Norrænt samstarf 1989
Mánudaginn 05. febrúar 1990


     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Á dagskrá þessa fundar eru skýrslur ýmissa nefnda sem eiga hlut að alþjóðasamskiptum fyrir hönd Alþingis og það er til bóta að þessar skýrslur skuli koma til umræðu ekki síðar en nú á þinginu, breyting til bóta frá því sem verið hefur þar sem umræða um álit þessara nefnda, skýrslugjöf, hefur oft á fyrri þingum fallið saman við skýrslu utanrrh. og blandast saman við þau stóru og viðamiklu mál sem tengjast umræðu um hana. Ég fagna þessari breytingu og vænti þess að áfram verði haldið og þetta verði til þess að fleiri raddir heyrist hér á þinginu varðandi þátttöku okkar í þessu alþjóðastarfi innan Norðurlanda á vegum EFTA og Alþjóðaþingmannasambandsins. Það er hins vegar verulegur ljóður á þessari umræðu, eins og kom fram hjá formanni Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, að ekki skuli liggja fyrir skýrslan frá samstarfsráðherra okkar varðandi störf ráðherranefndar Norðurlanda sem tengjast að sjálfsögðu mjög verulega starfi Norðurlandaráðs sem þingmannasamkomu.
    Það þarf ekki undan því að kvarta að á vettvangi Norðurlandaráðs fer fram mjög viðamikil umræða um stór málefni og raunar í meiri mæli nú hin síðari ár, hygg ég vera, en stundum á árum áður þegar undan því var kvartað að verkefnum færi fækkandi og ekki bæru við neinir stóratburðir eða umræða um hin mikilsverðustu mál á vettvangi Norðurlandaráðs. Hér eru það umhverfismálin og málefni Evrópu og Evrópusamstarfs sem hafa verið verkefni síðustu þinga ráðsins, aukaþings í Helsingör 1988, aðalþings í Stokkhólmi á síðasta vetri um mánaðamótin febrúar--mars, þar sem Evrópumálin bættust við og komu til sérstakrar umræðu og þátttaka Norðurlandaráðs í ýmsu alþjóðasamstarfi sem þeirri umræðu tengdist, og síðan sérstaks aukaþings sem kvatt var saman líklega í fjórða sinn, að mig minnir, í Maríuhöfn á Álandseyjum til þess að fjalla sérstaklega um Evrópumálin.
    Það er ekki vettvangur hér til þess að fara að ræða þessi stóru mál í einstökum atriðum, en ég tel að það hafi verið mjög gagnlegt, a.m.k. fyrir mig sem þingmann, að kynnast þessum málum á vettvangi Norðurlandaráðs og í nefndum ráðsins. Á vettvangi efnahagsnefndar ráðsins hafa Evrópumálin og það sem þeim tengist verið fyrirferðarmest á liðnu starfsári, en af einhverjum sökum hefur láðst að geta þess í umsögn um starf nefndarinnar og nefni ég það hér sérstaklega. Ég get sjálfsagt sjálfum mér að einhverju leyti um kennt að það hefur ekki verið fært þar inn í skýrslu nefndarinnar sem var gengið frá í jólahléi þingsins.
    Það má segja að sú mikla breyting sem hefur orðið á málefnum Evrópu, vegna þróunar í Austur-Evrópu sérstaklega, hin síðustu missiri hefur vissulega sett svip sinn á umræðu um Evrópumálin. Á þinginu á Álandseyjum má segja að umræðan um málefni Austur-Evrópu, þá þróun sem þar hefur verið í gangi, og tilboð af hálfu forseta Sovétríkjanna til

Norðurlandaráðs sem hann hafði flutt í tengslum við heimsókn sína í Finnlandi í október sl. yfirskyggði raunverulega umræður um samstarf ríkja í Vestur-Evrópu. Það var gagnrýnt þar verulega í umræðum á þinginu, m.a. af mér og mörgum fleiri sem þar tóku til máls, að viðbrögð forustu Norðurlandaráðs, forsætisnefndarinnar, skyldu ekki verða ákveðnari við tilmælum sem bárust frá forseta Sovétríkjanna þess efnis að Norðurlandaráð sendi nefnd til viðræðna til Moskvu og síðan fulltrúa til Eystrasaltslýðveldanna. Það vafðist mjög fyrir forsætisnefndinni að svara þessu tilboði með þeim hætti sem margir hefðu viljað sjá gerast, þ.e. taka undir það, þannig að það mætti verða í framhaldinu, svo að dæmi sé tekið, að hér á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík í lok þessa mánaðar gætu hugsanlega komið áheyrnarfulltrúar frá Eystrasaltsríkjunum eins og talsvert hafði verið um rætt, að bjóða slíkum fulltrúum einmitt inn á vettvang Norðurlandaráðs. Því miður verður ekki af þessu og ég tel ástæðuna vera þá að forsætisnefndin náði ekki samstöðu um það að svara þessu tilboði eins og ég hef hér talið rétt vera.
