Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Það fer greinilega mjög í taugarnar á hv. 1. þm. Suðurl. að geta ekki togað stjórnarflokkana í sundur eftir sínu höfði í þessum efnum og hann gerir sér jafnvel upp barnalega tilburði eins og við heyrðum hér áðan til þess að túlka ummæli í svari hæstv. forsrh. með fullkomlega tilefnislausum hætti. Hv. 1. þm. Suðurl. sat víst einhvern tíma í ríkisstjórn og honum á þess vegna að vera kunnugt um það hvernig hlutir ganga þar fyrir sig. Eins og kom fram í máli og svari hæstv. forsrh. var umræða um utanríkismál, þar á meðal þessi efni, á fundi ríkisstjórnarinnar 29. des. sl. Það var hreinskiptin, ítarleg og löng umræða um nokkur mismunandi efni á sviði utanríkismála. Þar greindu talsmenn flokkanna inni í ríkisstjórninni frá sjónarmiðum sinna flokka og sínum áherslum í þessum efnum. Meira er ekki um það efni að segja í sjálfu sér og það er fullkomlega tilefnislaust og tilhæfulaust af þó jafnreyndum stjórnmálamanni og hv. 1. þm. Suðurl. að vera þar með að gera því skóna að einhver ein tiltekin fréttatilkynning standi um aldur og ævi fyrir afstöðu allra stjórnarflokkanna sem hv. þm. veit að er gefin út á ábyrgð og af utanrrh. og lýsir hans viðhorfum til málsins, enda fer hann með það verkefni í ríkisstjórninni. Flokkarnir hafa síðan sína afstöðu og hún hefur komið fram, bæði í umræðum hér á Alþingi og í ríkisstjórn og hv. þingmann er velkomið að upplýsa hvenær sem er um áherslur Alþb. í þessum efnum. Ég veit að hann hefur alltaf jafnmikla ánægju af því að heyra þær.