Tekjur og stjórnkerfi smáríkja
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Ég fylgi hér úr hlaði till. til þál. um að kanna hvernig önnur smáríki afla sér tekna og haga stjórnkerfi sínu. Ástæðan fyrir flutningi þessarar tillögu er einfaldlega sú að þó að við Íslendingar séum stórhuga þjóð með langa og stóra sögu, þá hættir okkur oft til að margfalda íbúatöluna með 10 eða jafnvel 100. Við erum ekki nema 250 þúsund manns en stundum finnst okkur við vera 2 1 / 2 milljón og af ýmsum framkvæmdum sem við höfum ráðist í mætti draga þá ályktun að við værum ekki undir 25 milljónum. Yfirbygging íslenska þjóðfélagsins er allt of stór og er ástæðan kannski aðallega sú að við viljum halda úti ýmsum þáttum sem aðrar þjóðir eru með fyrir miklu stærri þjóðfélög.
    Íslendingar hafa oft leitað að fyrirmyndum til miklu stærri landa þar sem ríkja önnur lögmál stærri markaða og margfalt stærri þjóðfélaga. Þau tíðindi sem öðru hverju berast af helstu atvinnuvegum okkar, sjávarútvegi og landbúnaði, minna okkur reglulega á hversu hættulegt það er að hafa of mörg egg í sömu körfunni. Hversu dýrt og hættulegt hvert áfall getur reynst þjóðinni. Þess vegna telur flm. aldrei brýnna en nú að leita fleiri tekjuleiða fyrir lítið þjóðfélag og hafa ekki öll eggin áfram í sömu körfu.
    Við höfum borið okkur saman við milljarðaþjóðir á borð við Bandaríkin, ríki Vestur-Evrópu, jafnvel Sovétríkin og önnur ríki en við höfum gleymt að skoða smærri þjóðir eins og Lúxemborg, Andorra, Lichtenstein, Mónakó, San Marínó, Möltu, Kýpur, Færeyjar, bresku eyjarnar á Ermarsundi, jafnvel ýmsar eyjar í Vestur-Indíum og hægt er að halda áfram enn lengra og skoða staði eins og Hong Kong, Formósu, Singapore og mörg fleiri lönd sem eru smáríki eins og við og nota smæð sína til þess að afla sér og sínum tekna.
    Íslendingar hafa áður slegist í hóp smáþjóða Evrópu. Við höfum tekið þátt í íþróttamótum með þeim þjóðum. Við höfum meira að segja hlotið þar verðlaun, mörg gullverðlaun, silfurverðlaun og bronsverðlaun. Aðrar litlar þjóðir hafa margar gert sér grein fyrir því fyrir löngu að það þýðir ekki að taka upp alla siði í viðskiptum og atvinnulífi sem stærri þjóðir temja sér heldur að nýta sér smæðina.
    Þjóðir eins og t.d. í San Marínó nota frímerkjaútgáfu, Mónakó spilavítin og svona má áfram telja. Þessar þjóðir hafa náð að lækka skatta í landinu verulega, hafa treyst mjög atvinnulífið og fólkið í þessum litlu ríkjum lifir alveg prýðilegu lífi. Flm. leggur því til að þessar þjóðir verði skoðaðar og að utanrrh. skipi nefnd til þess að kanna þessa hluti og jafnframt að stjórnkerfið verði skoðað í leiðinni því oft og tíðum búa þessar litlu þjóðir við margfalt einfaldara stjórnkerfi en við hér á Íslandi, miklu ódýrara í rekstri og þó engu að síður gott stjórnkerfi.
    Allt er þetta ómaksins vert að skoða, tekjulindir og stjórnkerfi, safna upplýsingum saman og vinna úr þeim. Skoða hvort ekki sé eitt eða annað sem mundi henta okkur betur en það sem við höfum í dag.

    Að svo mæltu mæli ég með að tillögunni verði vísað til 2. umr. og til hv. utanrmn.