Alþjóðaþingmannasambandið
Mánudaginn 05. febrúar 1990


     Geir H. Haarde:
    Virðulegi forseti. Ég fylgi hér úr hlaði skýrslu um starfsemi Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins sem liggur fyrir á þskj. 113 og var dreift í sölum Alþingis í byrjun nóvember sl.
    Núverandi stjórn Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins lagði fram á síðasta þingi skýrslu í tveimur hlutum um starfsemi sína þá og í hinum fyrri var sérstaklega gerð grein fyrir þessum samtökum. Skal ég því ekki tefja tímann hér og nú með því að endurtaka það sem þar segir, en þessi þskj. eru nr. 139 og 911 frá síðasta þingi og vísast til þeirra um almenna starfsemi Alþjóðaþingmannasambandsins. Sömuleiðis vil ég benda á þskj. 114 sem lagt var fram samhliða þessari skýrslu en það er till. til þál. um starfsreglur fyrir Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins, en viðfest sem fskj. við þá þáltill. eru lög Alþjóðaþingmannasambandsins. Þessi þáltill. er nú til meðferðar í hv. utanrmn. og vonandi líður ekki á löngu áður en unnt verður að staðfesta hér endanlega á hinu háa Alþingi sérstakar starfsreglur fyrir Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins svo sem gert er ráð fyrir í lögum sambandsins.
    Okkur sem nú störfum í Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins eða höfum gert á þessu kjörtímabili finnst eðlilegt að gera með formlegum hætti nokkra grein fyrir störfum okkar á þessum vettvangi og jafnframt því hvaða málefni
hafa verið á döfinni innan þessara fjölmennu samtaka sem áttu 100 ára afmæli á síðasta ári. Íslenskir alþingismenn hafa í hartnær 40 ár tekið þátt í starfi þessa sambands meira og minna óslitið, og vissulega er það svo að á vettvangi sem þessum gefst ekki aðeins tækifæri til þess að skapa persónuleg kynni milli manna frá ólíkum löndum og ríkjum með ólíkt stjórnarfar heldur eru þarna að jafnaði til umræðu ýmis helstu deilumál á alþjóðlegum vettvangi hverju sinni.
    Eins og fram kemur í þessari skýrslu var síðasta þing Alþjóðaþingmannasambandsins, sem jafnframt var sérstakt afmælisþing, haldið í Lundúnum í septembermánuði sl. og sóttu það fimm þingmenn af hálfu Alþingis auk þess sem hér stendur, þeir Geir Gunnarsson, Júlíus Sólnes, Kristín Einarsdóttir og Sighvatur Björgvinssn auk Ólafs Ólafssonar sem þá var ritari deildarinnar. Á þessu þingi voru meginumræðuefnin annars vegar hagnýting geimsins í friðsamlegum tilgangi í þágu mannkyns alls og hins vegar fólksfjölgunar- og fæðuvandamálin í heiminum og leit að leiðum til lausnar á skuldavanda þróunarlandanna. Að auki var tekin fyrir sérstök ályktun um ástandið í Namibíu og væntanlegar kosningar þar og sömuleiðis sérstök aukaályktun um ástand mála í Kólumbíu og þá ógn sem réttum stjórnvöldum þar í landi stafar af eiturlyfjabröskurum. Um þessi mál voru samþykktar ítarlegar ályktanir sem þm. eru tiltækar hjá ritara deildarinnar en ég hyggst ekki gera efnislega grein fyrir þeim hér og nú.

    Það vakti mikla athygli og er til marks um breytta tíma í Austur-Evrópu að á þessu þingi skáru þingmenn frá Póllandi og Ungverjalandi sig nokkuð úr hópi annarra þingmanna frá Austur-Evrópuríkjum og greiddu atkvæði oftar en einu sinni með þingmönnum frá Vesturlöndum. Var mjög athyglisvert hvernig afstaða þessara aðila hafði breyst en gera má ráð fyrir því, í ljósi þess sem síðan hefur gerst í Austur-Evrópu, að á næsta þingi sambandsins, sem haldið verður á Kýpur í byrjun apríl, muni enn frekar koma fram með hvaða hætti breytingar hafa náð fram í ríkjum Austur-Evrópu. Verður vissulega forvitnilegt að sjá og kynnast hinum nýju viðhorfum frá þeim aðilum sem þá munu væntanlega mæta fyrir hönd sinna þjóðdeilda á næsta þingi Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Svo sem venja er á þessum þingum þá kom ráð sambandsins, sem í sitja tveir fulltrúar úr hverju aðildarríki, saman og fjallaði um ýmis mál sem ekki eru tekin fyrir á sjálfu þinginu. Mér þykir rétt að nefna stuttlega hvaða mál þar voru m.a. til umfjöllunar til þess að gera þingmönnum nokkra grein fyrir þeim málefnum sem þarna koma til meðferðar við þessi tækifæri. Það var m.a. ákveðið að setja á laggirnar sérstaka milliþinganefnd til fimm ára skipaða níu þingmönnum frá jafnmörgum löndum til að fjalla um umhverfismál. Það var ákveðið að senda þriggja manna sendinefnd frá sambandinu til að fylgjast með kosningunum í Namibíu sem fram fóru á sl. hausti. Nefndinni var m.a. ætlað að sannreyna hvort kosningarnar færu löglega fram og þegar hefur borist skýrsla frá þessari nefnd sem verður til umfjöllunar á næsta þingi sambandsins eða á næsta fundi ráðsins sem þá verður haldinn.
