Flm. (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 168 um leiðsögumenn í skipulegum hópferðum erlendra aðila á Íslandi. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Árni Gunnarsson, Hjörleifur Guttormsson, Jón Helgason og Stefán Valgeirsson. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að sjá til þess að í skipulögðum hópferðum erlendra aðila á Íslandi sé ætíð með í för íslenskur leiðsögumaður sem nýtur réttinda samkvæmt reglugerð um starfsmenntun leiðsögumanna ferðafólks nr. 130/1981.``
    Á síðustu árum hefur ferðaþjónusta verið ört vaxandi atvinnugrein hér á Íslandi og er nú sú atvinnugrein sem menn binda hvað helst vonir við að muni verða okkur drjúg tekjulind og muni skapa okkur verðmætar gjaldeyristekjur á komandi árum. Það var í kringum 1950 sem fyrst var farið að skipuleggja aðgerðir til að fá hingað erlenda ferðamenn. Síðan hefur þeim fjölgað úr 5 þús. í 131 þús. á nýliðnu ári.
    Á allra síðustu árum hefur fjölgun erlendra ferðamanna hér á landi verið ótrúlega mikil. Þannig fjölgaði þeim á árabilinu 1981--1985 um 65%. Stór hluti þessara ferðamanna kemur hingað og ferðast um landið í skipulögðum hópferðum. Talið er að gjaldeyristekjur þjóðarinnar af erlendum ferðamönnum hafi numið 9--10 milljörðum á árinu 1989.
    Ferðaþjónustan hefur einnig fjölgað störfum og aukið fjölbreytnina í atvinnulífinu, ekki síst úti á landsbyggðinni þar sem fábreytni atvinnulífsins hefur sums staðar verið talin standa byggð fyrir þrifum. Á sama tíma og erlendum ferðamönnum hefur fjölgað svo mjög hafa Íslendingar í auknum mæli farið að ferðast um eigið land bæði sem einstaklingar og í skipulögðum hópferðum.
    Íslenskir leiðsögumenn fara gjarnan með hópum ferðamanna um landið. Þeir taka á móti þeim við komuna til landsins og fylgja þeim á ferðum þeirra. Flestir eru sammála um að leiðsögumaður geti skipt afgerandi máli í viðhorfi ferðamanns til lands og þjóðar. Kannanir hafa sýnt að mjög margir ferðamenn setja leiðsögn efst á blað í sambandi við ferðalög. Íslenskir leiðsögumenn hafa, auk þeirrar þekkingar og reynslu sem felst í því að búa í landinu, sótt námskeið og þreytt próf í Leiðsöguskóla Ferðamálaráðs. Þar er ítarlega fjallað um allt það sem flesta ferðamenn fýsir að vita og gerðar eru miklar kröfur um hæfni leiðsögumannsins til að kynna landið og menningu þess.
    Sem fylgiskjal með tillögu þessari er reglugerð um starfsmenntun leiðsögumanna ferðafólks og vil ég benda hv. þingheimi á hversu víðtækt það svið er sem menntun leiðsögumanna spannar, hversu miklar kröfur eru gerðar um þekkingu á öllu milli himins og jarðar, svo sem jarðfræði, gróðri, dýralífi, veðri, náttúruvernd, sögu, atvinnuvegum, þjóðfélagsmálum, bókmenntum, listum og minjasöfnum svo að eitthvað sé nefnt.
    Um öll þessi atriði og hugtök sem þeim tengjast þurfa leiðsögumenn sem fylgja erlendum hópum að

eiga orð á erlendum tungumálum. En reynsla allra leiðsögumanna er reyndar sú að námskeiðið og prófið sem leiðsögumenn taka í lok þess sé þó aðeins byrjunin. Hver ferð krefst góðs undirbúnings og leiðsögumenn standa ævinlega frammi fyrir því að þurfa að svara nýjum spurningum, fylgjast með þjóðmálunum frá einum tíma til annars og bregðast við nýjum aðstæðum.
    Félag leiðsögumanna hefur undanfarin ár staðið fyrir öflugri fræðslustarfsemi til að koma til móts við þörfina fyrir stöðuga endurnýjun og aukna þekkingu þeirra sem við leiðsögu starfa. Auk fræðslufunda og námskeiða um ýmis afmörkuð efni hafa leiðsögumenn mikinn áhuga fyrir að geta boðið upp á námskeið fyrir svæðisleiðsögumenn úti í kjördæmum landsins, gönguleiðsögumenn og fjallaleiðsögumenn svo að nefnd séu dæmi. Þegar hafa verið haldin svæðisnámskeið á Suðurnesjum, Húsavík og á Akureyri. Slík námskeið þurfa að sjálfsögðu að vera á faglegum grunni en eru mikilvægur liður í því að þjálfa heimafólk úti í byggðum landsins til leiðsögustarfa.
    Íslenskur leiðsögumaður sem getur glætt áhuga ferðamannsins á landi og þjóð skapar mikil verðmæti í formi jákvæðrar landkynningar. Kannanir benda til þess að stór hluti ferðamanna heimsæki landið vegna ummæla einhverra sem áður hafa verið hér. Slæmur leiðsögumaður sem ekki skilar sínu hlutverki gerir að sama skapi mikið ógagn.
