Skýrsla um kaup hlutabréfa í Samvinnubanka.
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég tel það afar eðlilegt að hv. 2. þm. Norðurl. e. skuli kveðja sér hljóðs hér um þingsköp þegar skoðaður er aðdragandi þess hvernig viðkomandi mál sem hér hefur verið minnst á hefur orðið til og síðan velkst hér í Ed. Fyrst af öllu vil ég þó að það komi hér fram, þannig að það sé alveg ljóst, að núna stendur yfir fundur forseta þingsins og það kann að þykja nokkuð furðulegt að halda forsetafund á sama tíma og yfir stendur fundur í Sþ. Þessu bið ég virðulegan forseta, sem er varaforseti Sþ., um að koma til skila til virðulegra forseta, hvort ekki sé hægt að haga fundum þingsins þannig að kostur gefist á því að ræða um gang þingmála við forseta þegar fundur stendur yfir.
    Ástæðan fyrir því að hv. þm. getur ekki tekið málið upp í Ed. er einfaldlega sú að það er ekki boðaður fundur í Ed. í dag og þess vegna var honum nauðugur sá kostur að óska eftir því að forseti Ed., sem hér er staddur í húsinu, komi hér og segi sína skoðun á ákveðnu máli sem er til umræðu og fjallar eingöngu um þingsköp.
    Þetta mál sem hv. 2. þm. Norðurl. e. minntist á hefur auðvitað mikil áhrif út í þjóðfélagið. Annars vegar, eins og hann sagði, getur þetta snert samninga okkar við erlenda aðila vegna orkukaupa sem fylgdu uppbyggingu stóriðju hér á landi og nú eru í uppsiglingu. Hins vegar getur þetta mál haft stórkostleg áhrif á áætlanir sveitarfélaga sem ákveða, sem betur fer, samkvæmt gildandi lögum, gjaldskrár sinna fyrirtækja, þar á meðal orkuveitna, og það má búast við að hvers konar skattlagning geti haft áhrif á slíka ákvörðun. Þess vegna er þessi fyrirspurn eðlileg og umræðan sem hér fer fram, en þar sem hæstv. iðnrh. er nú staddur hér og hefur tekið til máls um þingsköp og varðar þetta mál, þá getur hann leyst þetta mál hér og nú.
    Það hefur komið fram í máli hæstv. iðnrh. að hann hafi haft ýmsar athugasemdir að gera við fyrirliggjandi stjfrv., og hann hefur þegar lýst því yfir að hans flokkur, Alþfl., sé á sama máli og hann. Hæstv. ráðherra getur hér og nú lýst því yfir að viðkomandi frv. verði kallað aftur og annaðhvort birtist ekkert nýtt frv. eða þá frv. í öðrum búningi. Það er mjög mikill ósiður, svo að vægt sé til orða tekið, að fram komi á þinginu stjórnarfrumvörp sem ríkisstjórnin stendur alls ekki að. Hæstv. ráðherra hefur sagt að hann hafi ýmsar athugasemdir að gera við þetta frv. sem þýðir það á mæltu máli að ekki er samkomulag í hæstv. ríkisstjórn. Það er ekki samkomulag á milli stjórnarflokkanna um frv. Og það er óverjandi fyrir hæstv. ríkisstjórn að láta slíkt frv. velkjast í þinginu og það sé hægt að ætlast til þess að frv. gangi til nefndar og svo eigi nefnd þingsins að leysa úr þeim ágreiningi sem ríkir á milli stjórnarflokkanna. Hæstv. ráðherra getur hér og nú, ef hann vill, lýst því yfir að frv. sem hér hefur verið gert að umræðuefni í umræðum um þingsköp verði kallað aftur og þá er málið leyst.