Fyrirspurn um kennsluefni í íslenskum bókmenntum
Miðvikudaginn 31. janúar 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Vegna þessara orða hv. 2. þm. Norðurl. e. vill forseti enn taka fram að fsp. var borin fram með fullkomlega þinglegum hætti enda samþykkt af forseta. Forseti Sþ. hefur hingað til ekki þurft að halda forsetafundi til þess að meta hvort fsp. væru þinglegar eða svörin. Ég tel það heldur ekki nauðsynlegt í þessu tilviki. Svar barst frá hæstv. ráðherra, var sent hv. þm. og engin athugasemd við það gerð fyrr en skyndilega núna á þessum fundi. Nú vill svo til að forseti hefur lesið þetta svar allvel, eins og alla jafna, og taldi það vera allnokkurt svar en erfitt að meta hvort það var samkvæmt innstu óskum hv. 2. þm. Norðurl. e. En þar sem engin sérstök athugasemd kom fram taldi forseti ekki ástæðu til að inna neitt frekar eftir því.
    Nú hefur komið fram að hv. fyrirspyrjandi sættir sig ekki við svarið. Forseti hefur gert það að tillögu sinni að hann beri fram fsp. um þau atriði sem ekki var svarað að þessu sinni. Hæstv. ráðherra hefur þegar lýst því yfir að við samhljóða fsp. fáist ekki annað svar. Forseti hefur ekki vald á því að þvinga ráðherra til að svara öðruvísi en honum sýnist. Ég get því ekki séð að hér sé nein ástæða til forsetafundar um málið. Forseti mun að sjálfsögðu beita sér fyrir því að hröð og áreiðanleg svör komi við fsp. sem innir eftir þeim atriðum sem ekki fékkst svar við. Annað held ég að geti ekki verið um þetta mál að segja.