Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að hér skuli gefast tilefni til að ræða um málefni EFTA og þátttöku Alþingis í starfi þingmannanefndar þessara fríverslunarsamtaka sem við erum aðilar að af tilefni þessarar skýrslu sem hér liggur fyrir frá þingmannanefndinni.
    Ég þakka hv. þm. sem að þessari skýrslu standa, hv. 1. þm. Reykn. og hv. 5. þm. Norðurl. v., fyrir að hafa rekið slyðruorðið af þessu þingmannasamstarfi með því að leggja hér fyrir skýrslu um starfsemi þess. Eins og fram kemur í skýrslunni á þetta samstarf sér orðið alllanga sögu en um það hefur verið undrahljótt hér í sölum Alþingis allt fram undir þetta.
    Ég vil líka taka undir það sem kom hér fram í máli hv. 12. þm. Reykv. áðan að það vekur nokkra furðu, þegar litið er yfir skrá yfir þátttöku Íslands í þessu samstarfi, með hvaða hætti þetta hljóðláta samstarf hefur farið fram, þ.e. hverjir hafa þar verið sjálfkjörnir á vettvangi. Ekki það að ég vilji bera þeim fulltrúum neinar ávirðingar á brýn sem þar hafa tekið þátt, það hef ég engar ástæður til að gera, en hitt blasir við að undanfarin ár eða frá árinu 1986 eru það eins tveir þingflokkar hér á Alþingi sem hafa séð ástæðu til þess að taka þátt í þessu þingmannasamstarfi, þ.e. Sjálfstfl. og Alþfl., og ég minnist þess ekki að í mínum þingflokki hafi þessi samskipti borið á góma eða það stæði yfirleitt til boða þingflokki Alþb. að eiga hlut að því. Ég er ekki með þessu að segja að það sé sjálfsagt að fylla í þann ramma sem dreginn var 1977 af ráðherraráði EFTA sem heimilar að fimm þingmenn frá hverju ríki eigi þátt í ársfundum þingmannanna eða taki formlegan þátt í þessu samstarfi. Það getur vissulega verið á réttum stað að þingflokkar skiptist á um þátttöku í þessu samstarfi með svipuðum hætti og gert er í Alþjóðaþingmannasambandinu og þar getum við einmitt sótt góða fyrirmynd um það að verið er að móta og kynna reglur að frumkvæði þeirra sem þar hafa átt aðild
varðandi þátttöku þingsins í því samstarfi. Hæstv. forseti Sþ. ræddi hér undir fyrri dagskrárlið um tilmæli sem beint hefði verið til þingflokka um að gera bragarbót á alþjóðlegum samskiptum og móta fastari reglur um þátttöku í þeim og væntanlega verður þetta, sem og þessi skýrsla sem hér liggur fyrir og hér er rædd, til þess að einnig verði tekið á þessum málum að því er varðar þingmannanefnd EFTA.
    Ég veit ekki hvort ástæða er út af fyrir sig til þess að bíða endilega næsta árs eða næsta þings, eins og kemur fram í skýrslunni, til þess að á þessum málum sé tekið, en þar er, sýnist mér, látið að því liggja og það vegna þess að þá verði ljósara en áður hvert stefni í samskiptum, hver verði framtíðarskipan þingmannanefndarinnar, og væntanlega vegna samskipta Evrópubandalagsins og EFTA sem rakin eru fyrr í skýrslunni. Þar er á döfinni ekki aðeins að auka þetta samstarf á þingmannavettvangi varðandi EFTA,

heldur hugsanlega að stofna sérstaka sameiginlega þingmannanefnd EFTA og Evrópubandalagsins til að fjalla um sameiginleg málefni þannig að þar er enn einn vettvangur að þróast samkvæmt þessum hugmyndum. Þess vegna er auðvitað nauðsynlegt að um þetta sé fjallað hér á Alþingi og það rætt og menn tjái sig um það hver viðhorf þeirra eru til þess, þeirrar þróunar sem þarna er á ferðinni. Eigum við að ýta undir þessi samskipti í þessu formi og þessum farvegi eða ekki?
    Ég hvet því til þess að á þessu verði tekið á þessu þingi að því er varðar hið venjulega hefðbundna þingmannasamstarf EFTA og síðan má þá skoða hvert halda skuli ef hugmyndir og stuðningur verða við hugmyndir um það að taka upp fastara samstarf við þingmenn á vettvangi Evrópuþingsins og Evrópubandalagsins þar með.