    Sömuleiðis hafa reglulega verið til umfjöllunar í ráði sambandsins málefni Miðausturlanda en sérstök þriggja manna nefnd hefur setið að störfum um allnokkurt skeið til þess að kanna með hvaða hætti Alþjóðaþingmannasambandið gæti beitt sér fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um frið í þessum heimshluta. Það hefur lítið miðað í þessu efni til þessa, ekki síst vegna þess að fulltrúar Ísraels, sendinefndin frá ísraelska þinginu hefur ekki verið til viðtals um neitt samstarf um þetta efni og ber vissulega að harma það.
    Þá var í ráðinu venju samkvæmt gerð grein fyrir störfum sérstakrar nefndar á vegum sambandsins sem starfar allan ársins hring og vinnur að mannréttindamálum þingmanna en eins og kunnugt er þá er það því miður enn svo
í nokkrum löndum að þingmenn eða fyrrv. þingmenn sitja í haldi án dóms og laga. Það hefur verið eitt af baráttumálum Alþjóðaþingmannasambandsins árum saman að vinna að því að menn sem þannig er ástatt um, kjörnir fulltrúar sinna þjóða, nái rétti sínum. Og á þinginu í Lundúnum var ályktað um málefni 14 þingmanna eða fyrrv. þingmanna sem talið var að hefðu verið sviptir mannréttindum í Chile, Kólumbíu, Gíneu-Bissá, Hondúras, Súdan og Tyrklandi. En upplýst var að fyrir atbeina fastanefndar sambandsins um mannréttindamál þingmanna hefði sjö fyrrv.

þingmönnum í Malasíu og einum í Indónesíu verið sleppt.
    Ég vil bæta því við varðandi þetta atriði að norrænu deildirnar hafa undanfarin tvö ár tekið sig saman um að rita sendiherrum þessara ríkja á Norðurlöndum sérstakt bréf þar sem gerð er grein fyrir ályktunum sambandsins um þetta efni og skorað á viðkomandi sendiherra að beita áhrifum sínum við sín stjórnvöld til þess að vinna að lausn málefna þessara manna. Hafa formenn norrænu deildanna sameiginlega ritað sendiherrum þessara ríkja á Norðurlöndum þetta bréf.
    Í ráðinu var að þessu sinni einnig tekin fyrir og samþykkt tillaga frá Ástralíumönnum þar sem því var beint til einstakra þjóðþinga að setja á laggirnar nefndir þingmanna um mannréttindamál á breiðum grundvelli sem ættu m.a. að beita sér fyrir því að samviskuföngum yrði sleppt úr haldi og jafnframt fyrir réttaröryggi pólitískra fanga í heiminum. Um þetta málefni urðu nokkrar deilur, þ.e. það var deilt um málsmeðferð og fram kom tillaga um að fresta málinu en sú tillaga náði ekki fram að ganga og var þessi tillaga Ástralíumanna síðan samþykkt og hlaut atkvæði beggja íslensku þingmannanna sem sátu í ráðinu. Hér er sem sagt tillaga sem hefur verið samþykkt um að setja á laggirnar nefndir þingmanna um mannréttindamál. Það er auðvitað hverju þjóðþingi í sjálfsvald sett hvað gert er með slíkar tillögur sem eru nánast ábendingar eða áskoranir til viðkomandi þjóðþinga en ég tel ástæðu til þess að vekja athygli á því hér á hinu háa Alþingi að tillaga þessa efnis hefur verið samþykkt á þingi Alþjóðaþingmannasambandsins og til athugunar fyrir Alþingi hvort ástæða sé til sérstakra viðbragða af því tilefni.
