Útgerð Andra BA
Fimmtudaginn 25. janúar 1990


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Einmitt vegna þess að utanrrn. hefur að sjálfsögðu sinnt þeirri skyldu sinni að liðsinna þessum íslensku aðilum í samskiptum við stjórnvöld, sem okkur ber skylda til samkvæmt samningi, er það þeim mun fráleitara og reyndar alvarlegt mál þegar einn hv. þm. gerist hér talsmaður þess að bera fram kröfur á hendur skattgreiðendum út af þessu máli án þess að styðja það nokkrum rökum. (Gripið fram í.) Augnablik, spara frammíköllin. Að því er varðar spurninguna um áhættu þessara aðila lá það auðvitað ljóst fyrir og enginn misskilningur um það, þeir fengu leyfi fyrir allt að 30 þús. tonnum til vinnslu en það leyfi var hluti af sameiginlegum stærri kvóta fyrir Joint Venture fyrirtækið og enginn ætti að vita það betur en íslenskur útgerðarmaður að þær aðstæður gætu skapast að sá fiskur veiddist ekki eða að vinnsluskipið, ef það kemur ekki á staðinn og vinnur hann, missi af kvótanum.
    Þá er það spurningin um það í hverju áhættan var fólgin. Að sjálfsögðu var það ekki íslenskra stjórnvalda að taka ákvarðanir eða leggja dóm á þá áhættu sem fyrirtækið tekur, en um upplýsingagjöf er það að segja að að sjálfsögðu var öllum kunnugt um það, bæði samstarfsaðila fyrirtækisins, sem er starfandi útgerðaraðili í Alaska, og lögfræðilegum ráðgjafa sem þekkir þarna mjög vel til, hver þróunin hafði verið. Ég nefndi áðan tölur um Japan og nefni hér tölur um það að árið 1990 er búist við því að erlendir aðilar hafi á sinni könnu um 10% af þeim afla sem veiddur er á þessu svæði en fyrir þremur árum var það um 80%. Með öðrum orðum, það lágu auðvitað ljóst fyrir upplýsingar um það að kvótaúthlutun frá einu ári til annars árs, hún var ekki tryggð, og hver þróunin hafði orðið á þessum árum.
    Síðan, virðulegi forseti, um leið og ég lýk máli mínu og af því að hér eru uppi hafðar kröfur um bótakröfur á hendur ríkinu, þá vildi ég
nú bara t.d. nefna það að það var ekki til þess að auðvelda starfið að einn aðili, einn af þeim þremur aðilum sem áttu aðild að þessu fyrirtæki, reyndar einstaklingur að nafninu Jón Kristinsson, sagði sig úr fyrirtækinu vorið 1989, gengur úr Íslenska úthafsútgerðarfélaginu og sendir í desember bréf til fiskveiðaráðsins í Alaska þar sem hann segir að úthafsútgerðarfélagið hafi ekki rétt til vinnslukvótans. Þannig að það eru orðnar deilur milli hinna íslensku aðila sem urðu ekki til þess að auðvelda málarekstur gagnvart erlendum aðilum, reyndar hreint út sagt til þess að skaða hann stórlega. Og síðan er komið hér upp með kröfur um að íslensk stjórnvöld séu ábyrg og skaðabótaskyld.