Lánskjör og ávöxtun sparifjár
Þriðjudaginn 30. janúar 1990


     Flm. (Eggert Haukdal):
    Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka þær umræður sem fram fóru sl. þriðjudag og miðvikudag um frv. mitt um lánskjör og ávöxtun sparifjár sem enn er hér til umræðu. Umræðan síðustu viku þróaðist þó þannig að mest var rætt um vaxtamálin almennt og hvernig lánskjaravísitalan hefur leikið þjóðina en minna um frv. sjálft. Var það raunar ekki óeðlilegt miðað við hvernig þessi mál brenna á þjóðinni.
    Það vakti mikla athygli við umræðurnar að allir hæstv. ráðherrar skyldu vera fjarverandi. Þáv. starfandi hæstv. viðskrh. Jón Baldvin Hannibalsson hlýddi þó á hluta umræðunnar síðari daginn án þess að taka til máls og því miður er svo enn að hæstv. ráðherrar eru ekki viðstaddir. Ekki verður þó sagt um hæstv. utanrrh. að hann sé mállítill og oft hefur hann látið í sér heyra þegar mál varðandi vexti og Seðlabanka hafa verið til umræðu. Oft hefur hæstv. forsrh. einnig gefið yfirlýsingar um lánskjaravísitöluna. Hann hefur og talið þetta
frv. sem hér er til umræðu eitt besta frv. sem flutt hefur verið, svo að notuð séu hans eigin orð. Þrátt fyrir það sást hann hvergi og sést ekki enn.
    Fleiri en ráðherra vantaði líka í þingsal. Heilir þingflokkar létu svo að segja ekki sjá sig í salnum og fjölmiðlarnir höfðu ekkert frá tveggja daga vaxtaumræðum að segja. Þeim fannst ekki frásagnarvert að segja frá merkum ræðum hv. þm. Árna Gunnarssonar, Matthíasar Bjarnasonar, Pálma Jónssonar o.fl. um þessi mál. Þessa dagana eru þó vaxtamálin ofarlega í umræðu. Það er vegna þess að eitt höfuðbaráttumál aðila vinnumarkaðarins í samningum um kaup og kjör, sem nú standa yfir, er að þeir lækki að marki þannig að ekki fari allt til andskotans, svo að notuð séu fleyg orð. Á sama tíma og aðilum vinnumarkaðarins er ljóst að vaxtamálin skipta máli fyrir atvinnuvegina og heimilin í landinu virðast vera til sterk öfl sem vilja þegja þessa umræðu í hel.
    Þrátt fyrir það virðist samkvæmt frásögn Morgunblaðsins í morgun vera komið samkomulag við bankana um lækkun nafnvaxta í áföngum þannig að nú um mánaðamótin lækki þeir úr rúmum 29% í 22%, 1. mars í 18% og 1. apríl í 14%. Með þessum aðgerðum er verið að framkvæma það sem ég hef talað um í þrjú ár og því fagna ég mjög þessum tíðindum. En lánskjaravísitalan þarf að fara. Annars sækir óðara í sama farið.
    Ég vil aðeins víkja að ræðu hv. 7. þm. Norðurl. e. Málmfríðar Sigurðardóttur, en hún ræddi einmitt frv. sjálft efnislega um daginn. Aðrir ræðumenn fjölluðu meira um þann ófögnuð sem lánskjaravísitalan hefur leitt yfir þjóðina. Það má hins vegar ekki skyggja á dagskrárefnið sem er vissulega frv. mitt um lánskjör og ávöxtun sparifjár. Ræða hv. þm. gefur mér kærkomið tækifæri til þess að útskýra ýmis atriði nánar.
    Hv. þm. sagði fyrst að lagt sé til samkvæmt frv. að tengja vaxtastigið því sem gengur og gerist í helstu

