Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):
    Hæstv. forseti. Það má ráða af svörum hæstv. ráðherra að ríkisstjórnin hyggst ekki ætla að standa við yfirlýsingu sína um að endurgreiða lántökugjald af þessum lánum. Óhjákvæmilegt er að fram komi hvaða dag hæstv. ríkisstjórn skrifaði Byggðastofnun og bað hana að sjá um endurgreiðslu á lánunum. Og óhjákvæmilegt er einnig að þessi lán eða þetta lántökugjald sem ég er að tala um nái almennt til lána sem tekin eru vegna skipasmíðaverkefna hér á landi. Tók ég rétt eftir? Var hæstv. fjmrh. að lýsa því yfir að hann ætlaði að binda þessa endurgreiðslu við þau erlendu lán sem höfðu verið tekin af Byggðastofnun? Eða var hæstv. fjmrh. að lýsa því yfir að þessi endurgreiðsla ætti að ná til allra þeirra erlendu lána sem tekin hefðu verið vegna meiri háttar endurbóta eða viðhalds á fiskiskipum hér á landi? Og eitt vantar inn í svarið enn. Nær þessi endurgreiðsla til þeirra lána sem tekin hafa verið vegna nýsmíði þess fiskiskips sem er í smíðum nú í Slippstöðinni á Akureyri? Ég óska eftir að hæstv. fjmrh. svari þessu skýrt því að svar hans var satt að segja óljóst.
    Í fyrsta lagi: Hvenær og hvernig eru fyrirmæli hæstv. ríkisstjórnar til Byggðastofnunar? Hvenær voru þau gefin og hvernig hljóða þau um að endurgreiða þessa fjármuni?
    Í öðru lagi: Ætlast ríkisstjórnin til að 6% lántökugjald verði greitt af lánum sem tekin hafa verið vegna þess fiskiskips sem er í smíðum á Akureyri?
    Í þriðja lagi: Eiga þeir sem fengu erlend lán með öðrum hætti en í gegnum Byggðasjóð, vegna samsvarandi verkefna í sömu skipasmíðastöðvum, að bera lántökugjaldið?
    Um þetta verða að fást greið svör.