Ólafur G. Einarsson:
    Herra forseti. Ég vil aðeins taka það fram að hæstv. forseti rakti hér alveg réttilega þær tilraunir sem hafa verið gerðar til að þoka þessu máli áfram. Og hæstv. forseti sagði svo að því yrði ekki haldið fram að forseti hefði farið fram með offorsi í þessu máli. Ég ætla að staðfesta það. Hæstv. forseti hefur alls ekki gert það. Hann hefur ekki farið fram með neinu offorsi. Það hefur komið fram alveg greinilega að hann er að gera það sem ríkisstjórnin segir honum að gera. Það er að vísu miður að hann skuli láta hafa sig til slíkra verka. En ég skil hans afstöðu og aðstöðu alla, ég skil hana.
    Af því að hér var talað um ofbeldi segi ég það líka að ekkert ofbeldi hefur verið framið hér af hæstv. forseta. En okkur í hv. allshn. þótti það jaðra við ofbeldi þegar málið var tekið út úr nefndinni með atkvæðum stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar án þess að það hefði nokkuð verið rætt. Það má alveg orða það svo að það jaðri við ofbeldi. Og ég fullyrði að það eru a.m.k. ekki þingleg vinnubrögð, það er fjarri því að það séu þingleg vinnubrögð sem þar voru viðhöfð.
    Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði nokkur orð af sinni alkunnu speki. Mér fannst hann vera dálítið að snúa út úr þegar hann var að tala um hvort væri skynsamlegra að stofna ráðuneyti fyrst eða færa verkefnin, afgreiða fyrst frv. sem fjallar um verkefnatilfærsluna. Mér finnst þetta vera útúrsnúningar. Það sem við höfum haldið fram að væru hin réttu vinnubrögð er að frumvörpin yrðu samferða. Það er hið eina rétta. Ef mönnum þykir eitthvað fara miður ef þau eru ekki samþykkt sama daginn er auðvitað auðvelt að hafa gildistökuákvæði frumvarpanna beggja hinn sama dag. Þetta eru hin réttu vinnubrögð. Hitt er beinlínis fáránlegt, eins og hér hefur margsinnis komið fram, að samþykkja þetta frv. sem hér er til umræðu án þess að verkefnayfirfærslan eigi sér stað.
    Svo vegna síðustu orða hæstv. forseta, þá vonast ég til að við náum góðu samkomulagi í næstu viku eða kannski þar næstu um afgreiðslu þessa máls hér í deildinni.