Álver á Grundartanga
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Þessi umræða um álver sem fer hér fram með stuttu millibili er dálítið merkileg vegna þess að ég held að þeir sem reyna að fylgjast með hafi ekki mikla trú á því að álver rísi á Íslandi á næstunni. En ég held að það væri bara þarft fyrir hv. Alþingi að taka upp umræðu um atvinnuuppbyggingu í þessu landi. Það er ekki hægt að gera það í svona tíma. En aðallega kom ég upp til þess að leiðrétta hv. þm. Halldór Blöndal. Hann sagði: Við fyrir norðan, við fyrir norðan viljum fá álver. Það eru sumir fyrir norðan sem vilja það og það væri gaman að láta fara fram skoðanakönnun um það hvor hlutinn er stærri. Svona alhæfingu kann ég ekki við.