Afgreiðsla erlends gjaldeyris
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):
    Ég geri mér ekki grein fyrir, hæstv. forseti, í hvaða tóni ég talaði. Það sem ég var hins vegar að benda á var það að reglur eins og þær sem hæstv. ráðherra lýsti hér, um að menn geti fengið allt að 2000 dollurum ef þeir sækja um gjaldeyri, hafa auðvitað enga merkingu þegar menn geta eytt miklu, miklu meiri peningum með því að sækja ekki um neinn gjaldeyri heldur nota einungis greiðslukort sín. Það kann vel að vera að hv. 17. þm. Reykv. sé þeirrar skoðunar að engar hömlur skuli vera á gjaldeyriseyðslu einstaklinga, en ég held nú að það mál mætti ræða á öðrum vettvangi. Vilji menn hins vegar hafa reglur um aðra greiðsluaðferðina, þá skulu þeir hafa hana um hina líka. Annars er ekkert vit í þessu.
    Þessari athugasemd vildi ég koma á framfæri, hæstv. forseti.