Flugmálaáætlun 1990--1993
Mánudaginn 22. janúar 1990


     Karvel Pálmason:
    Virðulegur forseti. Mér þykir rétt við fyrri umræðu þessa máls að vekja athygli á ákveðnu máli og beina því til hæstv. ráðherra og fjvn. en það er fjárframlög til Ísafjarðarflugvallar.
    Nú vita allir hv. þm. ábyggilega að flugið á þetta svæði er með meira móti en kannski tíðkast annars staðar, hlutfallslega varðandi íbúafjöldann. Þetta er nánast eina samgönguleiðin oft og tíðum. Ástand flugvallarins er þannig að þar þarf að skipta um jarðveg til þess að sá flugvöllur verði nothæfur. Hvað slíkt kostar veit ég ekki, en að því þyrfti að hyggja þegar litið er til þess að hér er verið að tala um fjögurra ára áætlun að Ísafjarðarflugvöllur er malarvöllur. Að vísu er bundið slitlag á litlum hluta annars endans. Auðvitað þarf að koma slitlag á þennan völl og það er augljóst að við Vestfirðingar munum ekki sætta okkur við það að næstu fjögur ár líði án þess að farið sé að huga að slitlagi á þennan völl.
    Ég ætla ekki að fara að bera saman þær upphæðir sem ætlaðar eru til hinna einstöku staða, en þær eru auðvitað og kannski eðlilega misjafnar, eins og staðirnir eru margir. En sumar tölur stinga auðvitað í stúf. Þær eru kannski mikilvægar. Það er allt upp undir 50 millj. kr. fjárveiting á þessu ári til sumra staða, og ekki er ég að halda því fram að það sé ekki nauðsyn. En ég held að það verði óhjákvæmilegt að breyta þarna fjárveitingum að því er varðar Ísafjarðarflugvöll á þessum árafjölda sem er verið að ræða um í þessari tillögugerð. ( PJ: Það eru 100 millj. veittar.) 100 millj. Já, það kann að vera rétt. Ég hef ekki farið yfir alla staðina, en það verður trúlega búið að kanna betur fyrir næstu umræðu um þetta mál hvernig skiptingin er og hvað er fyrirhugað að gera. Ég vildi hins vegar koma þessu varðandi Ísafjarðarflugvöll strax inn í þessa umræðu sem ég held að sé óhjákvæmilegt að breyta við afgreiðslu þessarar áætlunar, hjá því verði ekki komist.