Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegur forseti. Það er ástæða til að þakka fyrir þessa skýrslu fulltrúa Íslands í þingmannanefnd Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA. Þingmannanefndin er ásamt með ráðgjafarnefndinni, svokallaðri, með þýðingarmestu nefndum á vegum þessara samtaka. Ráðgjafarnefndin er skipuð fulltrúum samtaka atvinnulífs og vinnumarkaðar í EFTA-löndunum. Þingmannanefndin byrjaði starf sitt nánast með óformlegum hætti eins og hér hefur verið gerð grein fyrir en frá árinu 1977 hefur starf hennar verið formlegt og nú hefur einnig verið staðfest að henni er ætlaður meiri hlutur í þessu samstarfi. Þannig var formaður nefndarinnar í fyrsta sinn mættur á seinasta ráðherrafundi EFTA-ríkjanna og því er yfir lýst með ályktun á þeim fundi að framvegis verði samráðið nánara og að fulltrúar þingmannanefndarinnar muni hitta ráðherra viðskiptamála sem fara með EFTA-málefni með reglulegum hætti.
    Nefndin hefur unnið þýðingarmikil störf nú þegar. Eins og fram kom í máli hv. 1. þm. Reykn. hér áðan hafði nefndin t.d. sérstakt frumkvæði að því að taka upp og taka undir með sjónarmiðum Íslendinga sem mikið hafði verið haldið fram innan EFTA, að EFTA-samtökin sem slík samþykktu að taka upp grundvallarregluna um fríverslun með fiskafurðir á EFTA-svæðinu. Þetta gerðist fyrst með samþykkt nefndarinnar á fundi í Noregi 1987 og var síðan enn áréttað á ráðherrafundi EFTA-ráðsins í Tampere í Finnlandi 1988 að tillögu þingmannanefndarinnar og leiddi til þeirrar niðurstöðu að leiðtogafundur EFTA í mars 1989, sem haldinn var í Osló, samþykkti þessa grundvallarreglu eins og fram kom í Oslóaryfirlýsingunni. Það var síðan staðfest með formlegum hætti á ráðherrafundi EFTA-ráðsins í Kristiansand í júní 1989 sem var hin endanlega niðurstaða málsins. Af því leiðir síðan að nú frá miðju ári verður þessi grundvallarregla komin til framkvæmda þótt þau ríki sem beitt hafa opinberum stuðningi við sjávarútveg og fiskvinnslu, eins og t.d. Noregur, hafi nokkurn umþóttunartíma áður en þeim fjárstuðningi á að vera lokið.
    Samstarf þingmannanefndarinnar við fulltrúa Evrópubandalagsins, og þá ekki síst hina svokölluðu REX-nefnd, þ.e. þá nefnd Evrópuþingsins sem fjallar um samskiptin á efnahagssviðinu við aðra, er einnig mjög þýðingarmikið.
    Þess skal svo getið að lokum að starf þingmannanefndarinnar er ekki hvað síst mikilvægt til þess að tryggja tengsl milli ráðherraráðs EFTA og alls þess mikla starfs sem þar fer fram eða á þess vegum, í vinnuhópum á vegum ráðsins og sérfræðingahópum, við þjóðþingin. Hafi það starf verið þýðingarmikið áður er það nú þýðingarmeira en nokkru sinni fyrr og þess vegna lýsi ég yfir ánægju minni með það að þegar hefur verið þannig um hnútana búið að hlutur nefndarinnar í þessu starfi fer vaxandi og ég vænti þess að það þýði í reynd að samskiptin við þjóðþingin verði nánari og traustari á þeim tímum sem í hönd

fara.