Breytingar á XXII. kafla hegningarlaga
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Á þskj. 560 hefur hv. 6. þm. Reykv. beint fsp. til mín um það hvort ég hyggist láta fara fram endurskoðun á XXII. kafla hegningarlaganna, sem fjallar um kynferðisbrot, í samræmi við athugasemdir og tillögur sem fram komu við umfjöllun um frv. um sama efni á 111. löggjafarþingi 1988--1989 og hvenær ég hyggist leggja fram frv. til laga um breytingar á þessum kafla hegningarlaganna. Þarna er í raun vísað til þess frv. sem hv. fyrirspyrjandi gerði að umtalsefni hér er hann lagði fsp. fram.
    Í ríkisstjórn hefur verið samþykkt að leggja einmitt þetta frv. fram, sem lagt var fram á síðasta Alþingi, um breytingu á XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að nýju, óbreytt. Ástæða þess að frv. verður endurflutt óbreytt er sú að ágreiningur er um brtt. sem allshn. Ed. barst á sl. ári, þær sem hv. fyrirspyrjandi gerði að umtalsefni hér áðan. Því tel ég rétt að Alþingi ákveði hvort og þá hvaða breytingar það telji nauðsynlegt að gera á frv. áður en það verður endanlega samþykkt.