    Þetta mál snertir hins vegar önnur samskipti sem við ræddum hér fyrr í dag þar sem er Norðurlandaráð. Það er nú svo að meiri hluti EFTA-ríkjanna eru Norðurlönd. Fjögur af sex EFTA-ríkjum eru Norðurlönd sem eiga sinn vettvang í Norðurlandaráði, sinn meginvettvang í norrænu samstarfi þar, og það fer ekki hjá því að ef upp koma hugmyndir og teknar verða ákvarðanir um það, hugmyndir eru þegar komnar upp um það, að efla samskipti á EFTA-vettvangi og tengjast þingmönnum Evrópubandalagsins, kann það að hafa áhrif á störf á vettvangi Norðurlandaráðs og hvert stefnir í þeim efnum.
    Ég hef einmitt orðið var við það nú alveg nýlega að hugmyndir, m.a. frá Norðmönnum, komnar frá norska Stórþinginu, hafa ýtt við mönnum og menn hafa sett fram spurningar um það: Er það nú alveg víst að við eigum að fara að beita kröftunum inn á þennan vettvang? Má ekki reikna með því að það verði til þess að draga þróttinn úr Norðurlandaráði og norrænu samstarfi sem slíku? Og þarna vil ég að við stöldrum við. Ég geri ráð fyrir að menn kannist við sjónarmið mín að því er snertir þær viðræður sem staðið hafa yfir með hugsanlegt evrópskt efnahagssvæði fyrir stafni. Ég er lítill hvatamaður að því fyrirtæki og hef ítrekað varað við því hvert þar er verið að halda í sambandi við það svæði og viðhorf mín til samstarfs EFTA og Evrópubandalagsins á þingmannavettvangi mótast kannski að einhverju leyti af þeim fyrirvörum sem ég
hef á þessu evrópska efnahagssvæði.
    Það getur hins vegar verið alveg á réttum stað að efla þrátt fyrir það og óháð því samskipti við Evrópuþingið. Það getur alveg verið á sínum stað en það hefur auðvitað annað innihald og annað inntak ef ekki verður úr þessu evrópska efnahagssvæði. Það held ég að sé alveg ljóst að það hlýtur að hafa áhrif á það.
    Ég líkti Fríverslunarsamtökum Evrópu við skakka turninn í Pisa á aukaþingi Norðurlandaráðs í Maríuhöfn í nóvember sl., og það hrukku einhverjir við þessa samlíkingu en ég tel að hún sé á sínum stað og sé táknræn um stöðu þessara fríverslunarsamtaka

um þessar mundir. Það liggur nefnilega fyrir að meiri hlutinn í hópi þessara ríkja er ákveðinn í að brjótast inn í fordyri Evrópubandalagsins og verði ekki af stofnun hins evrópska efnahagssvæðis þá er það borðleggjandi að a.m.k. helmingur þessara ríkja verður kominn með umsókn um beina aðild að Evrópubandalaginu fyrr en varir, Noregur, Svíþjóð og Austurríki. Það síðastnefnda er raunar þegar búið að leggja inn umsókn. Og svo eru menn að tala um módel, svokallað tveggja stoða kerfi, og þar inn í kemur skakki turninn í Pisa, ,,two pillar approach`` eins og það er kallað á enskunni, um þessar tvær heildir sem eigi að leggja lag sitt saman í hinu evrópska efnahagssvæði, takast á og mynda samskiptareglur og EFTA á að tala einum rómi. EFTA sem er með ríki innan borðs sem þegar hafa lagt inn umsókn um beina aðild að Evrópubandalaginu.
    Ég ætla ekki að gera þetta að umtalsefni hér að öðru leyti. Það er kannski ekki efni til þess af tilefni þessarar skýrslu þó að ástæða væri til að ræða þróun þessara mála í sambandi við hið evrópska efnahagssvæði og stöðu EFTA í því sambandi hér á þinginu og gefst væntanlega ítrekað tilefni til þess á næstunni.
    Ég held hins vegar að það væri vettvangur fyrir EFTA í öðru samhengi og til að þróa EFTA sem fríverslunarsamtök og samtök sem gætu unnið Evrópumálefnum býsna gott á næstunni ef menn hefðu veðjað á það, ef menn hefðu valið það og vildu beita sér að því í staðinn fyrir að reyna að keyra inn í hinn innri markað Evrópubandalagsins, innan hins svokallaða EES. Þar er ég með í huga Austur-Evrópusvæðið, ríki í Austur-Evrópu sem sum hver hafa bankað upp á hjá EFTA nú þegar, áttu viðræður við formann EFTA-ráðsins, hæstv. utanrrh. okkar á síðasta ári með óskum um að taka upp viðræður og hugsanleg tengsl. Hvaða viðbrögð fengust? Jú, herrar mínir, það er allt á sínum stað, við viljum líta til ykkar en það er bara ekki rétti tíminn. Við megum ekki vera að því að sinna ykkur mikið í bráð því við erum að tala við Evrópubandalagið og það verður að ljúka þeim samningaviðræðum fyrst áður en við getum farið að opna eitthvað dyrnar til samskipta við ykkur.
