Hagstofuráðherra (Júlíus Sólnes):
    Virðulegi forseti. Ég held að litlu sé við svar mitt að bæta. Ég get að vísu greint frá því að það er rétt sem kemur fram hjá hv. 5. þm. Vesturl., það er verið að vinna að mótun atvinnustefnu á mínum vegum og því verki miðar ágætlega áfram. Það eru tvær stórar nefndir sem starfa ötullega að því að fara yfir atvinnumöguleika og reyna að sjá fyrir sér framtíðina í þeim efnum. Við höfum hins vegar gert meira af því að horfa til þess hvernig við getum reynt að auka útflutning og útflutningsframleiðslu Íslendinga. Að sjálfsögðu, eins og ég gat um áðan í svari mínu, mundi annar öflugur varaflugvöllur, sem gæti sinnt þeirri þjónustu að þaðan gætu farið stórar vöruflutningaflugvélar með t.d. ferskan fisk á markaði í fjarlægum löndum, verið mikilvægur þáttur í framtíðaratvinnustefnu okkar. Ég tel sjálfsagt að hafa þetta í huga við mótun atvinnustefnu.
    Hins vegar hef ég bent á það, bæði í sambandi við t.d. byggingu nýs álvers og reyndar í sambandi við byggingu sjálfs mannvirkisins sem slíks, þ.e. varaflugvallar með öllum þeim búnaði sem honum fylgir sem er eins og hv. þm. gat um ansi stórt og mikið verkefni, að það gæti leyst tímabundið þau atvinnuvandamál sem við eigum við að stríða. Ég tel hins vegar að ekki sé síður mikilvægt að horfa lengra fram í framtíðina. Hvað ætlar þessi þjóð að fást við næstu áratugina? Ég tel að við verðum fyrst og fremst að treysta útflutningsframleiðsluna og efla hana því að þá fyrst verði okkur borgið ef okkur tekst að halda hér uppi mjög öflugri útflutningstarfsemi.