rausnast til þess að tvöfalda framlagið úr 20 millj. í 47,5 millj. kr. Það er auðvitað til bóta en ástæðan fyrir því að framlagið til Hafnabótasjóðs er tvöfaldað er ekki sú að ætlunin sé að sjóðurinn nýtist betur til þess sem hann var stofnaður til heldur er verið að fela ríkisútgjöld með þessum hætti. Sannleikurinn er sá að framlög til hafnamála hafa verið skorin verulega niður í fjárlögum eftir að þessi ríkisstjórn komst til valda, þá fór enn að halla undan fæti hjá höfnunum. Og þessi hækkun er til þess að fela nokkra hækkun sem verður á framlögum til hafnamála, einkum til tveggja hafna. Það kemur svo

í hlut annarrar og betri ríkisstjórnar að greiða þessi lán.
    Ég vil vekja sérstaka athygli á þeirri brtt. sem þingmaður Kvennalista hefur flutt við 19. gr. frv., til umhverfismála vegna Ferðamálasjóðs og styð þá tillögu.
    Í 21. gr. er lagt til að skerða framlag ríkissjóðs til Menningarsjóðs og binda það við 8,5 millj. kr. Þó liggur fyrir að þetta er hvergi nærri nóg ef sjóðurinn á að geta gegnt því hlutverki sem honum er ætlað. Ástæðan fyrir þessari skerðingu er sú að búist er við að sá sérstaki tekjustofn sem Menningarsjóður hefur muni ekki gefa meira af sér en 8,5 millj. kr. á næsta ári.
    Nú er það svo samkvæmt lögunum að Menningarsjóður nýtur þess ef þessi tekjustofn skyldi gefa eitthvað örlítið meira af sér. Það mundi ekki þýða frekari útgjöld fyrir ríkissjóð. Til samanburðar vil ég rifja upp að áætlaðar tekjur Menningarsjóðs af þessum tekjustofni voru 11 millj. á þessu ári og 9 millj. á sl. ári þannig að raunverulegur niðurskurður til Menningarsjóðs er um 50%. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig meiri hlutinn stendur að því að þurrka þennan sjóð upp einnig. Á sínum tíma gat sjóðurinn veitt listamönnum og fræðimönnum aðstoð, lítilfjörlega aðstoð að vísu, til ferðalaga eða til þess að ráðast í sérstök menningarleg verkefni. Það er auðvitað löngu liðin saga og spurning hvernig verður um menningarstofnanir eins og þessa þegar þannig er haldið á málum af hæstv. ríkisstjórn.
    Í 23. gr. er fjallað um Ríkisútvarpið. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um það. Auðvitað er það til skammar hvernig haldið hefur verið á málefnum
Ríkisútvarpsins og skal ég ekki taka það mál til umræðu hér né umfjöllunar. Það mál hefur rækilega verið rætt í fjvn. og við vitum að minna máli skiptir hvað fjh.- og viðskn. segir um þessa hluti en þetta lýsir hins vegar þeim skilningi sem hæstv. menntmrh. sérstaklega hefur á málefnum Ríkisútvarpsins. Við minnumst þess þegar hann var hér þingmaður hversu heita ást hann þóttist hafa til þeirrar stofnunar, að ég tali nú ekki um fulltrúa Alþfl. í fjh.- og viðskn., hv. 3. þm. Vesturl. Það kom alveg sérstakur tónn í rödd þeirra þegar þeir voru að lýsa ágæti Ríkisútvarpsins og þeir vildu virkilega láta þá fréttamenn sem þaðan eru finna það á þeim tíma að þeir ættu vini í varpa þar sem væri hlað Alþfl. eða hlað Alþb. En nú hefur hæstv. menntmrh. misst áhugann og nú hefur formaður menntmn. Ed. misst áhugann. Nú má láta Ríkisútvarpið danka og við í stjórnarandstöðunni getum í rauninni ekkert við því gert vegna þess að við vitum að við erum hér í minni hluta og við vitum að ekki yrði hlustað á þær raddir sem við höfum fram að færa í þessum efnum.
