Húsameistari ríkisins
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson):
    Hæstv. forseti. Er embætti húsameistara ríkisins tímaskekkja? Væri hagkvæmara fyrir ríkið að leggja embættið niður eða gjörbreyta starfsemi þess?
    Árið 1903 var ráðinn sérfróður maður til að gera uppdrætti að opinberum byggingum á vegum ríkisins. Slíkt var eðlilegt á þeim tíma er slík verkþekking var af skornum skammti í landinu. Enda stýrðu þessu embætti óvenjuhæfir menn sem höfðu mikil áhrif á byggingar og byggingarlist í landinu, svo sem Guðjón heitinn Samúelsson.
    Tímarnir hafa breyst. Nú skipta þeir hundruðum sem hafa það fyrir atvinnu að vinna við arkitektúr og byggingareftirlit á einkastofum í harðri samkeppni um verð og hugmyndir. Hjá embætti húsameistara vinna nú 20--30 manns. Embættið veltir tugum eða hundruðum milljóna. Mér hefur fundist sú umsjón og það eftirlit sem embættinu er ætlað að fara með hafa mistekist. Kostnaðaráætlanir hafa ekki staðist og æði oft hefur verkið farið svo gjörsamlega úr böndunum að furðu sætir. Má þar nefna Flugstöðina o.fl. Mér finnst síðan ábyrgð embættisins oftast óljós.
    Ýmsir hafa séð sér hag í því að segja sig undan embættinu í sparnaðarskyni. Það gerði Alþingi fyrir skömmu, á þeim sviðum sem það stangast ekki á við reglugerð. Það sem vekur mesta athygli er að Garðar Halldórsson húsameistari er í stórfelldum einkapraxís. Ég nefni hér tvö verk til sögunnar. Hann er annar af tveimur arkitektum að væntanlegu hóteli Eimskipafélags Íslands. Hann er enn fremur annar af tveimur arkitektum að viðbyggingu á Hótel Sögu.
    Stangast þetta ekki á við réttindi og skyldur opinberra starfsmanna? Veikja slík vinnubrögð ekki móralinn á vinnustað? Eftir höfðinu dansa limirnir, segir einhvers staðar. Er þetta víðar látið viðgangast hjá ríkinu? Hvað yrði sagt ef ríkislögmaður væri að flytja skilnaðarmál fyrir borgardómi, eða forstjóri Þjóðhagsstofnunar ræki fasteignasölu? Mér skilst að lögmenn í ríkisþjónustu verði t.d. í hverju tilfelli að biðja leyfis vilji þeir taka að sér mál fyrir einkaaðila.
    Vegna þessa máls hef ég hér lagt fyrir hæstv. forsrh. fsp. í tveimur liðum.