Skólamáltíðir
Mánudaginn 12. febrúar 1990


     Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Þetta er sannarlega ekki í fyrsta sinn sem hreyft er þessu máli og má segja að allir vildu Lilju kveðið hafa. Hér eru fjórir framsóknarmenn sem lýsa fylgi sínu við þessa hugmynd og er það vissulega vel.
    Lengi hefur verið að því stefnt að vinna ýmsum till. brautargengi sem stuðla að samfelldum skóladegi. Sem stuðla að því að samræma sem allra best vinnutíma foreldra og barna og á þann hátt auðvelda fjölskyldum það að eiga fleiri stundir til samvista á heimilum sínum. Um þetta hygg ég að við séum öll sammála.
    Í þessu efni hefur nokkur árangur náðst í ýmsum skólahverfum og er það vitanlega vel. Sums staðar er það svo úti um landið að fjármunir hafa oft og tíðum farið til þess að byggja stórt og mikið og fullkomið eldhús sem gæti e.t.v. þjónað miklu stærri og stórkostlegri stofnun en um er að ræða þar sem litlir skólar eiga í hlut. Það er ekki spurningin um stór og fullkomin eldhús sem hafa miklu meiri framleiðslugetu en þarf í sjálfu sér handa skólabörnunum. Spurningin er um aðstöðu og hollustufæði handa börnunum þannig að foreldrar eða aðrir uppalendur geti treyst því að þótt lengdur skólatími sé eða samfelldur skóladagur þá sé það ljóst að þau matist með þokkalegum hætti í þokkalegri aðstöðu og það sé heppilegt fæði sem börnin fá.
    Nú fjallar þessi till. einungis um máltíðir á hádegi. Það er í sjálfu sér gott svo langt sem það nær, en á síðasta þingi samþykktum við að vísa þáltill. til ríkisstjórnar með afar jákvæðum hætti og þessi tillaga var raunar flutt af þremur sjálfstæðismönnum svo að því sé nú hér komið á framfæri. Hér eru komnar stuðningsyfirlýsingar hv. þm. Framsfl. og lýsing hv. þm. Kvennalistans á frv. sem þm. Kvennalistans fluttu bæði í vetur og í fyrra, en þess var að engu getið að sjálfstæðismenn hefðu á sama þingi, bæði í vetur og í fyrra, flutt frv. sem vissulega miðar að samfelldum skóladegi og aukin heldur þáltill. sem vísað var til ríkisstjórnarinnar til frekari umfjöllunar á sl. vori. Þessi þáltill. hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að koma til framkvæmda eftirfarandi atriðum varðandi skólastarf í landinu:
    1. Gera sérstaka athugun á því hvers vegna skólaár sé styttra en 9 mánuðir á sumum stöðum á landinu og gera ráðstafanir til úrbóta þar sem ekki eru full rök fyrir styttra skólaári.
    2. Setja á fót starfshóp við hverja fræðsluskrifstofu landsins sem hafi það verkefni að vinna að því að koma á samfelldum skóladegi í öllum skólum fræðsluumdæmisins.``
    Ég hygg að þessi síðari liður tillögunnar sé mjög raunhæf tillaga um úrlausn þess efnis sem við erum að tala um. Í því sambandi vísuðu flm. bæði til niðurstöðu og tillagna fjölskyldumálanefndar svonefndrar sem hv. 1. þm. Suðurl., þáv. forsrh., skipaði í ágúst árið 1987. Það var samstarfsnefnd

ráðuneyta sem um þetta mál fjallaði. Og í nál. sem skilað var í ágúst 1988 sagði m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Nefndin telur æskilegt markmið að allir grunnskólanemar njóti dagvistar a.m.k. 6 klukkustundir á dag. Þessu markmiði verði náð í fjórum áföngum þannig að skóladagur verði lengdur úr 22--35 stundum á viku í 30--37 stundir á viku.`` Síðan segir: ,,Með skipulögðum aðgerðum innan fræðsluumdæmanna verði komið á skólaathvörfum þar til tillögur um lengingu skóladags verði komnar til framkvæmda.``
    3. Lokið verði við að koma á samfelldum skóladegi miðað við núverandi húsakost skólanna skólaárið 1989--1990.
    Það segir sig auðvitað sjálft að það er tómt mál að tala um samfelldan skóladag og lengdan daglegan skólatíma nema aðstaða sé til að matast í skólanum. Þess vegna eru þetta í raun og veru hliðar sama málsins. Þetta eru þættir í sama málinu og ég hygg að ekki verði of mikil áhersla lögð á mikilvægi þess að aðstaða sé í skólanum til að matast og að boðið verði upp á, hugsanlega, einhvers konar áskrift að hollu fæði fyrir börnin. Það má hugsa sér lausn þess máls með ýmsum hætti. Það þarf ekki að vera eins dýrt og að reka veitingahús. Við styðjum það að sjálfsögðu að unnið sé frekar að því máli og ég leyfi mér að vitna til undirbúningsaðgerða sem fóru fram árið 1984 til þess að leita lausna á því að framkvæma þetta miðað við núverandi húsakost skólanna. Ég hygg að það sé vel hægt og m.a. stóð til boða ágætt samstarf hér í Reykjavík t.d. við Mjólkursamsöluna að þessu leyti, bæði hvað varðaði mjólkurafurðir, brauðmeti og grænmeti þannig að ég held að úr ýmsum heppilegum lausnum sé að velja miðað við þann húsakost sem við höfum.
    Ég mun ekki ganga frekar á tímann, frú forseti, en hefði að sjálfsögðu gjarnan viljað rekja frekari tillögur og kannanir sem gerðar voru af nefnd sem fjallaði um samstarf heimila og skóla, nefnd sem starfaði á vegum menntmrn. á sinni tíð og hv. þm. Salome Þorkelsdóttir veitti forstöðu, en ég bendi þeirri nefnd á, sem þetta mál fær til umfjöllunar, að þar eru einnig tillögur sem eru framkvæmanlegar miðað við núverandi húsakost. Og ég hygg að það sé höfuðkostur
á máli sem þessu að það sé framkvæmanlegt.