Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 06. febrúar 1990


     Pálmi Jónsson:
    Herra forseti. Hér hefur staðið 2. umr. um þetta mál nokkra hríð, um frv. til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, og er það mjög að vonum. Telja verður að af hálfu þeirra sem mæla gegn samþykkt frv. hafi flest aðalatriði málsins þegar komið fram. Þar á meðal hefur komið skýrt í ljós af hálfu talsmanna okkar sjálfstæðismanna hver afstaða Sjálfstfl. er í þessum málum. Ég sé naumast ástæðu til þess að rifja það upp að öðru leyti en því að við sjálfstæðismenn teljum að umhverfismál séu meðal hinna þýðingarmestu mála og að við þurfum að sinna þeim betur á komandi tíð en gert hefur verið til þessa. Það verður best gert með því að efna til samstarfs um þau mál, samstarfs á milli þeirra aðila sem þegar fást við meðferð umhverfismála og mynda einn samstarfsvettvang sem þar hafi forustu. Umhverfismál eru svo snar þáttur í þjóðlífinu og öllum umsvifum, bæði á vegum opinberra aðila og eins á vegum einkaaðila, að þau teygja anga sína hvarvetna og því verður ekki við komið að okkar dómi að setja stjórn á þeim málum öllum undir eitt ráðuneyti. Það er röng stefna. Og það breytir engu um það að við viljum gefa þessum málaþætti meiri gaum og aukið vægi á komandi tíð.
    Þrátt fyrir það að þegar hafi komið fram flest aðalatriði málsins get ég þó ekki orða bundist. Ég get ekki orða bundist vegna undrunar minnar á málatilbúnaði hæstv. ríkisstjórnar og þeim þunga sem hún virðist leggja í það að koma þessu máli áfram. Ég hef tekið eftir því að stundum í þessari umræðu hefur þetta frv. verið kallað hégómamál. Það er vissulega rétt að öðru leytinu. Það er vitaskuld hégómamál þegar verið er að breyta lögum um Stjórnarráð Íslands til þess að taka þar upp ráðuneyti sem ekki á um leið að kveða á um að hafi með höndum nein verkefni. Þetta er út af fyrir sig hégómamál. En að hinu kastinu er þarna um stóralvarlegt mál að ræða.
    Ég get rökstutt þá fullyrðingu mína með nokkrum orðum og skal ég taka það fyrir í örstuttu máli, í einum fjórum atriðum.
    Í fyrsta lagi eru það vinnubrögðin við þennan málatilbúnað og það frv. sem hér liggur fyrir. Vinnubrögðin og það vinnulag sem hæstv. ríkisstjórn hefur notað var hér rækilega tekið í gegn af hv. 1. þm. Reykn. Ég hafði raunar áður vikið að þeim þætti mála við 1. umr. þessa máls, en það eru óheillavænleg vinnubrögð og ekki til eftirbreytni að knýja fram breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands við harða andstöðu stjórnarandstöðunnar á Alþingi og við öflug mótmæli hvaðanæva að úr þjóðlífinu. Ríkisstjórn sem þannig fer að er að knýja fram mál af einhverjum annarlegum hvötum vegna þess að hún treystir sér ekki til þess að viðhafa eðlileg vinnubrögð, þ.e. að um þessa þýðingarmiklu löggjöf, um Stjórnarráð Íslands, sé fjallað af báðum fylkingum, stjórn og stjórnarandstæðingum. En það er ekki einungis sú hæstv. ríkisstjórn sem nú situr sem á að búa við lög

um Stjórnarráð Íslands eins og þau verða sett. Ef það vinnulag verður tekið upp að ríkisstjórn breytir lögum um Stjórnarráð Íslands í harðri andstöðu við stjórnarandstöðuna hverju sinni sem ný ríkisstjórn sest að völdum, þá er þar verið að fara inn á óheillavænlega braut og algjörlega í andstöðu við það vinnulag sem áður hefur tíðkast þegar fjallað hefur verið um undirbúning að breytingum á lögum um Stjórnarráð Íslands. Þetta kom afar glöggt fram í máli hv. 1. þm. Reykn. hér áðan og ég sé ekki ástæðu til að fara um það mörgum fleiri orðum. Það er enda svo að nú er ekki verið að breyta lögum um Stjórnarráð Íslands til þess að koma þar á heppilegri skipan, heldur til að þjóna pólitískum hagsmunum núverandi hæstv. ríkisstjórnar og greiða þá skuld sem hæstv. forsrh. stofnaði til við svokallaðan Borgfl. hér á hv. Alþingi þegar þessi flokkur gekk til liðs við ríkisstjórnina á sl. hausti. Þetta er staðreynd málsins og það er ömurlegt til þess að vita að hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstjórn skuli af þessum sökum gera að því leik að breyta lögum um Stjórnarráð Íslands á þann máta sem stjórnarandstaðan hér á Alþingi og verulegur þorri þjóðarinnar a.m.k. og fjöldamargir umsagnaraðilar eru gjörsamlega í andstöðu við. Þetta er fyrsta atriðið sem ég tel að sé stóralvarlegt varðandi þann málatilbúnað sem hér er á ferðinni.
