Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 14. febrúar 1990


     Flm. (Geir H. Haarde):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. sem ætlað er að hnekkja ákvörðun sem tekin var í ríkisstjórn Íslands hinn 5. des. sl. Sú ákvörðun snertir vexti af lánum hjá Byggingarsjóði ríkisins og er að dómi flm. hin versta lögleysa og stórkostlega ranglát í þokkabót.
    Með frv. þessu er lagt til að framvegis verði óheimilt að ákveða mismunandi vexti af lánum innan sama lánaflokks hjá Byggingarsjóði ríkisins en ákvörðun ríkisstjórnarinnar 5. des. sl. snerist um það að taka út úr ákveðinn hluta lána innan tiltekins lánaflokks og hækka vextina af þeim en láta önnur lán innan sama lánaflokks bera óbreytta vexti. Við leggjum þess vegna til, flutningsmennirnir, að bætt verði inn í viðeigandi mgr. laganna um Húsnæðisstofnun ríkisins eftirfarandi setningu, með leyfi forseta:
    ,,Öll lán innan sama lánaflokks skulu bera sömu vexti óháð lántökudegi.``
    Þetta er sú viðbót sem frv. þetta gerir ráð fyrir að komi inn í 3. mgr. 48. gr. laganna um Húsnæðisstofnun ríkisins en sú grein yrði að öðru leyti óbreytt.
    Ég hygg að það þurfi vart að rifja upp fyrir hv. þingdeildarmönnum þær deilur sem urðu m.a. hér á hinu háa Alþingi í kjölfar þessarar umdeildu ákvörðunar ríkisstjórnarinnar. Ég hygg að mönnum sé enn í fersku minni hvernig þessi mál voru tekin hér upp á hinu háa Alþingi að forgöngu hv. 1. þm. Reykv. sem er einn af flm. þessa frv. en ég tel engu að síður óhjákvæmilegt að rifja þetta mál upp í stuttu máli og fjalla um helstu málavexti.
    Það er ekki ofmælt að með þessari ákvörðun hefur ekki bara skapast alvarlegt óréttlæti gagnvart því fólki sem sótt hefur um lán hjá Byggingarsjóði ríkisins, heldur hefur jafnframt skapast hættulegt fordæmi gagnvart því hvernig um þessi mál kann að verða fjallað í framtíðinni ef það reynist standast skv. lögum að ráðherra geti tekið út úr ákveðinn hóp lána innan tiltekins lánaflokks og breytt þar vöxtum, hækkað eða lækkað nánast eftir geðþótta. En það er á slíkri lögfræðilegri útskýringu sem málstaður hæstv. félmrh. í máli þessu er grundvallaður.
    Við sem flytjum þetta frv. viljum taka af allan vafa um það að framvegis verði þetta ekki heimilt og jafnframt er það skýrt tekið fram í greinargerð þessa frv. að nái það fram að ganga, þá beri að afturkalla ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 5. des. sl., þá sé henni þar með hrundið.
    Það hefur skapast, virðulegi forseti, mikil réttaróvissa í kjölfar þessarar ákvörðunar einmitt vegna þess sem ég var að segja, að nú geta lántakendur átt það yfir höfði sér að pólitískur ráðherra breyti vöxtum á þessum lánum nánast eftir geðþótta eða eftir pólitísku samkomulagi við hina og þessa aðila án þess að fyrir því séu efnislegar forsendur og án þess að gætt sé eðlilegrar jafnræðisreglu íslensks stjórnarfars.
    Þetta mál er þannig til komið, virðulegi forseti, að það hefur lengi legið fyrir að verulegt ósamræmi er

milli þeirra vaxta sem Húsnæðisstofnun ríkisins greiðir sjálf til lífeyrissjóða og þeirra vaxta sem hún innheimtir af þeim lánum sem hún veitir. Vegna þessa hefur skapast fjárþörf hjá Byggingarsjóðnum sem að hluta til hefur verið mætt með framlögum úr ríkissjóði en að hluta til með því að ganga á eigið fé sjóðsins og það svo mjög að ábyrgir aðilar gera sér ljóst að stefnt getur í gjaldþrot þessa sjóðs áður en mjög langt um líður. Þannig vill til að hæstv. félmrh. hefur gengið fram í því að benda á þessa staðreynd, þannig að það hefur legið fyrir að óhjákvæmilegt væri að taka á þessum vanda því að auðvitað getur enginn sjóður árum saman borið slíkan vaxtamun sjálfur og ekki er lengur upp á ríkissjóð að hlaupa í því efni því að framlögin úr ríkissjóði hafa verið stórskert í tíð núv. ríkisstjórnar. Það hefur því legið fyrir, virðulegi forseti, að óhjákvæmilegt væri að taka á þessu máli með einhverjum hætti. Auðvitað væri það æskilegast, auðvitað væri það eflaust það sem allir helst kysu, að vextirnir af lánunum sem Byggingarsjóðurinn tekur sjálfur mundu lækka þannig að þessi vaxtamunur minnkaði eða hyrfi jafnvel alveg, jafnvel þannig að þessi sjóður hefði smávaxtamun sér í hag eins og er nú um flestar lánastofnanir. En því hefur ekki verið að heilsa. Þess vegna er óhjákvæmilegt og hefur blasað við að taka þyrfti á þessu vaxtavandamáli hjá Byggingarsjóði ríkisins.
