Fyrirspurn um kennsluefni í íslenskum bókmenntum
Miðvikudaginn 31. janúar 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Þannig háttar til að kennarar og skólastjórar hér á landi hafa frelsi. Ekki er skipað fyrir um það í einstökum atriðum hvaða bækur þeir mega sýna í kennslustundum. Það kann að hafa verið til, á þeim tíma þegar Sjálfstfl. fór með menntmrn., skráning í einhverri tölvu á hverjum einasta bæklingi sem lesinn var í hverjum einasta skóla, í hverri einustu stofu, af hverju einasta grunnskólabarni í landinu. Hafi það verið til þá hef ég aldrei séð það gagn sem betur fer og vil ekki sjá það.
    Ég vil nota þetta tækifæri, virðulegi forseti, til að andmæla þessari ritskoðunarfýsn sem birtist í málflutningi hv. 2. þm. Norðurl. e. Þó hann muni gera tilraun til þess að biðja mig um að senda út njósnara í hverja einustu skólastofu í landinu, jafnvel þó það komi fram í skriflegri fsp., mun ég neita því, virðulegi forseti, það er alveg á hreinu. Ég læt ekki hafa mig í svoleiðis fíflaskap.
    Ég tel að hv. 2. þm. Norðurl. e. hafi fengið nægilega skýr svör. Af minni hendi hefur hann ekkert með skýrari svör að gera. Hann getur svo sem reynt að spyrja um eitthvað og það er guðvelkomið að dunda við að svara honum fram eftir vetri. En þessi ritskoðunarleiðangur verður ekki farinn af minni hálfu enda heyrist mér reyndar að hv. þm. sé byrjaður á honum sjálfur. Hann er búinn að upplýsa það að í einum framhaldsskóla í landinu sé ekki lesin öll Snorra-Edda heldur aðeins partur af henni. Hv. þm. Halldóri Blöndal er guðvelkomið að halda áfram þessum sjálfboðaliðastörfum, bæði í grunnskólum og framhaldsskólum landsins, gegn því að hann trufli ekki um of skólastarfið í vetur.