Úrskurðir Jafnréttisráðs
Fimmtudaginn 25. janúar 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er gert ráð fyrir að Jafnréttisráð sé mjög sjálfstæð ríkisstofnun. Hlutverk ráðherra er fyrst og fremst að setja nánari reglur um framkvæmd laganna og leggja fyrir ríkisstjórnina framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn. Samkvæmt lögum er það hins vegar Jafnréttisráð sem tekur við kærum og kveður upp úrskurði. Ekki er fyrir hendi málskotsheimild til ráðherra. Hins vegar er ljóst að úrskurðir Jafnréttisráðs geta haft veruleg áhrif við gerð framkvæmdaáætlunar í jafnréttismálum.
    Jafnréttisráð fær á ári hverju allmargar kærur vegna meintra brota á ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Tímabilið 1984--1986 voru kærur vegna meintra brota á lögunum samtals 28. Eitt mál frá þeim tíma er nú til meðferðar hjá dómstólum. Á árinu 1987 voru kærur vegna meintra brota á lögunum samtals 8 og á árunum 1988 og 1989 voru þær 14 hvort ár, en þær taka ekki aðeins til stöðuveitinga. Frá 1976, þ.e. 13 ára tímabili eða frá því að jafnréttislögin voru sett hefur Jafnréttisráð þrisvar úrskurðað að ráðherra hafi brotið jafnréttislög. Um er að ræða þau tvö skipti sem fyrirspyrjandi nefnir auk þess sem Jafnréttisráð taldi á árinu 1986 að þáv. menntmrh. hefði brotið ákvæði laga þegar hann skipaði karlmann lektor í íslenskum bókmenntum við heimspekideild Háskóla Íslands.
    Í eitt skipti var ekki kært en Jafnréttisráð tók málið upp að eigin frumkvæði og ályktaði að um brot á jafnréttislögum væri að ræða. Það var varðandi veitingu apótekaraleyfis, sennilega á árinu 1982 eða 1983.
    Samkvæmt lögunum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skal Jafnréttisráð beina rökstuddum tilmælum til viðkomandi aðila, telji ráðið lögin hafa verið brotin, sbr. 16. gr. laganna. Fallist viðkomandi aðili ekki á
tilmæli ráðsins er ráðinu heimilt að höfða mál til viðurkenningar á rétti aðila í samráði við hann. Þannig hefur Jafnréttisráð ekki heimild til að bera málið fyrir dómstóla nema í umboði og með samþykki þess er brotið var gegn. Í þessum tveimur málum sem hér er sérstaklega spurt um hefur, af hálfu þeirra sem kærðu, ekki verið óskað frekari aðgerða. Jafnréttisráð hefur heldur ekki óskað eftir því við félmrh. að gripið verði til sérstakra aðgerða, hvorki vegna þessara tveggja mála né annarra. Hlutverk félmrh., skv. lögunum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, er mjög skýrt. Félmrh. hefur hvorki heimild til að grípa inn í úrskurði Jafnréttisráðs né grípa til sérstakra aðgerða vegna slíkra úrskurða. Hins vegar hefur ráðherra heimild til að grípa til aðgerða sem ætlað er að bæta stöðu kvenna almennt, aðgerða sem ætlað er að styrkja stöðu kvenna og þar með væntanlega og vonandi til að fækka þeim tilvikum þar sem konur eru sérstaklega misrétti beittar.
    Í vor var lagt fram frv. til nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í frv. er gert ráð

fyrir að stofnuð verði sérstök kærunefnd jafnréttismála. Hlutverk Jafnréttisráðs verði í ríkara mæli en nú er að stuðla að eigin frumkvæði að aðgerðum til að bæta stöðu kvenna. Hlutverk félmrn. verður, auk núverandi verkefna, að annast samræmingu jafnréttismála innan stjórnkerfisins.
    Eitt meginatriði frv. er það að telji einhver rétt á sér brotinn varðandi ráðningu eða ráðningarkjör ber atvinnurekanda að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun. Þetta frv. verður væntanlega lagt fyrir Alþingi fljótlega, en þar er að finna ákvæði sem eru mun markvissari um meðferð kærumála ef um brot á jafnréttislögum er að ræða.
    Af því sem hér hefur verið greint má ljóst vera að jafnréttislög heimila félmrh. ekki að grípa til sérstakra aðgerða vegna meintra brota á jafnréttislögum né úrskurða Jafnréttisráðs af því tilefni og má vafalaust um það deila hvort rétt og eðlilegt væri að ráðherra hefði slíkt vald.