    Í öðru lagi vil ég nefna að það frv. sem hér er á ferðinni um stofnun umhverfisráðuneytis stríðir gegn eðlilegri skipan þessara mála í íslenska stjórnkerfinu. Og það stríðir gegn þeirri reynslu sem fengin er erlendis hjá ýmsum Evrópuþjóðum og þeim tillögum sem fram hafa komið á alþjóðavettvangi. Að þessum efnum vék ég mjög í ræðu minni við 1. umr. þessa máls og sé ekki ástæðu til að endurtaka það, heldur aðeins að menn taki eftir því að stofnun umhverfisráðuneytis nú með lögum stríðir gegn þessum sjónarmiðum, stríðir gegn reynslu annarra þjóða og þeim tillögum sem mótaðar hafa verið á alþjóðavettvangi vegna þeirrar reynslu sem þar hefur fengist.
    Það kom fram í ágætri ræðu hv. 2. þm. Reykv. að sú reynsla sem fengin er, til að mynda á Norðurlöndunum og hjá sumum öðrum Evrópuþjóðum, hefur leitt til þess að umhverfisráðuneyti sem stofnuð voru víðast hvar upp úr 1970 hafa orðið gífurleg bákn með miklum fjölda starfsfólks og hóflausum kostnaði. En þau hafa ekki náð árangri eins og til var ætlast, þau hafa orðið til þess að önnur
ráðuneyti stjórnkerfisins í þessum löndum sem fara með þá málaflokka, sem að hluta til áttu að fara undir umhverfisráðuneyti, hafa haldið sínu striki og árekstrar hafa orðið. Stjórnsýslan hefur orðið ómarkviss og ruglingsleg, en hlaðið upp kostnaði, hlaðið upp mannafla og þanist út og orðið mikið bákn.
    Ég tók eftir því að hv. 2. þm. Reykv. vitnaði til þess að til að mynda í Danmörku eru starfsmenn umhverfisráðuneytisins þrjú þúsund og þar hafa allir þessir annmarkar komið í ljós. Enda er það svo að nú hafa Danir tekið það upp að setja á fót að nýju deild innan landbúnaðarráðuneytisins með nýjum

deildarstjóra og nýju starfsliði, raunar sumpart starfsliði sem áður fjallaði um umhverfismál þar á vegum ráðuneytisins, til að annast umhverfismál á vegum landbúnaðarráðuneytis, ofan í þrjú þúsund manna starfslið umhverfisráðuneytisins danska. Þetta er ekkert einstök saga, þetta er það sem einnig er að gerast annars staðar vegna þess að reynslan hefur sýnt að þetta skipulag hentar ekki. Umhverfismálin eru það víðfeðm, þau snerta það mörg svið, nærri hvert einasta svið í athöfnum einstaklinga og í stjórnarfarslegum athöfnum, að ekki er mögulegt að ná utan um þau málefni öll með því að hafa allt á einum stað í einu ráðuneyti. Þess vegna þarf að koma til samstarf um þessi efni, samvinna og það þarf að gæta að þessum efnum í hverju ráðuneyti fyrir sig, en hafa síðan samstarfsvettvang þar sem menn bera saman bækur sínar og ná saman um heildarstefnu og ná einnig saman um það að út á við sé einn málsvari.
