Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit
Miðvikudaginn 14. febrúar 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Í allri Austur-Evrópu gerast þeir hlutir að miðstýringin er að hrynja, hún er að gefa eftir og valdið er að færast aftur út til þjóðlanda sem áður höfðu það hlutskipti að vera leppstjórnir um stjórnun. Á sama tíma og þetta er að gerast og hin skynsamlega stefna Gorbatsjovs í þessum efnum er að breyta stóru svæði til betri vegar, þá bera menn það á borð fyrir þingheim hér að ekki sé hægt að láta starfsmenn heilbrigðisnefndanna úti á landi sjá um að meta það hver á sínu svæði hvaða ráðum eigi að beita til að atvinnufyrirtæki þessara svæða fari að lögum varðandi heilbrigðishætti og hollustuvernd. Menn vilja flytja valdið suður til ríkisins þannig að á fögrum sumardegi komi menn á góðum bíl úr höfuðborginni, gljáfægðum, trúlega teknum á leigu af bílaleigu hér í bænum, og tilkynni að þessu fyrirtæki verði lokað. Þetta er það sem menn eru að fara fram á að verði gert í gegnum Hollustuvernd ríkisins. Hvar er hin heilbrigða hugsun innan veggja þessarar stofnunar? Er það sú hugsun að það þurfi sérhannaða bíla til að aka eftir Miklubrautinni í Reykjavík, það þurfi sérhannaða bíla erlendis frá því að venjulegir bílar mengi of mikið til að hægt sé að keyra eftir Miklubrautinni. Eru það menn með heilbrigð viðhorf sem þannig hugsa? Halda menn að atvinnulífi Íslands, þess mesta vaxtarbrodds sem sennilega verður, fiskeldinu, sé greiði gerður með svona tillöguflutningi? Mig undrar að Alþingi Íslendinga skuli styðja það að flytja valdið úr byggðunum suður. Mig undrar það.
    Ég veit að ráðherrar landsins hafa gefist upp. Hugleysið hefur sigrað í þessum efnum. Þeir hafa lagt á flótta í orðsins fyllstu merkingu. Þeir vilja
flytja þetta vald allt suður. En ég mótmæli því enn og aftur að þannig skuli að málum staðið. Við skulum hafa reglur og við skulum deila um hverjar reglurnar séu. En að bera það á borð fyrir menn að ekki sé hægt að nota þá fulltrúa sem eru í byggðarlögunum og þekkja þar betur til mála en aðrir til að framkvæma þessa hluti, það er rugl. Hvað eiga þeir að gera á eftir, þessir sem eru hafðir heima fyrir þegar búið er að flytja valdið suður? Hvert á þá að vera þeirra verkefni? Eiga þeir að vera upp á punt, áskrifendur að laununum? Hver er þá tilgangurinn? Ég mótmæli því enn og aftur að þetta skuli eiga sér stað og vil með þessari ræðu vekja athygli þingheims á því að það fari ekki á milli mála að menn eru að flytja valdið suður með þessum aðgerðum.