viðskiptalöndum okkar. Ekki er þetta alls kostar rétt. Ákvæðið er nefnilega þegar fyrir hendi í seðlabankalögunum. Í 2. mgr. 9. gr. laganna um Seðlabankann segir að Seðlabankinn geti að fengnu samþykki ráðherra bundið vaxtaákvarðanir innlánsstofnana takmörkunum til að tryggja að raunvextir útlána innlánsstofnana verði eigi hærri en þeir eru að jafnaði í helstu viðskiptalöndum Íslands. Þessi heimild Seðlabankans nær sem sagt aðeins til raunvaxta erlendis. Viðskiptabankarnir geta því óáreittir og hindrunarlaust hækkað vextina í takt við verðbólguna og síðan bætt raunvöxtum við er séu svipaðir og erlendis þar sem verðbólga er lítil sem engin. Í frv. mínu er breytt aðeins einu orði í 9. gr. seðlabankalaganna. Orðið ,,nafnvextir`` kemur í stað orðsins ,,raunvextir``. Samkvæmt því getur Seðlabankinn að fengnu samþykki ráðherra hamið vexti að því marki að nafnvextir hér og erlendis séu áþekkir. Með því er tryggt að útflutningur okkar sem keppir á erlendum mörkuðum njóti sömu vaxtakjara og þar gilda hjá keppinautunum. Sú hefur ekki verið raunin þennan hávaxtaáratug og þess vegna riða atvinnufyrirtækin til falls. Með lagabreytingu minni er einnig dregið úr verðbólguáhrifum vaxta.
    Þá víkur hv. þm. í öðru lagi að gengistengingunni. Það er alger misskilningur hjá hv. þm. að ég sé að boða almenna gengistengingu. Bæði hún og verðtrygging eru heimilar samkvæmt Ólafslögunum. Ég er þvert á móti að boða afnám hvors tveggja, afnám allrar verð- og gengistryggingar á fjárskuldbindingum, þar með bæði inn- og útlánum, og afnám lánskjaravísitölu en með einni undantekningu þó sem varðar bundin spariinnlán til árs eða lengri tíma. Þau eru lítið brot heildarinnlána. Það er gert til þess að þeir sem vilja geyma fé sitt á banka eða sparisjóði yfir lengri tíma þurfi ekki að óttast verðrýrnun þess. Jafnframt er lagt til að vöxtum af öðrum spariinnlánum verði haldið eins háum og unnt er miðað við útlánsvexti á hverjum tíma. Slíkt er að sjálfsögðu ekki unnt að ákveða í smáatriðum í lagagrein. Reglugerð verður að koma til.
    Í þriðja lagi er hv. þm. ósammála því að engir eða mjög lágir vextir séu greiddir af hlaupareikningum og lágir vextir af öðrum veltiinnlánum. Þetta eru aðallega viðskiptareikningar, m.a. kaupsýslumanna, en 90% og allt að 95% af
rekstrarkostnaði banka fer í að þjónusta þessa reikninga en rekstrarkostnaður bankanna á síðasta ári var um 7 milljarðar kr. Þeir sem nota þessa þjónustu eiga að borga fyrir hana. Þeir gera það að hluta með lágum vöxtum af veltiinnlánum. Það á ekki að skella öllum rekstrarkostnaði bankanna á útlánin og hækka vexti af þeim tilsvarandi. Það bæði íþyngir lántakendum ranglega og ýtir undir kostnaðarverðbólgu. Launþegum er innan handar að fá kaup sitt greitt inn á sparisjóðsreikninga í stað hlaupareikninga til að fá hærri vexti og það kostar ekki nema eitt símtal að færa þar á milli. Þessi háttur að greiða litla eða enga vexti af veltiinnlánum er á hafður hvarvetna í vestrænum ríkjum. Svo er

örugglega í Bretlandi, Kanada og Bandaríkjunum. Hef ég rætt við lögfræðing, hagfræðing og forstjóra sem hafa átt innlán í bönkum í þessum löndum langtímum saman. Þeir hafa staðfest þetta.
    Að lokum. Sjálfsagt er að skoða einstök atriði þessa frv. í nefnd og lagfæra það sem betur má fara. Ég endurtek þakkir fyrir umræðuna og mæli með að frv. verði vísað til hv. fjh.- og viðskn. að lokinni umræðu.