Eftirlaunasjóðir einstaklinga
Mánudaginn 29. janúar 1990


     Anna Ólafsdóttir Björnsson:
    Virðulegi forseti. Lífeyrissjóðirnir eru í núverandi mynd frumskógur sem þarft væri að kortleggja og koma því svo fyrir að sem mests réttlætis væri gætt. Endurskoðun lífeyriskerfisins hefur verið í gangi um margra ára skeið og ítarlegar tillögur hafa verið lagðar fram til athugunar þar sem gert hefur verið ráð fyrir samræmingu sjóða en ekki sameiningu, en ekki hefur verið tekin afstaða til þessara tillagna enn né þær teknar til umræðu í þeirri mynd sem þær komu fram í.
    Sumir hafa einnig talið að best væri að fara þá leið að allir landsmenn yrðu aðilar að sama lífeyrissjóði. Mönnum hefur lengi verið ljóst að mikið misræmi er milli lífeyrisréttinda fólks sem og þess hve mikið það hefur greitt í sjóðina eftir starfsaldri, vinnuframlagi utan heimilis og eftir því að hvaða sjóðum það á aðild. Eins og hv. 1. flm. þáltill. nefndi er hér um mjög fjölskrúðugan hóp að ræða. Stór hópur fólks á ekki aðild að lífeyrissjóðum og óljósan kost á slíku. Á það sérstaklega við um heimavinnandi fólk, aðallega húsmæður sem eiga engan vinnuveitanda formlegan til að greiða sinn hlut né heldur fé fyrir eigin launavinnu til þess að borga launþegahlutinn. Ýmis réttindi þessa hóps, t.d. lánamöguleikar, eru verulega skertir. Við þessu hefur orðið að bregðast en betur má ef duga skal. Meðal þess sem gert hefur verið til að jafna aðstöðu fólks er að tryggja þeim sem búa við lágan, skertan eða engan lífeyri tekjutryggingu þó að ekki sé hún há. Tekjutrygging nær nefnilega til margra, ekki eingöngu þeirra sem trassa að borga í lífeyrissjóð og borga ekki til sjóðanna vegna þess að þeir vilja það ekki.
    Hið eina sem allir virðast vera sammála um er það að lífeyrismál séu í ólestri. Mismunun milli sjóða of mikil, yfirstjórn víða skelfilega kostnaðarsöm og eins og menn hafa bent á er fyrirsjáanlegt gjaldþrot jafnvel státnustu sjóða þar sem þeir eru sumir hverjir byggðir upp sem söfnunarsjóðir en greitt úr þeim eins og þeir væru gegnumstreymissjóðir.
    Tillaga sú sem hér er til umræðu virðist einkum byggjast á tvennu: Að minnka þann kostnað sem menn hafa af því að safna sér lífeyrisréttindum með einföldun, samræmingu og því að nýta það kerfi sem fyrir er, t.d. bankana, og svo hins vegar að einfalda kerfið til að gera það skilvirkara og gera það skýrara hver staða hvers og eins er með því að einstaklingar myndi hver og einn sinn eigin söfnunarsjóð. Auk þess kom fram í ræðu hv. 1. flm. þáltill. að hann telur að þessar tillögur leiði til sparnaðar almennt og vísa ég til ræðu hans.
    Ég er sammála því að allar leiðir til að minnka kostnað við öflun lífeyrisréttinda eru góðra gjalda verðar. Hins vegar hef ég ákveðnar athugasemdir við þá leið sem hv. flm. þessarar tillögu vilja fara, en vitanlega er fyllsta ástæða til að gefa því gaum sem hér er komið fram. Mér sýnist sú leið sem hér er verið að benda á einkum koma vel út fyrir þá sem hefja starfsferil sinn snemma á ævinni og eru í

almennri launavinnu. En mér sýnist þessi leið lítt sniðin að þörfum þeirra sem falla utan þessa hóps og þeir eru margir. Vera má að flm. till. hafi ákveðnar lausnir á þessu í huga og lýsi ég hér með eftir þeim. Í þessum hópi eru m.a. margar konur sem vinna aðeins hluta af starfsævi sinni utan heimilis og kunna því illa að eiga sinn lífeyrisrétt undir tekjuöflun maka sé hann til staðar. Ég vil minna á frv. kvennalistakvenna um lífeyrisréttindi heimavinnandi fólks í þessu sambandi. Þar er bent á ákveðnar lausnir sem eru færar ef vilji er fyrir hendi til þess að greiða fyrir heimavinnandi konur í lífeyrissjóðina því að flestir þeir sem eru heimavinnandi eru konur.
    Hins vegar eiga sér nú stað margvíslegar breytingar á vinnumarkaðinum þar sem launagreiðslur eru sveiflukenndar, sumir vinna hjá mörgum vinnuveitendum, fyrirkomulag vinnu margs konar, launavinna er engin föst stærð og svo er komið hjá mjög mörgum nú að það sem við höfum litið á sem tiltölulega stöðugan fastan vinnumarkað launþega er ekki lengur staðreynd.
    Ef litið er til fólks í hlutastörfum, heimavinnandi, sjálfstæðra verktaka og svokallaðra gerviverktaka og annarra sem ekki mundu safna sér réttindum og öryggi með því að safna sér inn á bankabók með hlutfalli af föstum launum er ljóst að talsvert meiri uppstokkunar er þörf á lífeyriskerfinu en hér er lögð til. Í þessari uppstokkun verður m.a. að líta á að fleiri störf eru þjóðhagslega arðbær en þau sem greitt er fyrir í krónum og aurum.
    Ég vil bara koma þessum athugasemdum á framfæri. Hugmyndin sem hér er viðruð er gott innlegg í þessa umræðu en meginmarkmið þeirrar endurskoðunar sem óhjákvæmilega hlýtur að verða á lífeyriskerfinu verður að vera að tryggja réttlæti fyrir alla og að sjálfsögðu traustan rekstur lífeyrissjóðanna.