    Ísland býr yfir óvenjulegri náttúrufegurð en jafnframt miklum hættum. Aðstæður bæði í landinu sjálfu og hvað veðurfar snertir eru flestum útlendingum framandi. Það höfum við verið óþægilega minnt á hvað eftir annað og síðast nú fyrir tveimur vikum síðan. Það er því mikil ábyrgð að leiða hóp fólks um svæði þar sem hættur leynast við hvert fótmál og náttúran sjálf er ekki síður í hættu nema henni sé sýnd fyllsta aðgætni. Staðkunnugur, menntaður leiðsögumaður sem þekkir vel allar aðstæður, svo og lög og reglur sem gilda um umgengni við landið, er líklegur til að geta frekar axlað þá ábyrgð en erlendur fylgdarmaður sem dvelur hér aðeins um stundarsakir.
    En það er fleira sem hyggja þarf að. Það má telja líklegt að samskipti ferðamanna við innlenda aðila verði stundum annmörkum háð ef forsvarsmaður hópsins getur ekki fullkomlega tjáð sig á því máli sem talað er í landinu. Fylgdarmaður ferðamannahóps kemst ekki hjá því að eiga einhver samskipti við fólkið í landinu. Mjög mikilvægt er að ekki verði misskilningur, t.d. í samskiptum við löggæslu, hjúkrunarfólk, landverði, starfsfólk hótela og bílstjóra.
    Á síðari árum hefur gætt vaxandi áhuga erlendra aðila sem skipuleggja hópferðir til Íslands að senda sjálfir fólk með hópnum til leiðsögu og fararstjórnar. Sniðganga þeir þar með íslenska leiðsögumenn. Vinnuframlag erlendra fylgdarmanna hefur aukist mun meira en fjölgun ferðamanna gefur tilefni til. Árið 1988 voru veitt 27 starfsleyfi til erlendra leiðsögumanna sem unnu hér samanlagt 360 dagsverk.

Sumarið 1989 var fjöldi veittra starfsleyfa 45 og dagsverkin um það bil 1100. Þessi mikla aukning sýnir glögglega hvert stefnir. Erlendir leiðsögumenn geta aflað sér þekkingar úr bókum eða með öðrum hætti, en vafasamt hlýtur að teljast að þeir geti gefið jafn persónulega og jákvæða mynd af landinu og fólkinu og íslenskir leiðsögumenn sem, jafnframt því að búa í landinu, hafa hlotið sérstaka menntun til starfsins. Þá getur þekking erlendra leiðsögumanna á hinni viðkvæmu náttúru landsins og þeim hættum sem hér geta leynst tæpast í nokkrum tilvikum verið eins örugg og íslenskra leiðsögumanna.
    Öll vitum við líka að heimildir um Ísland í erlendum bókum eða bæklingum gefa oft alls ekki rétta mynd af landinu og þjóðinni. Því má svo heldur ekki gleyma að ferðaþjónustan skapar mörg ný atvinnutækifæri hér í landinu. Leiðsögumenn eru ein margra stétta sem ættu að njóta góðs af fjölgun ferðamanna. Með vaxandi fjölda erlendra leiðsögumanna missa þeir nú atvinnu. Erlendu leiðsögumennirnir sem hér starfa þiggja laun sín í heimalandi sínu og greiða því hvorki skatta né önnur gjöld hér á landi. Þannig hefur vinna þessara erlendu aðila bæði áhrif á fjárhag einstaklinga og afkomu ríkissjóðs.
    Í þeim löndum sem eiga að baki langa þróun í þjónustu við ferðamenn gilda yfirleitt þær reglur að erlendir ferðamannahópar verða að hafa með sér innlendan leiðsögumann í borgum og á markverðum stöðum. Erlendir ferðamenn á Íslandi ferðast gjarnan vítt og breitt um landið og algengt er að ferðamannahópur sem dvelur hér nokkra daga eða vikur ferðist um stórt svæði, bæði í byggð og óbyggð. Á hverri dagleið er komið á marga markverða staði, náttúruundur eða sögustaðir heimsóttir sem hver og einn gerir kröfur um sérþekkingu leiðsögumannsins. Þar hefur Ísland nokkra sérstöðu umfram önnur lönd. Litið er á landið allt sem áhugavert ferðamannasvæði, enda reyna flestir sem hingað koma að fara sem víðast og sjá sem mest. Þess vegna hafa íslenskir leiðsögumenn gert sér far um að afla víðtækrar þekkingar á landinu öllu og kunna skil á sem flestum landshlutum. Erlendis er algengt að fararstjóri fylgi hópum milli markverðra staða þar sem leiðsögumenn taka síðan við og miðla af sinni sérþekkingu.
    Margir erlendir aðilar sem skipuleggja hópferðir til Íslands hafa sent fararstjóra með hópnum, en jafnframt ráðið íslenskan leiðsögumann í ferðina um landið. Slíkt er mjög jákvætt og aukin þjónusta við ferðamennina. Oftar hafa þó íslenskir leiðsögumenn jafnframt tekið að sér hlutverk fararstjóra með góðum árangri, enda gerir menntun þeirra ráð fyrir slíkri þjónustu.
