Veiðieftirlitsgjald
Föstudaginn 22. desember 1989


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Einmitt vegna friðarhátíðarinnar sem nú gengur í garð þá ætla ég ekki að spilla heimilisfriði hv. þm. lengur en orðið er af ýmsum ástæðum hér á jólaföstu í þinginu. En aðeins vegna orða hv. 4. þm. Vesturl. vildi ég segja að hann hefur trúlega misskilið einhvern hluta af máli mínu en hann kveðst lesa ræður mínar í þingtíðindum þannig að ég endurtek ekki en vil aðeins í hnotskurn segja að hann tók reyndar sjálfur ágætt dæmi um yfirgang ráðuneyta í morgun varðandi dómsmrn. Ég er honum alveg sammála þar. Ég er ekki að tala um að auka völd eða sjálfstæði ráðuneyta gagnvart löggjafarsamkundunni. Ég á við, og við kvennalistakonur, svo ég tali fyrir okkur allar, við viljum dreifa ábyrgð og valdi út til hinna ýmsu stofnana og auka fjárhagslegt sjálfstæði þeirra. Mér hefur reyndar fundist hv. 4. þm. Vesturl. ekki alveg kunna fótum sínum forráð í þessari umræðu. En ég vona að við getum komist að því þegar ársuppgjör liggur fyrir eftir þetta ár sem nú er að líða, þá hefur væntanlega farið fram talning eins og gjarnan er gert um áramót, og þá vitum við kannski hve mörg Alþýðubandalög er að finna hér.