    Ég hefði viljað sjá þessi mál standa öðruvísi, út frá því að ekki hefði verið farið í þessa samsiglingu gagnvart Evrópubandalaginu, þá hefði EFTA getað haft verulegu hlutverki að gegna til þess að styðja þá jákvæðu þróun, sem hefur átt sér stað í Austur-Evrópu undanfarið og hugsanlega getað fengið þar aukinn styrk. Í rauninni ný verkefni til eflingar fyrir þessi fríverslunarsamtök og það ekki aðeins milli Austur-Evrópu og EFTA, heldur líka í beinu evrópsku samhengi.
    Ég vil með þessum orðum út af fyrir sig, virðulegur forseti, ekki útiloka hlut EFTA í framtíðinni í þessum efnum, en það er alveg ljóst að staðan, samningarnir Evrópubandalagið---EFTA, sem nú standa yfir, hafa lokað á þessa möguleika, þennan

glugga í austur að verulegu leyti og setja þar ákveðin takmörk að mati forystumanna EFTA.
    Svo vildi ég, virðulegur forseti, aðeins koma hér að einum þætti þessarar skýrslu sem snýr að fríverslun með fisk. Það er einmitt málefni sem tekið var upp innan EFTA að frumkvæði Íslendinga og í þingmannasamtökunum eins og rakið er hér í þessari skýrslu. Við höfum fengið það inn í uppleggið frá Osló frá í mars sl. og nú er það einn af þeim þáttum sem knúið er á og hæstv. utanrrh. segir að það sé forgangsmál, það sé einn af prófsteinunum á það hvort hægt sé að tengjast hinu evrópska efnahagssvæði, hvort Evrópubandalagið taki undir þetta prinsipp um fríverslun með fisk. Það er ekkert mjög bjart yfir því baráttumáli og sannleikurinn er sá að maður veit ekki hvort maður á í raun að hryggjast eða gleðjast yfir þeirri stöðu. Ég held að það sé nauðsynlegt að ræða aðeins það mál og rökstyðja þá staðhæfingu af minni hálfu.
    Að því er snertir EFTA, þá skuldbundu EFTA-ríkin sig frá 1. júlí n.k. til að taka upp fríverslun með fisk, hætta ríkisstyrkjum og fella niður tolla ef þeir væru til staðar varðandi fiskafurðir innan EFTA-svæðisins og samþykktu aðlögunartíma til ársloka 1991 í þeim efnum. Það blasir nú við að Noregur hefur séð sig knúinn til að bregðast svo við í þessum efnum varðandi styrki til sjávarútvegs, ekki að þrepa niður styrkjakerfið í sjávarútvegi, heldur að auka mjög verulega beina fjárstyrki til sjávarútvegs í Noregi, þrátt fyrir þetta stefnumið þar sem styrkjakerfið á að afnema fyrir lok næsta árs samkvæmt þessari EFTA-samþykkt. Þetta munu hafa verið um 900 millj. norskra króna í beina styrki til sjávarútvegs á síðasta ári og samkvæmt ákvörðunum Stórþingsins er þessi upphæð hækkuð ef ég man rétt í 1125 millj. norskra kr.
nú fyrir yfirstandandi ár, sem þarna er varið í styrkveitingar. Svo ekki stefnir það nú í afnám og aðlögun í þessum efnum heldur þvert á móti.