    Í 24. gr. er fjallað lítillega um eyðingu refa og minka. Það rifjar upp að nauðsynlegt er að búa mun betur að veiðistjóra en gert hefur verið. Það hefur hlaupið mikill ofvöxtur t.d. í stofn vargfugla hér á landi. Á hinn bóginn hefur endurskoðun fuglafriðunarlaga dregist svo mjög á langinn að maður

er farinn að halda að þau séu óbreytanleg úr þessu og auðvitað synd að ríkisstjórnin skuli ekki hafa meiri skilning á nauðsyn þess að útrýma slíkum illfyglum.
    Í 27. gr. er skert framlag til Framkvæmdasjóðs aldraðra, sem er nefskattur. Það er eiginlega hálfgerð synd að hæstv. félmrh. skuli ekki hafa verið fenginn til þess að mæla fyrir því ákvæði, skerðingarákvæðinu á Framkvæmdasjóð aldraðra. Mig minnir að á meðan sá hv. þm. var óbreyttur þingmaður hafi hann borið þennan sjóð mjög fyrir brjósti og hneykslast mjög á þeim mönnum sem þá voru við völd, hversu lítinn skilning þeir hefðu á málefnum aldraðra. En það er líka breytt og auðvitað út í hött að skerða þennan lið.
    Í brtt. meiri hl. í b-lið 9. till. er undarlegt ákvæði svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 25. gr. laga nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og 21. gr. laga nr. 16/1965, um Lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna, skal endurgreiðsla ríkissjóðs til sjóðanna vegna hækkunar á áður úrskurðuðum lífeyri eigi nema hærri fjárhæð en 540 millj. kr. á árinu 1990 og skiptast á milli sjóðanna í hlutfalli við óskertar endurgreiðslukröfur.``
    Þessi setning er auðvitað hæstv. ríkisstjórn til minnkunar.
    Það kom fram á fundi sem fjh.- og viðskn. átti með fulltrúum BSRB, Bandalags háskólamanna, Kennarasambands Íslands og Hjúkrunarfélags Íslands að þeir töldu þetta ákvæði svik við launafólk og undirbúning annarra meiri svika. Við vitum auðvitað að þessi svik eru tvíþætt. Annars vegar eru þetta svik gagnvart þeim skuldbindingum sem ríkið hefur gert gagnvart Húsnæðisstofnun ríkisins með því samkomulagi sem gert var 1986 milli lífeyrissjóðanna um kaup á skuldabréfum Byggingarsjóðs ríkisins. Á hinn bóginn er þetta ávísun á framtíðina. Auðvitað kemst ríkisstjórnin ekki hjá því að svara út nægilegum fjárhæðum til þess að ríkissjóður geti staðið við þær skuldbindingar sem umsamdar eru, verðtryggðan lífeyri handa því fólki sem unnið hefur hjá ríkinu.
    Á sama tíma og ríkissjóður sker þessa fjárhæð niður hefur sú krafa verið sett fram t.d. gagnvart ríkisbönkunum að þeir leggi þegar í stað til hliðar nægilegt fjármagn til þess að lífeyrissjóðir bankastarfsmanna geti staðið sjálfstætt undir sínum skuldbindingum. Auðvitað hlýtur hver heiðarleg ríkisstjórn sem hérna situr að gera áætlun um það að greiða þessa skuld á einhverju tilteknu árabili.
    Ég skal ekki fara lengra út í þessi mál vegna þess hversu knappur tími var til stefnu, herra forseti, og vegna þess að við sjálfstæðismenn höfum sérstaklega lagt okkur fram um það að greiða fyrir því að þau mál fái afgreiðslu sem ríkisstjórnin leggur áherslu á nú fyrir jólin. Við höfum á engan hátt viljað setja fótinn fyrir það að ríkisstjórnin nái þeim frv. fram sem hún vill sérstaklega ná fram. Sætti ég mig við það að í fjh.- og viðskn. var ekki lögð fram greinargerð um það hvernig skuldbindingum þessara lífeyrissjóða væri háttað, hvernig fjárstreymi hefði verið og hvenær búast mætti við að þeir yrðu

gjaldþrota miðað við þá smánarupphæð sem hér er lagt til að leggja þessum sjóðum til.