    Hæstv. núv. félmrh. hefur hins vegar veigrað sér við því að gera það og það er kannski skiljanlegt að mörgu leyti vegna þess að slíkar ákvarðanir eru óvinsælar, það er ekki líklegt til vinsælda að hækka vexti á lánum sem þessum. En í þessum efnum er ekki bara spurt um vinsældir, virðulegi forseti. Það er líka spurt um þá ábyrgð sem menn bera á sjóðum sem þessum og þá ábyrgð sem fylgir því starfi sem fólk hefur tekið að sér.
    Hæstv. félmrh. hefur sem sagt ævinlega skotið sér undan því að taka á þessu vaxtavandamáli þar til núna í desember sl. en þá var það gert með þeim hætti að við flm. þessa frv. teljum að það standist ekki núgildandi lög, að það hafi verið gert með þeim hætti að það brjóti í bága við ákvæði núgildandi laga um Húsnæðisstofnun ríkisins af þeim ástæðum sem ég áður gat um. Reyndar tel ég mig hafa vissu fyrir því að það hafi ekki verið upphafleg áform hæstv. félmrh.
að svona væri að málum staðið, heldur hafi áform ráðherrans verið það að láta hér eitt yfir alla ganga innan sama lánaflokks. En ástæðan fyrir því að það var ekki gert mun vera sú að í tengslum við húsbréfafrv. á síðasta þingi var gert samkomulag við Kvennalistann, aðila sem ekki stendur að núverandi stjórnarsamstarfi, um að koma því frv. hér í gegnum þingið, þ.e. frv. um húsbréf. Það samkomulag sem þá var gert snerist að vísu að litlu leyti um húsbréf, mjög litlu leyti, heldur um ýmsa aðra þætti, suma innan húsnæðismála og aðra ekki, og eitt af þeim atriðum sem þar var um samið og liggur fyrir skjalfest í þingtíðindum var það að ekki skyldi hækka vexti á lánum frá Byggingarsjóði ríkisins hjá þeim sem þegar

hefðu tekið slík lán.
    Nú er rétt að bæta því við, virðulegi forseti, að í öllum skuldabréfum Byggingarsjóðsins er ákvæði um það að þeir sem taki þessi lán verði að búa við þann möguleika að vöxtunum verði breytt af Byggingarsjóðnum, enda eru um það skýlaus ákvæði í lögunum að vextir af lánum Byggingarsjóðs ríkisins skuli vera breytilegir. En vegna þessa samkomulags sem gert var á síðasta þingi --- sem manni hefur skilist á talsmönnum Kvennalistans að hafi nú verið brotið að öllu öðru leyti fram og aftur og í bak og fyrir --- þá hafi verið sérstök ástæða til að standa við það samkomulag varðandi þetta eina atriði, endurgjalda stuðninginn frá síðasta þingi með því þó kannski að standa við eitt atriði af þeim sem samið var um milli þessara aðila á sl. vori.