    Þá má ekki gleyma því að íslenskir leiðsögumenn hafa einnig sinnt ákveðinni eftirlitsskyldu með ferðamönnum og skipulagi ferðalaga og þannig komið í veg fyrir vandræði sem annars hefðu getað orðið. Vegna vanþekkingar hafa margir hópar nærri brotið íslensk lög og hefur þá komið til kasta leiðsögumanns að kynna gildandi reglur fyrir fólki. Slíkt eftirlit og

fyrirbyggjandi starf er mjög mikilvægt þar sem margir eiga þess ekki kost að fá slíkar upplýsingar öðruvísi en e.t.v. af biturri reynslu.
    Mjög erfitt er að fylgjast með og sannreyna hæfni þeirra erlendu leiðsögumanna sem vinna hér á landi. Flestir dvelja í stuttan tíma og halda af landi brott um leið og hópar þeirra. Sumir hafa unnið hér í nokkur ár en aðrir eru nýliðar, hafa e.t.v. komið hér í öðrum tilgangi áður eða eru í fyrsta skipti í landinu. Oft er það svo að fólk vinnur fyrir erlendar ferðaskrifstofur sem fararstjórar um heim allan og tekur að sér leiðsögustarf þar sem engin slík þjónusta er fyrir hendi. Enn aðrir eru sérfræðingar á afmörkuðu sviði, t.d. í jarðfræði eða fuglafræði, og telja sig þannig færa um að taka starfið að sér. Íslenskir leiðsögumenn þurfa, eins og fyrr segir, að afla sér menntunar í leiðsöguskóla Ferðamálaráðs og sanna þar hæfni sína til starfsins. Í þessum efnum eru því auðsjáanlega ekki gerðar sömu kröfur til innlendra og erlendra leiðsögumanna.
    Þann 14. jan. 1988 bárum við, sú sem hér stendur og hv. þingkona Kristín Einarsdóttir, fram fsp. til þáv. hæstv. samgrh. Matthíasar Á. Mathiesen um veitingu atvinnurekstrarleyfa til erlendra ferðaskrifstofa. Þá þegar þótti okkur stefna í óefni vegna fjölgunar erlendra leiðsögumanna. Var í umræðunni um þá fsp. gefin út yfirlýsing af hálfu hæstv. samgrh. um að hann hygðist gera
breytingar á lögum um ferðamál fyrir þinglok það ár. Ekkert varð af þeirri fyrirætlun og þar sem þróunin hefur orðið sú sem ég hef nú lýst, að erlendum leiðsögumönnum hefur fjölgað mjög, þótti okkur tímabært að bera fram þessa till. Vil ég jafnframt undirstrika að fleiri hv. þm. hafa séð ástæðu til þess með því að gerast meðflm. að henni. En í umræðunni um fsp. okkar þann 14. jan. 1988 sagði núv. hæstv. samgrh. m.a. --- nú er hæstv. samgrh. ekki hér en það hefði verið gott ef svo hefði verið, en ég ætla að leyfa mér að vitna til orða hans að honum fjarstöddum, með leyfi forseta:
    ,,Mín skoðun er sú að það eigi að vera ófrávíkjanlegt að allar skipulagðar hópferðir hafi íslenska leiðsögumenn eða þá að veittar séu frá því sérstakar undanþágur með tilliti til rökstuðnings og aðstæðna í hverju einstöku tilfelli. Annars sé það undanþágulaust.
    Með tilliti til þeirra naumt skömmtuðu fjárveitinga sem eru til þessara mála er nauðsynlegt að taka þessi mál upp og taka þau fastari tökum. Ég hvet hæstv. ráðherra til að taka þessi mál upp og bæta úr þessu ástandi fyrir ferðamannavertíðina á komandi sumri og greina Alþingi frá því áður en það fer heim fyrir vorið til hvaða ráðstafana þeir hyggist grípa í þessu skyni.``
    Lýkur þar tilvitnun minni í núv. hæstv. samgrh. og vil ég reyndar ljúka máli mínu með þessum orðum hæstv. samgrh. og hvetja hann til að láta til skarar skríða í þessum málum, íslenskri ferðaþjónustu og þeim ferðamönnum sem hingað koma til heilla.
    Það hefði reyndar verið freistandi og full þörf á að

ræða ýmis fleiri mál sem varða ferðaþjónustuna sem atvinnugrein. Við stöndum frammi fyrir því að við verðum brátt að taka afstöðu til heildarstefnu varðandi atvinnugreinina. Vonandi sjáum við sem allra fyrst hugmyndir þeirrar ferðamálanefndar sem nú starfar á vegum samgrn. þannig að við getum fljótlega fjallað um ferðamálastefnuna í heild sinni. En ég tel þetta mál brýnt og vona að það fái skjóta meðferð og framgang hér á þessu þingi. En að lokinni þessari fyrri umræðu vil ég vísa till. til síðari umr. og hv. atvmn.