    Ég vil láta þess getið að í tengslum við þing Alþjóðaþingmannasambandsins hittast þingmenn hinna 35 svokölluðu RÖSE-landa, þ.e. landanna sem aðild eiga að ráðstefnunni um öryggi og samvinnu í Evrópu sem upphaflega var kennd við Helsinkisáttmálann. Þingmenn frá þessum löndum hafa hist reglulega á þingum Alþjóðaþingmannasambandsins um nokkurra ára skeið og borið saman bækur sínar um hvaðeina sem talið er geta skipt máli varðandi framgang þeirra málefna sem til umræðu eru á ráðstefnunni um öryggi og samvinnu í Evrópu um traustvekjandi aðgerðir o.s.frv. Á vegum sambandsins hafa reglulega verið haldnar sérstakar ráðstefnur þingmanna frá þessum löndum innan vébanda Alþjóðaþingmannasambandsins. Slík ráðstefna var síðast haldin í Bonn vorið 1986 og var þá afráðið að næsta ráðstefna yrði í Búkarest í Rúmeníu í maí 1989. Vegna ástandsins sem skapast hafði þar í landi og stjórnarfarsins í Rúmeníu treystu vestræn ríki sér ekki til þess að mæta til fundar í Búkarest og höfðu mótmælt því að fundurinn yrði haldinn þar. Af þessum fundi hefur því ekki orðið enn því það þarf allsherjarsamkomulag, ,,consensus`` sem kallað er, til þess að ákvarða fundarstaðinn og hefur ráðstefnunni því verið frestað æ ofan í æ og ekki vitað hvenær af henni verður. Nú eru hins vegar upp runnir breyttir tímar í Rúmeníu sem betur fer, leyfi ég

mér að segja, og má vera að það hafi einhver áhrif á framgang þessara mála þó engan veginn sé víst að núverandi stjórnvöld í Rúmeníu treysti sér til að halda þessa ráðstefnu nú eins og allt er í pottinn búið þar í landi. Hygg ég að fullur skilningur yrði á því ef núverandi stjórnvöld og þingið í Rúmeníu treysti sér ekki til að standa að svo viðamikilli ráðstefnu. Hygg ég að ekki muni vandkvæðum bundið að finna annan samastað og ná samkomulagi um annan fundarstað fyrir þá ráðstefnu.
    Mér finnst einnig rétt að geta þess, virðulegi forseti, að Alþjóðaþingmannasambandið heldur ekki eingöngu sín reglulegu þing tvívegis á ári, heldur einnig sérstakar ráðstefnur um tilgreind afmörkuð málefni. Snemma á síðasta ári var haldin ráðstefna um ferðamál þar sem þingmenn frá aðildarríkjunum komu saman til þess að reyna að átta sig á því með hvaða hætti þjóðþingin gætu beitt sér fyrir aukinni starfsemi á sviði ferðamála og eflingu starfs á þeim vettvangi. Íslandsdeildin sendi ekki fulltrúa á þessa ráðstefnu né heldur á sérstaka ráðstefnu sem haldin var sl. haust í Genf um þátttöku kvenna í stjórnmálum. Skýrsla um þá ráðstefnu hefur nú borist deildinni og liggur fyrir hjá ritara deildarinnar fyrir þá sem áhuga kunna að hafa á efni hennar. Við höfum í deildinni reynt að takmarka þátttöku okkar við aðalþing sambandsins. Þó er ljóst að einstaka ráðstefnur um sérstök afmörkuð viðfangsefni kunna að vera mjög áhugaverðar. Ég nefni þar t.d. þessa ráðstefnu um konur í stjórnmálum sem haldin var á sl. hausti og hefði vissulega verið fengur í að fulltrúi eða fulltrúar frá Alþingi hefðu sótt. Ég nefni líka að á vori komanda er ráðgerð sérstök ráðstefna í Bonn á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins um afvopnunarmál sem hljóta nú að vekja mikinn
áhuga allra sem áhuga hafa á alþjóðlegum málefnum eins og þróunin hefur orðið í samskiptum ríkja að undanförnu, ekki síst í ljósi atburðanna í Austur-Evrópu. Ég leyfi mér því að vona að deildin hafi bolmagn til þess, fjárhagslegt bolmagn til þess að senda þangað fulltrúa og að Alþingi geti verið þar meðal þátttakenda.
    Mér finnst rétt að fram komi, virðulegi forseti, að í Alþjóðaþingmannasambandinu eru nú 112 þjóðdeildir eða þjóðdeildir skipaðar þingmönnum frá 112 ríkjum. Á þinginu í London bættist við ný þjóðdeild frá Líbíu, en þar er reyndar ekki þjóðþing sem kjörið er með sama hætti og til að mynda Alþingi, og nú hefur borist umsókn frá Afganistan um aðild að sambandinu og tel ég ástæðu til þess að fagna því. Hins vegar var þjóðdeild Súdans vikið úr samtökunum á þinginu í Lundúnum þar sem þingið þar í landi hefur verið leyst upp og fullnægir ekki lengur þeim skilyrðum sem kveðið er á um í lögum sambandsins til þess að geta verið fullgildur aðili að sambandinu.