    En við flm. þessa frv. teljum að hér sé ekki leyfilega að málum staðið og ekki löglega og viljum hnekkja þessari ákvörðun. Og við teljum að það sjónarmið fái ekki staðist sem liggur á bak við ákvörðun ríkisstjórnarinnar hinn 5. des., um að það megi færa rök fyrir því að ríkisstjórnin sé ekki bundin af neinum sérstökum reglum um það hvernig og hvenær hækka megi vextina af einstökum lánum Byggingarsjóðsins, við teljum að þetta sé fjarstæða. Og þannig vill til í þessu máli að flm. þessa frv. eru engir aðrir en sjálfur félmrh. sem flutti þetta mál, flutti þessi núgildandi lög á sínum tíma og þekkir þess vegna málið manna best, og formaður félmn. Nd. á þeim tíma, hv. 1. þm. Reykv., sem mælti fyrir nál. um þetta þingmál þegar það var til meðferðar hér í hv. deild. Hverjir skyldu þekkja þetta mál betur en einmitt þessir tveir aðilar? Og ég get bætt því við að sá sem hér stendur, 1. flm., var í vinnuhópnum sem undirbjó þessa lagasetningu á sínum tíma og kannast alls ekki við það úr því starfi að svona sjónarmiðum, sem ég gat um og þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar 5. des. grundvallast á, hafi þar nokkurn tímann verið hreyft. Og það þýðir bara ekki, það er bara ekki boðlegt, að koma síðan hingað inn í sali Alþingis með eitthvert lögfræðiálit og segja nánast sem svo: Það virðist vera vilji löggjafans samkvæmt þessum lögum að binda þessi mál ekkert í neinar reglur.
    Ég held að þessir hv. þm. sem ég nefndi, þáv. félmrh. og þáv. formaður félmn., fari nokkuð nærri um það hver hafi verið vilji löggjafans á þeim tíma. Ég held satt að segja að það fari enginn nær um það en þessir tveir hv. þm., jafnvel ekki hæstv. núv. félmrh. þótt hún hafi setið í félmn. á þessum tíma. Ég tel því ekki að slíkur málflutningur sé raunverulega boðlegur eða að það geti gengið að bera slíkt hér á borð.
    Ákvörðunin um þessa vaxtahækkun, um að láta vextina hækka þann 5. des. á þeim lánum sem þá voru óafgreidd og hjá því fólki sem þá hafði lengst staðið í biðröðinni, mismunar milli aðila. Hún er ranglát að því leyti til og hún er líka ranglát vegna þess að núna mun markaðsverð íbúðarhúsnæðis verða breytilegt eftir því hvers konar byggingarsjóðslán hvílir á íbúðunum. Liggur það ekki í augum uppi að

þær íbúðir sem hafa áhvílandi lán með þessum hærri vöxtum verða verðminni fyrir eigandann, fyrir seljandann? Þar með er verið að skapa nýtt ranglæti í þessu efni líka og þá þurfa menn á fasteignamarkaðinum að grufla sérstaklega í því hvort lánin á viðkomandi íbúð hafi verið tekin fyrir eða eftir 5. des. sl. Þetta stenst engan veginn að okkar dómi, herra forseti.
    Þegar þetta mál var til umræðu á vettvangi ríkisstjórnarinnar fyrir nokkrum vikum síðan munu ráðherrar Borgfl. hafa lagt fram sérstaka bókun þar sem þeir lögðust gegn málinu en lögðu þess í stað til að vextir af öllum þessum lánum, innan þessa lánaflokks sem hér er verið að tala um, hækkuðu um 0,4% í stað þess að taka út úr lánin eftir 5. des. og hækka þau um 1%. Þetta bókuðu ráðherrar Borgfl. í ríkisstjórninni og aldrei þessu vant tel ég að ráðherrar Borgfl. hafi hitt naglann á höfuðið og lagt skynsamlega til. Ég skal ekki fara í neinar deilur um það hvað hefði átt að hækka lánin mikið, hvort 0,4% hefðu verið nákvæmlega rétta talan eða ekki. Það skiptir ekki meginmáli. Það er talið að sú hækkun hefði gefið Byggingarsjóðnum jafnmiklar tekjur og sú 1% hækkun sem ákveðin var. Aðalatriðið er það að láta eitt yfir alla ganga, að mismuna ekki milli borgaranna með þeim hætti sem gert var.
