Lánsfjárlög 1990
Föstudaginn 22. desember 1989


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Á þskj. 473 liggur fyrir álit meiri hl. fjh.- og viðskn. Þar segir að nefndin hafi fjallað um frv. og fengið á sinn fund Indriða H. Þorláksson hagsýslustjóra, Markús Örn Antonsson útvarpsstjóra, Hörð Vilhjálmsson, fjármálastjóra Ríkisútvarpsins, Guðbrand Gíslason frá Kvikmyndasjóði, Má Elísson frá Fiskveiðasjóði og biskup Íslands, hr. Ólaf Skúlason.
    Meiri hl. nefndarinnar mælir með því að frv. verði samþykkt og undir það rita Jón Sæmundur Sigurjónsson, Páll Pétursson og með fyrirvara Guðmundur G. Þórarinsson og Þórður Skúlason.
    Það er óhjákvæmilegt að taka það fram að þetta mál fékk ekki mikla umfjöllun í hv. nefnd. Það var aðeins hjá nefndinni í einn sólarhring og okkur gafst ekki tækifæri til að fara ofan í frv. eins og ástæða hefði verið til og verðum því að reiða okkur á verk efrideildarmanna sem að sjálfsögðu hafa verið vönduð og góð.
    Því ber að fagna að frv. til lánsfjárlaga skuli verða lögfest fyrir áramót og þess vegna höfðum við þann hátt á, sættum okkur við þessa fljótaskrift okkar, í meiri hl.
    Mér er það ljóst að æskilegt hefði verið fyrir meiri hl. og fyrir nefndina að gefa sér miklu betri tíma til að kanna þau gögn sem lágu að baki þeim tölum sem í frv. eru.
    Þeir menn sem nefndin kvaddi á fund sinn og mættu fyrir nefndinni tjáðu sig um það sem þeir voru spurðir um og ber að þakka þeim þau svör. Hins vegar er óhjákvæmilegt að taka fram að einn af þeim sem nefndin kvaddi á sinn fund, talsmaður Þróunarfélags Íslands, sá sér ekki fært að mæta fyrir nefndinni.
    Herra forseti. Meiri hl. fjh.- og viðskn. leggur til að frv. verði samþykkt.