Eftirlaunasjóðir einstaklinga
Mánudaginn 29. janúar 1990


     Jón Sæmundur Sigurjónsson:
    Hæstv. forseti. Ég veit að mikið er búið að segja í þessari umræðu og ég skal verða stuttorður og ekki lengja umræðuna um of. Ég ætla ekki að nota tækifærið til að mótmæla þeirri staðhæfingu að veski manna séu líffæri, hvað þá að við eigum að rækta það með okkur. Við getum látið það liggja á milli hluta.
    Hv. 14. þm. Reykv. Guðmundur H. Garðarsson særði okkur stjórnarþingmenn að gera nú eitthvað í hlutunum til að umrætt lífeyrissjóðafrv. sem liggur niðri í skúffum fjmrn. verði lagt fram. Ég treysti enn á það sem hæstv. fjmrh. sagði hér fyrr í vetur að hann mundi leggja þetta frv. fram. Það er ekki það að ég hlakki svo mjög til að þetta frv. komi fram vegna þess hve gott það er. Ég veit að mikið hefur verið unnið við það og menn hafa vandað til verka. Niðurstaðan er hins vegar ekki sú sem ég hefði helst óskað að yrði, þ.e. niðurstaðan er ekki sú að þarna sé um gegnumstreymiskerfi að ræða. Hv. flm. þeirrar þáltill. sem hér liggur frammi bendir á gegnumstreymiskerfi sem björgun á öllum þeim göllum sem þáltill. hans felur í sér varðandi það fyrirkomulag á lífeyrismálum sem hann leggur til. Gegnumstreymið á að bjarga því sem bjargað verður. Ég held að gegnumstreymið sé það sem bjargi því sem bjargað verður í lífeyrissjóðsmálum yfirleitt og ég treysti á stuðning Guðmundar H. Garðarssonar þegar þar að kemur.
    Nei, framlagning frv. fjmrh. er eiginlega fagnaðarefni vegna þess að það gefur tækifæri til að ræða þessi mál í stórum dráttum í miklu víðara samhengi en við höfum tækifæri til í dag. Það er alveg rétt að tillagan sem liggur í skúffunum mundi bæta það kerfi sem við búum hér við í dag stórkostlega en hún gerir ekki það besta sem hægt er að gera í þessum málum.