    Við vitum vissulega, virðulegi forseti, að Norðmenn geta fært fram mjög skýr rök fyrir því að svona er brugðist við af þeirra hálfu í þessu máli vegna hins gífurlega samdráttar í fiskveiðiheimildum til norskra sjómanna, til norskra fiskiskipa sem væri nú aldeilis svart í álinn ef við stæðum frammi fyrir einhverju slíku. En þetta er sem sagt veruleiki og ég á eftir að sjá það að Noregur og ég veit ekki, ég hef ekki kannað málin hjá Finnum og Svíum, sem voru með böggum hildar yfir þessu ákvæði, að þeir standi við þetta á næsta ári. Þegar svo litið er til Evrópubandalagsins þá er nú ekki aldeilis tekið undir þessi sjónarmið. Í könnunarviðræðum vísuðu þeir beint í sína fiskimálastefnu sem er njörvuð í gífurlegt styrkjakerfi og það þarf nokkra bjartsýni til að ætla að Evrópubandalagið hreyfist eitthvað út af kröfu af hálfu EFTA varðandi fríverslun með fiskafurðir. Ég man ekki betur en Evrópuþingið í Strasborg hafi einmitt verið að hnykkja á þessu kerfi og gera ítrekaðar og auknar kröfur um að það komi aðgangur að auðlind í staðinn fyrir aðgang að markaði í sambandi við fisk

og fiskveiðar. Eitthvað las ég um það í blöðum alveg nýlega.
    Og svo er það þessi spurning: Á maður að hryggjast eða gleðjast?
    Hvernig erum við Íslendingar í stakk búnir til þess að taka á okkur algjöra fríverslun með fisk? Hvernig erum við í stakk búnir til þess? Hvað mundi hæstv. sjútvrh. segja ef hæstv. utanrrh. kæmi nú frá einhverjum fundinum erlendis og segði: Nú ber vel í veiði, segir hæstv. utanrrh., Evrópubandalagið búið að samþykkja fríverslun með fisk. Ekki bara EFTA heldur Evrópubandalagið. --- Hvað ætli hæstv. sjútvrh. mundi segja þegar hann þyrfti að horfast í augu við það að hægt væri að sækja fiskinn inn á Íslandsmið af útlendingum, þ.e. kaupa hann upp sennilega bara um borð í skipunum og stýra þeim til útlanda með aflann óunninn.
    Ég hef vissulega heyrt það af vörum hæstv. utanrrh. ekki alls fyrir löngu að þetta mundi nú ekki breyta svo sem neinu. Í rauninni séum við skuldbundnir að hafa hér opið varðandi ráðstöfun á fiskafla, megum engar hömlur hafa og þetta breyti engu. En við erum þó með hömlur hér uppi og við höfum viljað hafa það fyrir satt að við höfum fullan rétt til þess að hafa þær. Og ég veit ekki hvernig við stæðum hér ef við ættum á skömmum tíma að taka við slíkri stefnumótun sem þarna er á ferðinni. Ég bið hv. 1. þm. Reykn. aðeins að tjá sig um þessa stöðu.
    Ég held nefnilega að málið liggi þannig í sambandi við fríverslun með fisk að Íslendingar eigi það algerlega ógert að búa sig í þann slag ef þeir ætla í hann sjálfir. Að standa frammi fyrir því að útlendingar geti keypt óheft aflann hér á Íslandsmiðum og keppt um fiskinn, jafnhliða því sem verið er að undirbúa það að þeir geti náð hér undirtökunum í sjávarútveginum með beinum og óbeinum hætti ef við látum draga okkur inn í hið evrópska efnahagssvæði með opnar gáttir fyrir fjárfestingar útlendinga og fjármagnsflutninga. Þó svo talað sé um að reyna að skerma af sjávarútveginn. Flestir viðurkenna að það muni ekki takast í reynd. Engar lagagirðingar muni þar halda en þarna verði opnar dyr.
    Virðulegur forseti. Þetta er mál sem er fullt tilefni til að ræða vegna þessarar skýrslu sem hér liggur fyrir þar sem einmitt fríverslun með fisk er verulegur þáttur skýrslunnar og hefur verið þáttur í starfi Íslendinga á þessum vettvangi. Ég vil vekja athygli á því að menn eiga eftir að skoða dálítið betur fylgjur þess, afleiðingar þess að standa frammi fyrir þessari fríverslunarkröfu sem við höfum þarna borið fram.
    Ég vil svo að lokum, virðulegur forseti, aðeins ítreka að ég tel að það þurfi að gaumgæfa vel þróun þessa þingmannasamstarfs á vegum EFTA. Ekki aðeins þátttöku þingflokka hér á Alþingi, heldur hvernig við eigum að stuðla að framhaldi þessa máls, þingmannanefndar EFTA og samstarfi við þingmenn innan Evrópubandalagsins og Evrópuþingsins. Ég hef engar njörvaðar skoðanir fyrir fram í þeim efnum. Við þurfum að skoða það eftir ástæðum. Við þurfum líka að hafa auga á norrænu samstarfi, samstarfi

Norðurlanda, þar sem meginhluti EFTA-ríkja eru einmitt Norðurlönd og verið er að ræða jafnhliða um breytingar og helst eflingu á norrænu samstarfi.