    Forsætisnefndin hefur hins vegar tekið sig á með vissum hætti og það liggur fyrir ákvörðun sem formaður Íslandsdeildar kynnti hér áðan, ákvörðun sem tekin var nú fyrir síðustu mánaðamót, um það að senda pólitíska nefnd, fulltrúa Norðurlandaráðs, forsætisnefndar og einstakra nefnda til Sovétríkjanna til viðræðna, að mér skilst með vordögum, undir forustu verðandi forseta ráðsins, Páls Péturssonar. Þetta er ákvörðun sem ástæða er til að fagna að loks hefur verið tekin, og við skulum vænta að hún verði til þess að Norðurlandaráð láti sig meiru skipta alþjóðleg málefni, en eins og fram kom af hálfu formanns Íslandsdeildar, hv. þm. Ólafs G. Einarssonar, hér áðan mun ekki bera þar á góma, a.m.k. ekki opinberlega, utanríkis- eða varnarmál sem svo eru kölluð. Ég býst við að ýmsum þyki það nokkuð sérkennilegt að þeim skuli haldið utan við í slíkri heimsókn, en ástæðan er einfaldlega þær reglur sem Norðurlandaráð starfar eftir, hinn svokallaði Helsinkisáttmáli sem útilokar það að á slíkum málum sé tekið innan ráðsins og af þess hálfu. Vissulega hafa menn nú oft farið á landamærin í umræðum á Norðurlandaráðsþingum, og ég hygg að ég hafi nálgast þau á stundum hér fyrr á árum þegar ég sótti þau þing, að ræða þau
málefni. Svo mikið er víst að það er mikill áhugi á því meðal margra fulltrúa í Norðurlandaráði, og það ekki eingöngu af flokkum sem standa lengst til vinstri í hinu pólitíska litrófi heldur langt inn á miðjuna a.m.k., að breyta þarna til og tryggja það með breytingum á sáttmála ráðsins eða starfsreglum að það geti látið alþjóðleg málefni meira til sín taka.
    Eitt af því sem hefur verið til umræðu og meðferðar einmitt á vettvangi ráðsins er þátttaka Norðurlandaráðs í alþjóðlegu samstarfi. Og það starfaði nefnd sem lauk störfum sl. haust, nefnd um alþjóðamálefni, og stóð að tillögum, sem fjallað hefur verið um og tekið hefur verið undir á vettvangi

Norðurlandaráðs, um mjög aukin afskipti og samskipti Norðurlandaráðs í alþjóðlegu samstarfi. Þær hugmyndir eru hins vegar ekki til lykta leiddar og verða trúlega eitt af því sem nefnd, sem taka á á vinnureglum og starfsháttum Norðurlandaráðs undir forustu Bjarne Mörk Eidems og tekur til starfa eða er tekin til starfa rétt um þessar mundir, mun fjalla um, þar á meðal hugmyndina um það að stofnuð verði sérstök alþjóðanefnd sem fjalli um þau málefni á vegum Norðurlandaráðs. Ég teldi það rétt skref og mjög til bóta og verða til þess að hleypa ferskari vindum inn í sali eða starf Norðurlandaráðs þó að ég sé ekki þar með að segja að Norðurlandaráð eigi að fara að taka ákvarðandi á slíkum efnum. Þau eiga að mínu mati eftir sem áður að vera verkefni ríkisstjórna hvers lands með eðlilegum hætti, en jafneðlilegt er það að þingmannasamkoman ræði þessi mál og reyni að hafa áhrif á þau.
    Það eru mörg atriði á dagskrá komandi þings hér í Reykjavík. Sum eru til undirbúnings sem stendur, þar á meðal endurskoðun á reglum og lánsramma Norræna fjárfestingarbankans, málefni sem varðar okkur Íslendinga þó nokkru þar sem við höfum notið verulega góðs af starfi þess banka og hljótum að hafa hag af því að hann eflist. Það er nokkurt hik á mönnum að taka undir þær tillögur sem fyrir liggja í þessum efnum. Ég skal ekki fara nánar út í þá þætti, en þau viðhorf koma meira frá hægri þar sem menn setja spurningar við hvort eðlilegt sé að þessi banki færist meira í fang en hann hefur gert, banki sem að er staðið af Norðurlöndunum sem ríkjum með framlagi og ábyrgð.
    Ég vænti þess að þær tillögur sem fyrir liggja um þessi efni verði samþykktar, svo og sú skipan mála, stofnun sérstaks lánasjóðs til þess að lána til umhverfismála sem er sérstaklega hugsuð til þess að reyna að bæta úr og rétta fram aðstoð til Austur-Evrópuríkja sem hafa orðið mjög á eftir í sambandi við brýnar úrbætur í umhverfismálum og skapa verulegt vandamál fyrir Norðurlönd sem nágranna, þar á meðal varðandi Eystrasalt.
