Skattskylda orkufyrirtækja
Miðvikudaginn 07. febrúar 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þennan fund en vildi koma hér til þess að skýra frá því, vegna fyrirspurna og athugasemda hv. 4. þm. Vestf., að ég hef átt fund með forsvarsmönnum Sambands ísl. rafveitna. Þeir hafa kynnt mér það mál sem þeir vilja leggja fyrir ríkisstjórn og þing. Ég átti á þeim fundi nokkur orðaskipti við þessa forsvarsmenn rafveitnanna, mun láta kanna það mál og leggja það fyrir í ríkisstjórninni. Ég er að sjálfsögðu fús til þess að taka þátt í efnisumræðum um þetta mál hér í þinginu. Ég vil láta það koma alveg skýrt fram og þakka hv. 4. þm. Vestf. að gefa mér tækifæri til að skýra frá því í þingskapaumræðu en ég vil að sjálfsögðu virða ákvörðun forseta um að ljúka þessum fundi nú klukkan 17. Ég vildi þó nefna að lokum að frv. sem hér er til umræðu annars, ef ekki væri hér þingskapaumræða, er um skattskyldu orkufyrirtækja. Það þarf að kanna hvort tveggja, hvað er átt við með orðinu orkufyrirtæki --- það er reyndar vandasamt, þar af rís einn vandinn --- hitt er svo að skilgreina skattskylduna. Það er líka vandasamt og um það er alllangt mál sem ég vil gjarna eiga þess kost að ræða við hv. deildarmenn í þessari virðulegu þingdeild.