    Hér er annar þáttur þess máls sem ég kalla einnig stóralvarlegan. Það er verið að taka upp skipan sem menn hafa komist að raun um erlendis að hentar ekki, að er röng.
    Við sjálfstæðismenn erum því andvígir og stjórnarandstaðan hér á Alþingi er því andvíg. Ég nefni það vegna þess að stjórnarandstöðufulltrúar í hv. allshn. hafa skrifað sameiginlega undir það nál. sem hér liggur fyrir þar sem lagt er til að þetta frv. verði fellt.
    Í þriðja lagi nefni ég kostnað. Þó að það hafi að nokkru komið fram í máli mínu varðandi það sem ég kalla annan þátt í gagnrýni minni um þessi aðalatriði, þá er hér verið að stofna til þess að setja á laggir bákn. Það er verið að stofna til að það verði gífurlegur, nýr kostnaður við stjórnsýsluna og það að óþörfu. Og það með því að stefna einnig efnislega í ranga átt. Nú er það svo og við höfum tekið eftir því að við flutning á stofnunum ríkisins t.d. milli ráðuneyta sem nokkuð hefur verið um en einnig við flutning á einstökum ráðuneytum milli herbergja eða húsa þá fylgir því ærinn kostnaður út af fyrir sig. Ég nefni í þessu sambandi, vegna þess að það er hægt að vitna til dæma, að flutningur á einu ráðuneyti, sjútvrn. af Lindargötu niður í næstu húsalengju við Skúlagötu, í Fiskifélagshúsið, kostaði fyrir tveimur árum í fjárfestingu við að laga til skrifstofu fyrir hæstv. sjútvrh. og starfsmenn hans fjórtán eða fimmtán, þá kostaði það 36 millj. kr. --- að laga til skrifstofur og afla nýs skrifstofubúnaðar. Voru þó skrifstofur áður í þessu húsnæði. Aðeins það eitt að flytja stofnanir milli húsa eða milli herbergja hefur í för með sér gífurlegan kostnað, a.m.k. þegar þeir sem þar ráða fyrir húsum gæta ekki hófs í búnaði og aðstöðu fyrir sjálfa sig.
    Þegar verið er að setja á stofn nýtt ráðuneyti, nýtt bákn, nýtt umhverfisráðuneyti, má ætla að kostnaður af þeim sökum verði ekki lítill. En kostnaðurinn verður þó fyrst og fremst og enn meiri í rekstri vegna þeirrar tilhneigingar að þenja út í mannafla og kostnað við slíka nýja stofnun, ekki síst ef sú er meiningin sem sumir sporgöngumenn þessa máls halda fram að

þarna eigi að verða stórt ráðuneyti sem hafi yfirumsjón með öllum þáttum þessara mála --- og eru nú báðir hæstv. ráðherrar, hæstv. forsrh. og hæstv. hagstofuráðherra gengnir úr salnum.
    Í fjórða lagi nefni ég í þessari stuttu ræðu minni að frv. er óþarft og er til óþurftar og í óþökk ábyggilega þorra þjóðarinnar, þar á meðal flestra þeirra sem það á að þjóna.
    Í nál. meiri hl. allshn. er prentuð skrá yfir þá aðila sem sent hafa umsagnir varðandi frv. Þeir eru nær 40. Flestar þessar umsagnir eru neikvæðar, þær eru andsnúnar frv. Augljóst er að sumir þessara aðila líta svo á að með þessum málatilbúnaði sé verið að kasta stríðshanska í þessu máli, efna til ófriðar og sundra samstarfi og samhug. En mikið starf hefur verið unnið að því að koma á samstarfi milli aðila sem að þessum verkum vinna.
    Hér er ekki einungis um að ræða ýmsar stofnanir ríkisins. Það er einnig um að ræða ráðuneytin sjálf og í þriðja lagi er um að ræða samtök á vegum einkaaðila, til að mynda Skógræktarfélag Íslands. --- [Fundarhlé.]