Mengunvarnir á Gunnólfsvíkurfjalli
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég er sammála fimmta hjólinu undir ríkisstjórninni, hv. 6. þm. Norðurl. e., um það að þeir ráðherrar sem hafa talað í þessu máli séu eins og hundur og köttur. Spurningin er bara hvor er kötturinn og hvor hundurinn. En hitt er alvarlegra mál þegar í ljós kemur að samgrh. telur að vatnsbóli þeirra Þórshafnarmanna sé ógnað vegna vanrækslu utanrrh. og er óhjákvæmilegt að þeir hæstv. ráðherrar sem hér eiga í hlut gefi fyllri upplýsingar og fyllri skýrslu um þetta málefni en hér hafa komið fram. Ég tel, hæstv. forseti, að nauðsynlegt sé að hæstv. samgrh. geri Alþingi grein fyrir því hvernig hann hyggst rækja embættisskyldur sínar þannig að hæstv. utanrrh. verði að hlíta settum lögum og reglum. Það er auðvitað alveg óþolandi að þessi tvö ráðuneyti geti ekki talast við. Það er auðvitað alveg óþolandi að vanrækslusyndir hrúgist upp líka í mengunarmálum hér. Ef á hinn bóginn er fyrir öllu öryggi séð er málflutningur hæstv. samgrh. fyrir neðan allar hellur.