    Byggðamálin eru á dagskrá Norðurlandaráðs oft og tíðum. Á fundi efnahagsnefndar ráðsins mættu ráðherrar byggðamála nú um daginn og gerðu grein fyrir þeirri álitsgerð sem liggur fyrir og tillögum af hálfu ráðherranefndar byggðamála sem verða ræddar hér í Reykjavík á þinginu innan skamms. Ísland hefur notið góðs af samstarfi Norðurlanda á vettvangi byggðamála. Ísland allt er flokkað sem eins konar byggðasvæði, svæði sem notið geti stuðnings úr sjóðum Norðurlanda í sambandi við byggðamál og höfum við haft af því verulegt gagn. Við þurfum að efla þessa starfsemi. Það er okkur ótvírætt til hagsbóta. Það er nokkur togstreita á milli aðila um nýtingu fjármagns, m.a. hverju verja skuli til hinna svonefndu byggðasvæða á vesturhluta Norðurlanda og hins vegar til starfsemi á landamærasvæðum sem fé rennur til úr sömu sjóðum og til hinna eiginlegu byggðaþróunarmála.
    Ég vil geta þess hér, vegna þess að það tengist

Evrópuumræðunni og Evrópumálunum, að það kom fram hjá byggðamálaráðherranum, ég má segja frá ráðherra Finnlands sem fer með byggðamál, að verði Finnland og EFTA-svæðið þátttakandi í hinu svokallaða evrópska efnahagssvæði og yrði lagður sá mælikvarði á það samstarf sem nú gildir innan Evrópubandalagsins varðandi byggðasjóði og ráðstöfun fjár til byggðamála, þá stæðist ekkert af Finnlandi, ekkert svæði innan Finnlands, þá mælikvarða sem lagðir eru í sjóðum Evrópubandalagsins varðandi úthlutun fjár til stuðnings einstökum svæðum. Þetta held ég að geti verið, ásamt mörgu öðru, til umhugsunar í sambandi við það samstarf sem þar er á döfinni og mikið hefur verið rætt hér á Alþingi að undanförnu og er enn á dagskrá sem kunnugt er.
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að taka öllu lengri tíma til að ræða hér skýrslu Norðurlandaráðs þó af mörgu væri að taka. Ég tel verulega þörf á að nú verði leitað leiða til að efla frá því sem verið hefur hið norræna samstarf. Ég tel að það hafi á svo mörgum sviðum sannað ágæti sitt og þátttaka Íslands verið okkur til ótvíræðs gagns á fjölmörgum sviðum. Þátttaka þingmanna í starfi Norðurlandaráðs er út af fyrir sig gildur þáttur, en það á einnig við um starf fjölmargra sem eiga að taka þátt í hinu fjölbreytilega samstarfsneti sem myndar hið norræna samstarf á mörgum sviðum. Ég tel að hugsa þurfi til þess að auka þetta samstarf fremur en hitt og það verður væntanlega rætt í þeirri vinnunefnd sem sett hefur verið niður til að endurskoða starfshætti og starfsreglur ráðsins, að um það verði fjallað, og það verður væntanlega eitt af umræðuefnunum hér á þinginu í Reykjavík.
    Ég tel að eitt af því sem þurfi að íhuga sé að endurskipuleggja með vissum
hætti starf nefnda ráðsins, t.d. að gera þá nefnd sem fjalla á um umhverfismálin sjálfstæða. Þau hafa aukist mjög að umfangi eins og annars staðar á alþjóðavettvangi og ég held að það gæti verið til bóta að umhverfismálin fengju meðferð í sérstakri nefnd og væru greind frá öðrum málefnum, ekki með ólíkum hætti og rætt hefur verið um að gerist hér á landi með því að stofna sérstakt ráðuneyti umhverfismála og vonandi tekst að ná því marki einnig hér en þá með þeim hætti að allir geti verið sæmilega sæmdir af. Ég held líka að það gæti verið til athugunar fremur að fjölga fundum Norðurlandaráðs en stytta kannski fundartíma í staðinn. Sú skipun að efna til aukaþinga um sérstök málefni hefur, að ég hygg, reynst vel og orðið til þess að starfið hafi orðið hnitmiðaðra. Það er ekki orðið að neinni reglu enn sem komið er, en það er eitt af því sem taka ber til athugunar í sambandi við starfsemi ráðsins.
    Við skulum vænta þess að þátttaka okkar í þingi Norðurlandaráðs og sá atburður verði norrænu samstarfi og þátttöku Íslands í því til framdráttar og okkur til sóma sem er ætlað að halda þetta þing hér á landi innan fárra vikna.