    Það væri vissulega margt fleira, virðulegi forseti, sem hægt væri að nefna um það sem fram kemur í þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir frá Íslandsdeildinni og um þá starfsemi sem fram undan er á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins. Ég skal hins vegar

ekki lengja þetta mál. Ég vil aðeins láta það koma fram sem mína skoðun að þátttaka í þessu samstarfi sé afar gagnleg fyrir þá sem hennar njóta en hún á hins vegar ekki að vera einkamál þeirra sem taka þátt í samvinnu sem þessari á vegum Alþingis. Að mínum dómi er það eðlileg krafa að menn geri grein fyrir sínum störfum á þessum vettvangi hér í þinginu sjálfu skriflega og munnlega eftir atvikum þannig að það liggi fyrir hvað menn hafa verið að sýsla í nafni Alþingis og hvað samtök sem Alþingi, eða þjóðdeild á þess vegum, á aðild að, hvað slík samtök aðhafast og hvað þar er samþykkt um hin ýmsu alþjóðlegu málefni.
    Það hefur gagnast okkur mjög að taka þátt í samstarfi norrænna þingmanna til undirbúnings þessum þingum og á þingunum sjálfum og því samstarfi verður að sjálfsögðu haldið áfram en íslenska þjóðdeildin er einnig aðili að samtökum vestrænna ríkja yfirleitt. Það má segja að það séu ríkin í OECD önnur en Japan sem þar eiga hlut að máli auk nokkurra smáríkja í Evrópu. Þetta eru ríki Vestur-Evrópu, Bandaríkin, Kanada, Ástralía, Nýja-Sjáland og svo nokkur ríki við Miðjarðarhafið eins og Kýpur, Malta og nokkur fleiri sem ég sé ekki ástæðu til að telja hér upp. Þessu samstarfi fylgir mikill ávinningur fyrir okkur að mínum dómi, bæði að því er varðar upplýsingar um það sem formlega er á döfinni á vegum sambandsins en ekki síður það sem fram fer á bak við tjöldin, m.a. í samtölum einstakra manna milli ríkjahópa. Hópur vestrænna ríkja er ekki eini skipulagði ríkjahópurinn á þessum þingum. Þeir eru einir sex eða sjö og hafa með sér óformlegt samstarf sem óhjákvæmilegt er að mínum dómi að hafa spurnir af og geta í einhverjum mæli haft áhrif á í gegnum þátttöku í hópi sem þessum, enda hygg ég að það færi lítið fyrir íslensku þjóðdeildinni yfirleitt ef ekki nyti stuðnings og upplýsinga frá þessum samstarfsaðilum.
    Ég lét þess getið, virðulegi forseti, að næsta þing sambandsins verði haldið á Kýpur í byrjun apríl. Þá er ætlunin að taka fyrir sérstaklega þau vandamál sem aukin eiturlyfjaneysla hefur valdið í löndum heims, ekki síst meðal yngri kynslóðarinnar. Önnur aðalumræðuefni verða atvinnumál og áhrif nýrrar tækni á atvinnustig og þáttur nýrrar tækni í því að efla hagvöxt. Ég geng út frá því, virðulegi forseti, að þróunin í Austur-Evrópu verði einnig mjög til umræðu og hlakka til að sjá og heyra það sem fram kemur um það efni á þessu þingi eins og ég gat um fyrr í þessari ræðu.
    Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, virðulegi forseti, en ég vil í lokin vekja athygli á fylgiskjali með þessari skýrslu á þskj. 113 frá Friðriki Ólafssyni, skrifstofustjóra Alþingis, en þar er gerð grein fyrir samtökum skrifstofustjóra þjóðþinga sem starfa innan vébanda Alþjóðaþingmannasambandsins og hafa gert í 50 ár. Í þessu fylgiskjali og viðauka við það koma fram ýmsar upplýsingar sem ég held að geti komið þingmönnum að gagni.
    Að svo mæltu vildi ég þakka forseta fyrir það

frumkvæði að taka skýrslu sem þessa til sérstakrar umræðu og gefa færi á að fylgja henni úr hlaði eins og nú er gert að mér skilst í fyrsta sinn. Það er vissulega til bóta eins og kom fram í ræðum manna sem mæltu fyrir 1. máli hér á dagskrá að gefa tíma til þess að gera grein fyrir samstarfi sem þessu og ræða það með þeim hætti sem viðeigandi er.