    Það var einungis af þessum sökum, herra forseti, sem ég fór ekki fram á það að fjh.- og viðskn. færi betur ofan í þetta mál, að ég vildi ekki verða til þess að setja stein í götu þessarar ríkisstjórnar, að hún gæti komið þeim málum fram nú á jólaföstu sem hún telur nauðsynleg. Og ég veit að hæstv. forseti staðfestir að það er rétt að þingmenn Sjálfstfl. hafa ekki með neinum hætti komið þannig fram hér í deildinni að hægt sé að halda því fram að þeir hafi raskað þingfriði og truflað þingstörf né heldur í nefndum að þeir hafi þar valdið röskun að neinu leyti. En ég viðurkenni að þetta hefur orðið á kostnað eðlilegra vinnubragða í nefndunum. Auðvitað bar okkur að fara betur
ofan í þetta sérstaka atriði, en í trausti þess að málið verði tekið upp af samtökum þeirra launamanna sem eru aðilar að þessum sjóðum og í trausti þess að sú ríkisstjórn sem kemur á eftir þessari muni standa öðruvísi að þessum málum létum við slag standa.
    Ég veit ekki hvort hæstv. forseti þekkir til kirkjumála. Ég veit ekki hvort forseti þessarar deildar hefur nokkurn tíma átt sæti í sóknarnefnd. En ef svo er, þá hygg ég að hann reki minni til þess að á það var lögð mikil áhersla á þinginu 1987 að við reyndum að koma okkur saman um einhverja þá lausn á fjárhagslegum vandamálum sóknanna að fjárhagur þeirra yrði eitthvað ögn skárri en áður og að þjóðkirkjan gæti orðið fjárhagslega sjálfstæð. Ég vissi ekki betur þegar við vorum að greiða atkvæði um breytt lög um sóknargjöld á því herrans ári 1987 en þingmenn hafi þá verið að reyna að gera það upp við sig hvort þeir vildu standa við þær skuldbindingar sem þá voru gefnar gagnvart kirkjunni. Hið sama á raunar við um kirkjugarðsgjaldið. Þessi lög hvor tveggja eru frá því herrans ári 1987. En nú á að fara að skerða þessa nýju tekjustofna. Að vísu ætlast ríkið til að sveitarfélögin greiði sinn hlut óskiptan. Þetta frv. eins og það liggur fyrir gerir ekki ráð fyrir því að létti á sveitarfélögunum, en ríkissjóður ætlar að smokra sér undan að greiða það sem honum ber. Þetta eru ekki háar fjárhæðir en þetta er eitt dæmið um það að þeir menn sem ráða ríkiskassanum vilja ekki standa við sitt. Það er náttúrlega ekkert einkamál Alþingis við Kirkjugarða Reykjavíkur þó svo einhverjir þingmenn utan af landi kunni að halda það. Fólk deyr einnig í öðrum landsfjórðungum, líka fyrir vestan, og það má vel vera að fjárhagur einmitt þeirra sem bera ábyrgð á slíkum görðum sé verri heldur en hér. Aðalatriðið er að nú er enn verið að bregðast, koma sér undan, láta aðra standa við sitt.
    Og svo er það Þjóðarbókhlaðan. Þau lög eru nr. 83/1989. Samt sem áður stendur hér: ,,Þrátt fyrir ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, skal á árinu 1990 ...`` Það er ekki einu sinni hægt að fara eftir lögunum í fyrsta skipti. Ekki í fyrsta skipti --- þrátt fyrir og þrátt fyrir. Ég vona að hæstv. menntmrh. hafi þann sóma af því máli sem hann hafði

vænst.
    Ég sé svo ekki ástæðu, herra forseti, til að fara um þetta fleiri orðum. Þetta frv. er, eins og ég sagði áðan, hálfgerður fylgifiskur fjárlagafrv. og auðvitað liggur það ljóst fyrir að við í stjórnarandstöðunni munum ekki hafa áhrif á afgreiðslu málsins. Ég vil í lokin bara rifja upp að við höfum hér í höndum fjárfestingaráform í ferðamálum á því herrans ári 1990, sem dagsett eru 24. ágúst sl. Þar er talið upp hvað búast megi við að fjárfestingaráform í ferðamálum verði mikil á næsta ári og þar er gert ráð fyrir að lánsþörfin verði vegna þess sem kallað er nokkuð öruggt 208 millj. kr., 31 millj. kr. vegna þess sem óvissara er og vegna þess sem kannski er bara hugsanlegt 34 millj. kr.