    Þannig liggur fyrir, herra forseti, að það er ekki bara ágreiningur milli einstakra stjórnarþingmanna um þessa ákvörðun, heldur líka innan ríkisstjórnarinnar sjálfrar, og að ráðherrar eins stjórnarflokksins hafa bókað sérstaklega gegn þessari ákvörðun. Í bókun ráðherra Borgfl., sem birtist í
Morgunblaðinu 9. des. sl., sagði svo, með leyfi forseta:
    ,,Sú vaxtabreyting sem félagsmálaráðherra leggur til hefur að okkar dómi ekki við önnur rök að styðjast en þau að þingnefnd sem fjallaði um málið í vor sem leið ályktaði að eðlilegt væri að vextir af útlánum Byggingarsjóðs ríkisins hækkuðu í 4--4,5% þegar húsbréfakerfið tæki gildi. Enn fremur er vitnað til samkomulags sem þáv. ríkisstjórn gerði við Kvennalistann en þar kemur fram að vaxtabreyting á húsnæðislánum skuli ekki gerð afturvirk.``
    Þannig liggur fyrir að ráðherrar Borgfl. eru andvígir þessari breytingu og væntanlega þá stuðningsmenn þeirrar hugmyndar sem fram kemur í þessu lagafrv. Það hafa hins vegar fleiri tjáð sig um þetta mál af stjórnarþingmönnum. Hv. 5. þm. Suðurl. sagði í blaðaviðtali út af þessu máli hinn 8. des. sl. að vaxtahækkunin hefði aldrei verið samþykkt í þingflokki Framsfl. Kannski getur formaður þingflokksins staðfest þetta áður en hann hverfur á braut. 5. þm. Suðurl. fullyrðir í blaðaviðtali að þessi vaxtahækkun hafi aldrei verið samþykkt í þingflokki Framsfl. og að framsóknarmenn ætli sér að fá þessari hækkun breytt.
    Það er þess vegna ljóst að megn óánægja er með þessa hækkun og kannski ekki bara þessa hækkun, heldur hvernig að henni er staðið á alla lund hér innan hins háa Alþingis. Það er ekki síst vegna þeirra

atriða sem ég hef hér gert að umtalsefni. Þess vegna teljum við flm. einsýnt að það beri nú að breyta lögunum í þá veru sem hér er gert ráð fyrir, hnekkja þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar og koma í veg fyrir að sambærilegar ákvarðanir verði teknar í framtíðinni.
    Ég hafði hugsað mér að beina hér nokkrum orðum til hæstv. félmrh. í tilefni af þessu máli en mun láta það bíða betri tíma þar sem ráðherrann er ekki hér. Ég vil bara vekja athygli á því í lokin að ráðherrann hefur gjarnan stært sig af miklu og öflugu kynningarstarfi í sambandi við húsnæðismálin í hennar stjórnartíð og mætti þess vegna vænta þess að málgagn hennar, Alþýðublaðið, væri betur að sér um þessi efni heldur en almennt gerist. En því er nú ekki að heilsa, virðulegi forseti, eins og kemur fram í Alþýðublaðinu 23. des. sl. þar sem rakið er í dálknum ,,Þingmál vikunnar`` hvaða mál hafa verið lögð fram á Alþingi þá vikuna, en þar segir að í þessu frv., um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, sé lagt til að vextir af lánum Byggingarsjóðs ríkisins verði breytilegir. Þingfréttaritari Alþýðublaðsins og málgagns félmrh. virðist ekki vera betur að sér um þetta mál en svo að gera sér ekki grein fyrir því að í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins frá 1986 hefur staðið að vextir skuli vera breytilegir. Það er ekkert í þessu frv. sem breytir því. Hins vegar er rétt að fyrsta setning laganna, 48. gr. laganna sem hér eru til meðferðar, 1. gr. frv., hljóðar svo, en það er óbreytt frá því sem er í gildandi lögum og viðbótin er þriðji málsliðurinn: ,,Öll lán innan sama lánaflokks skuli bera sömu vexti óháð lántökudegi.``
    Ég vek nú athygli á þessu, virðulegi forseti, meira kannski í gamni, til þess að sýna fram á að kynningarstarfi félmrh. í sambandi við húsnæðismál ætti kannski ekki síst að beina til blaðamanna Alþýðublaðsins, en það kom í ljós á síðasta þingi að þegar frv. um húsbréf var hér til meðferðar hafði leiðarahöfundur hjá því blaði gersamlega misskilið allt það mál og þau ákvæði sem Alþingi leyfði sér að breyta að ráðherranum forspurðum. Skal ég ekki rifja það upp frekar en vitna til þess sem ég sagði um það mál á síðasta vori.
    Ég skal ekki lengja þetta að sinni, virðulegi forseti, en hefði hug á að eiga orðastað við ráðherrann um þetta mál þegar hún sér sér fært að vera hér. Ég hef nú reyndar frestað þessu máli hvað eftir annað til þess að hægt væri að koma því við að ráðherra væri viðstaddur umræðuna, en eitthvað hefur það nú farið úrskeiðis í dag og skal ég ekki hafa fleiri orð um það.
    Ég legg að endingu til að máli þessu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. félmn.