Námslán og námsstyrkir
Miðvikudaginn 14. febrúar 1990


     Flm. (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. á þskj. 570 um breytingu á lögum nr. 72/1982, um námslán og námsstyrki. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Guðmundur Ágústsson, Halldór Blöndal, Jón Helgason og Karl Steinar Guðnason.
    Þrátt fyrir miklar samgöngubætur og nýja tækni við að koma boðum á milli manna og stofnana er það enn svo að víða um land er þjónusta hins opinbera torsótt fyrir þá sem búa utan höfuðborgarsvæðisins. Íbúar landsbyggðarinnar bera einnig oft ýmsan kostnað, t.d. vegna síma og ferðalaga, og fyrirhöfn vegna fjarlægðar við hinar ýmsu stofnanir, sem þeir sem búa í námunda við þær losna við. Opinber þjónusta er greidd úr sameiginlegum sjóðum og því er réttlætismál að landsmenn allir geti notið hennar jafnt og að aðgangur að þeim stofnunum sem um er að ræða sé sem greiðastur.
    Nemendur sem rétt eiga á lánum frá Lánasjóði ísl. námsmanna koma frá öllum landshlutum og stunda nám við ýmsa skóla bæði hér á landi og erlendis. Hin síðari ár hafa verið stofnaðir margir nýir framhaldsskólar þar sem í boði er nám á brautum sem samkvæmt reglum Lánasjóðs ísl. námsmanna er lánshæft. Má sem dæmi nefna nám á síðari hluta verkmennta- og tæknibrauta og árið 1988 var Háskólinn á Akureyri stofnaður. Þar stunda nú um 85 stúdentar nám. Má einnig nefna hér til sögunnar nemendur við búvísindadeildir bændaskólanna, Samvinnuskólann á Bifröst og Garðyrkjuskóla ríkisins svo að nokkur fleiri dæmi séu tiltekin en þau sem getið er um í greinargerð með frv. Allir þeir sem sækja um lán hjá Lánasjóði ísl. námsmanna þurfa að eiga margvísleg samskipti við starfsfólk sjóðsins bæði varðandi ráðgjöf og leiðbeiningar svo og þegar skila þarf inn skjölum og upplýsingum af ýmsu tagi, svo sem um tekjur og námsframvindu.
    Þegar leitað er ráðgjafar og upplýsinga er mjög mikilvægt að þeir sem þeirrar þjónustu þarfnast hafi möguleika á að ræða beint við ráðgjafana. Oft getur valdið vandkvæðum að þurfa að reka öll sín erindi í gegnum síma auk þess kostnaðar sem því fylgir og ég gat um hér áðan.
    Þeir sem stunda lánshæft nám, hvort sem er hér á landi eða erlendis, verða að sækja alla lánafyrirgreiðslu til afgreiðslu Lánasjóðs ísl. námsmanna í Reykjavík. Stúdent við nám erlendis verður að hafa umboðsmann hér heima sem sér um að koma upplýsingum og nauðsynlegum gögnum varðandi námsframvindu hans og fjárhag til lánasjóðsins. Alegngast er að umboðsmaður sé foreldri eða
annar nákominn. Mjög erfitt og nánast óframkvæmanlegt er að gerast umboðsmaður búi viðkomandi ekki á höfuðborgarsvæðinu og eru mörg dæmi þess að foreldrar stúdenta sem stunda nám erlendis hafa hreinlega orðið að gefast upp við að gegna hlutverki umboðsmanns.
    Fyrir lánþega Lánasjóðs ísl. námsmanna er það brýnt hagsmunamál að öll gögn berist skilvíslega á

tilsettum tíma. Því er nauðsynlegt að boðleiðir milli Lánasjóðsins og stúdenta eða umboðsmanna þeirra séu sem greiðastar. Til þess að tryggja að svo megi verða leggja flm. þessa frv. til að bankaútibúum og sparisjóðum úti um landið verði gert kleift að annast afgreiðslu fyrir nemendur, stúdenta og umboðsmenn sem búa fjarri höfuðborgarsvæðinu.
    1. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Við 4. gr. laganna bætist ný málsgr. svohljóðandi:
    Skylt er sjóðsstjórninni að sjá til þess að bankaútibú eða sparisjóðir á landsbyggðinni geti annast afgreiðslu fyrir sjóðinn.``
    2. gr. hljóðar svo: ,,Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 1990.`` Skýringin á því er sú að auðvitað þurfa þeir sem taka að sér afgreiðslu fyrir Lánasjóðinn að kynnast þeim reglum sem gilda um úthlutun lána og hverjir eiga þar rétt, en þær reglur geta stundum reynst nokkuð flóknar.
    Ég vil leggja áherslu á það að ef við ætlum að bregðast á einhvern hátt við þeirri byggðaröskun sem orðið hefur hin síðustu ár er það eitt af grundvallaratriðunum að færa þjónustuna út til fólksins, gera fólkinu sem býr utan höfuðborgarsvæðisins auðveldara að sækja sjálfsagða þjónustu. Þetta snertir aðeins einn afmarkaðan þátt en í tilefni af flutningi þessa frv. vil ég benda á annað sem lagt var fram í neðri deild í dag af hv. þingmönnum allra flokka fyrir frumkvæði hv. 7. þm. Norðurl. e. Málmfríðar Sigurðardóttur, um að þjónusta Húsnæðisstofnunar ríkisins verði einnig færð út á landsbyggðina. Það mál snertir sennilega miklu fleiri. Þó að hér sé einungis um þennan afmarkaða hóp að ræða, þ.e. stúdenta, þá er þetta mjög mikilvægt fyrir þá sem þessa þjónustu þurfa að nota og legg ég því ríka áherslu á að frv. hljóti jákvæðar og góðar undirtektir hér í hv. deild.
    Vil ég að lokinni þessari 1. umr. leggja til að málinu verði vísað til menntmn. og 2. umr.