    Við höfum litið svo á að ferðamannaiðnaður sé ein þeirra atvinnugreina hér á landi sem gæti verið í vexti ef rétt yrði á haldið og enginn vafi er á því að gjaldeyristekjur af ferðamönnum og ferðamannaþjónustu gætu orðið mjög vaxandi hér á landi og kannski að einhverju leyti komið í stað þeirrar rýrnunar gjaldeyristekna sem við sjáum að óhjákvæmileg er á öðrum sviðum. Við vitum líka, herra forseti, að hótel úti á landi standa ekki undir sér. Hér er verið að tala um hótel á mjög --- ég vil segja afskekktum stöðum --- hótel á stöðum þar sem útilokað er að búast við að þau geti staðið undir sér nema eigið fé sé yfirgnæfandi. Sumpart vegna þess hversu knappur ferðamannatíminn er og sumpart vegna þess að þessi hótel eiga í harðri samkeppni við svokölluð Edduhótel sem byggð eru á kostnað ríkisins. Mörg þessara hótela eru ... ( KP: Ekki öll.) Ekki öll Edduhótel byggð á kostnað ríkisins? ( KP: Nei.) Ja, ég man nú ekki hvaða Edduhótel er ekki í héraðsskóla eða menntaskóla. ( KP: Flókalundur t.d.) Hann var ekki rekinn sem Edduhótel. ( KP: Jú, jú, í mörg ár.) Ekki þegar hann var byggður. ( Gripið fram í: Nei, ekki þegar hann var byggður.) Ekki þegar hann var byggður. Þá hefur hann verið tekinn á leigu af þeim og ekki ... ( Gripið fram í: Keyptur.) Hann er keyptur, já. Ekki vissi ég um það. Hins vegar tek ég undir það að Flókalundur er mjög fallegur staður. Mig minnir að Engey sé þar fyrir utan. (Gripið fram í.) Er það rétt munað hjá mér? Þessi hótel eiga í harðri samkeppni við Edduhótelin.
    Mörg sveitarfélög hafa orðið að greiða verulega fjármuni, jafnvel tugi milljóna vegna hallarekstrar á gistihúsum þar sem þau eru nauðsynleg en geta ekki risið undir fjárfestingunni. Ríkissjóður hefur lagt þessum hótelum til verulega fjármuni með styrkjum sem auðvitað eru veittir svona af og til og ekki nákvæm regla um það hvenær þeir falla til og nýtast af þeim sökum ekki til fulls.
    Við sjálfstæðismenn hér í deildinni fluttum um það brtt. að hótelbyggingar yrðu undanþegnar virðisaukaskatti eins og annað atvinnuhúsnæði vegna þessa eðlis hótelbygginga að þær eru gjaldeyrisskapandi. Á það var ekki fallist. Meiri hlutinn taldi ekki ástæðu til þess að örva hótelstarfsemi úti á landi né hér í Reykjavík. Meiri

hlutinn leit svo á að hótelbyggingarnar sjálfar ættu að
vera sérstakur tekjustofn fyrir ríkissjóð. Ef við lítum eingöngu á virðisaukaskattinn af þessum við skulum segja 250 millj. sem ég var að tala um gæti ríkissjóður hagnast á þessu um 65 millj. kr. Ef við tökum þá breytingu sem orðið hefur frá sl. ári er hér um hreina tekjuaukningu hjá ríkissjóði að ræða upp á um 30--40 millj. kr. Þetta litla dæmi um fjárfestingaráform í ferðamálum er gott dæmi um þá fjárfestingu sem allar líkur eru á að ekki verði úr vegna þeirra hækkuðu skatta sem nú eru að dynja yfir landslýð og vegna þeirrar stefnu hæstv. ríkisstjórnar að reyna að ná tökum á efnahagsmálunum og atvinnumálunum, annars vegar með því að framkalla atvinnuleysi hér á landi, óvissu í atvinnumálum og hins vegar með aðgerðum sem lúta að því að skerða kjörin í landinu með meiri og ósvífnari skattheimtu en áður hefur þekkst eins og gerð verður grein fyrir þegar frv. um tekju- og eignarskatt verður hér til umræðu.