Norrænt samstarf 1989
Mánudaginn 05. febrúar 1990


     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Það kom í minn hlut sl. tvö ár að gegna formennsku í laganefnd Norðurlandaráðs hafandi þar áður starfað nokkuð lengi sem formaður menningarmálanefndarinnar. Vil ég sérstaklega þakka hv. 2. þm. Reykn. fyrir þau orð sem hann lét falla hér í minn garð áðan og ítreka þakkir fyrir þau svo og þakkir til þeirra annarra sem ég hef starfað með í Norðurlandaráði þessi ár. Mig langaði, virðulegi forseti, að víkja hér nokkuð að einstökum verkefnum sem laganefndin sinnti á síðasta ári en geri það þó í mjög stuttu máli.
    Það er rétt sem fram kom í ræðu formanns Íslandsdeildar Norðurlandaráðs að upp kom verulegur ágreiningur um kosningu í trúnaðarstöður og ég held að það verði að segja hverja sögu eins og hún er að forsætisnefnd ráðsins tókst ekki að leysa það mál. Því var vísað til laganefndarinnar og þar var fjallað um málið á allmörgum fundum og þar tókst að finna lausn sem næstum allir voru bærilega sáttir við, þó með vissum fyrirvörum af hálfu hægri manna í nefndinni. En það verður líka að segja þá sögu eins og hún gekk til að ekki voru allir flokkarnir tilbúnir til að standa að tillögum sinna manna í þessari nefnd þegar upp var staðið.
    Nú stendur yfir endurskoðun á öllu starfskerfi, nefndum og starfi Norðurlandaráðs og það er því auðvitað eðlilegt að málið sé, eins og forsætisnefndin ákvað á fundi sínum í desember, leyst til bráðabirgða en síðan komi það inn í þessa heildarendurskoðun hvernig þetta verður í framtíðinni.
    Af öðrum málum sem nefndin fjallaði um má nefna að starf hennar mótaðist nokkuð af þeim málum sem varða þróunina í Evrópu og auknum alþjóðasamskiptum Norðurlandaráðs og þar hefur satt best að segja orðið á gerbylting á fáeinum árum. Það sem einu sinni var næstum því bannað um að tala er nú aðalumræðuefnið á öllum fundum ráðsins, þ.e. alþjóðlegt samstarf og alþjóðleg
samskipti í Evrópu. Laganefnd fjallaði ítarlega um skýrslu alþjóðanefndar Norðurlandaráðs um alþjóðlegt starf og um starfsáætlun ráðherranefndarinnar um Evrópumálin.
    Það hefur verið vikið hér að tillögu um beinar kosningar í Norðurlandaráð sem nefndin hafnaði. Það voru allir sammála um að það væri hvorki tímabært né skynsamlegt. Ýmsar tillögur frá nefndinni koma til umfjöllunar á þingi Norðurlandaráðs hér á næstunni. Nefndin hefur haldið fundi árlega með dómsmálaráðherrum Norðurlandanna, svo og þeim ráðherrum er annast málefni flóttamanna og á fundum með dómsmálaráðherrunum hefur jafnan verið rætt um nauðsyn þess að Norðurlöndin haldist áfram opið vegabréfasvæði, sameiginlegt vegabréfasvæði, og þá eru menn að horfa til þess sem gerist í Evrópu eftir 1992 þegar eftirlit verður af lagt á landamærum innan Evrópubandalagsríkjanna.
    Þetta mál hefur oftar en einu sinni borið á góma á fundum nefndarinnar og norrænu dómsmálaráðherranna

og mikill áhugi á því að það megi haldast svo sem verið hefur. Nefndin hefur reglulega haldið fundi með fulltrúum Samaráðsins. Hún hefur einnig rætt við fulltrúa norrænu íþróttasambandanna og sérfræðinga um það vandamál sem notkun ýmiss konar lyfja, ólögleg lyfjanotkun, er í tengslum við iðkun íþrótta. Í september sl. hélt nefndin fund með sérfræðingum um Evrópubandalagsrétt og þar flutti m.a. fyrirlestur prófessor Stefán Már Stefánsson.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að hafa um þetta mikið fleiri orð. En því er ekki að neita að á liðnum árum hefur norrænt samstarf oft verið gagnrýnt. Þær raddir hafa heyrst víða í þjóðfélaginu og þær hafa ekki síður heyrst frá ýmsum hv. þm., m.a. hér úr þessum ræðustól. Ég held að sú gagnrýni lýsi næsta mikilli vanþekkingu á því sem gerist á norrænum vettvangi. Það er oft sagt að þar gerist nánast ekki eitt, menn sitji þarna fundi og þar sé mikið talað en minna gerist.
    Ég minni á í því sambandi að fyrir þremur árum flutti sá sem þetta mælir tillögu um stofnun norræns kvikmyndasjóðs sem ég tel mikið hagsmunamál fyrir íslenska kvikmyndagerðarmenn og íslenska kvikmyndagerð. Þessi tillaga var samþykkt, sjóðurinn hefur verið stofnaður og er tekinn til starfa með mjög ríflegu framlagi frá aðildarríkjunum og á áreiðanlega eftir að láta mjög gott af sér leiða. Ég nefni líka tillögu sem flutt var um bann við útflutningi á hættulegum vörum, en mörg ríki hafa iðkað þann sið að flytja út til þróunarlandanna vörur sem ekki fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru á heimamarkaði. Nú hefur verið samþykkt í Norðurlandaráði tillaga um þetta. Ég gæti haldið áfram og talið margar, margar fleiri tillögur sem Íslendingar hafa haft frumkvæði að og samþykktar hafa verið í Norðurlandaráði, en það er eins og þetta vilji stundum liggja í láginni og það er meira talað um það sem fjölmiðlamönnum þykir fréttnæmara þó að ekki sé ævinlega merkilegt.
    Það er örugglega rétt sem menn hafa sagt hér fleiri en einn, að norræn samvinna stendur á tímamótum. Hún gerir það og það gerir raunar allt samstarf allra Evrópuríkjanna. Það er alveg áreiðanlegt að við Íslendingar og íslenskir þingmenn verðum að sinna þessu starfi verulega mikið betur en gert hefur verið. Það kostar bæði fé og fyrirhöfn. En ég held að ella eigum við á hættu
að daga uppi og fylgjast ekki með því sem er að gerast og það sem mest er um vert að láta fram hjá okkur fara tækifæri til að móta það sem er að gerast og hafa áhrif á framvindu málanna. Ég held að það sé mikilvægast.
    Mér er það alveg ljóst að hjá kjósendum er þátttaka í alþjóðlegu samstarfi ekki hátt skrifaður þáttur í starfi þingmanna, og það held ég að sé út af fyrir sig svolítið áhyggjuefni að ekki hefur tekist að skapa skilning á því að verulegur hluti þessa starfs er einmitt fólginn í alþjóðlegum samskiptum, verulegur hluti og mjög vaxandi hluti sem á eftir að öðlast vaxandi mikilvægi. Ég held að þetta þurfi menn að

kynna og skýra betur vegna þess að hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá er þetta svona.
    Ég ætla ekki að svo stöddu, virðulegi forseti, að hafa um þetta fleiri orð, en ítreka þakkir mínar til samstarfsmanna á vettvangi Norðurlandaráðs, bæði þingmanna og embættismanna.