Störf ríkisskattanefndar
Fimmtudaginn 25. janúar 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Þann 19. jan. sl. biðu 1161 mál úrskurðar hjá ríkisskattanefnd. Þessi mál skiptast þannig eftir árum: Frá árinu 1987 eru 4 mál óúrskurðuð, frá árinu 1988 eru 47 mál óúrskurðuð, frá árinu 1989 eru 1010 mál óúrskurðuð og frá árinu 1990, það sem af er því ári, 100 mál óúrskurðuð.
    Það er ljóst af þessum tölum að yfirgnæfandi hluti þeirra mála sem bíða úrskurðar hjá ríkisskattanefnd er frá árinu 1989 og tekist hefur að vinna upp öll mál frá fyrri árum nema 51.
    Ég vil vekja athygli hv. fyrirspyrjanda og hv. alþm. á því að fyrr á þessu þingi lagði ég til í frv. til laga um breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, 210. mál, breytingar á starfsháttum ríkisskattanefndar til að stuðla að flýtingu mála. Hv. alþm. geta lesið rökstuðninginn fyrir þeim tillögum á bls. 11 í því frv. en þær miða að því að flýta afgreiðslu mála hjá ríkisskattanefnd og gera störf hennar skilvirkari á ýmsan hátt, jafnhliða því sem gerðar hafa verið skipulagsbreytingar hjá skattstjórum og hjá ríkisskattstjóra til þess að flýta afgreiðslu mála.
    Við meðferð málsins hér á þingi komu hins vegar upp óskir frá hv. alþm. um að taka þennan þátt frv. út úr og skoða hann nánar. Ég varð við þeirri ósk en vil hins vegar nota þetta tækifæri til þess að ítreka þá skoðun mína að nauðsynlegt er að á þessu þingi verði sett í lög breytingar á störfum ríkisskattanefndar sem stuðlað geti að því að meðferð mála verði skilvirkari hjá nefndinni. Ég vil þess vegna koma þeirri ósk á framfæri við hv. fjh.- og viðskn. sem hafði frv. til meðferðar á sínum tíma að hún skoði með hvaða hætti hægt sé að tryggja að þær breytingar sem við lögðum til fyrr á þessu þingi nái fram að ganga.