Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég tek nú fyrir síðustu fsp. í þessari lotu sem varðar þetta sama mál og beini henni til hæstv. dómsmrh. Hún fjallar um skipulega málsleið fyrir brotaþola í nauðgunarmálum og fræðslu lögreglumanna.
    Í athugun nauðgunarmálanefndarinnar kom fram að konurnar væru ekki síst miður sín yfir því að vita ekki hvernig þær eigi að bregðast við eða hvert þær geti snúið sér til þess að fá upplýsingar, aðstoð eða leiðbeiningar um úrræði. Þetta kom fram í viðtalskönnun og var ljóst af öðrum rannsóknum og könnunum á málinu að kerfið er í raun og veru mjög tregt til upplýsinga gagnvart þeim konum eða einstaklingum sem lenda í kynferðisbrotum. Þess vegna þótti mjög brýnt að koma á skipulegri málsleið þar sem það lægi skýrt fyrir hvert væri fyrsta skrefið og hvert væri síðasta skrefið í málinu, allt frá því að nauðgun hefði átt sér stað og þar til málinu lyki af hálfu réttarkerfisins. Einnig að sjá til þess að vel skipulögð og greið aðstoð væri fyrir hendi á hverju stigi málsins og að fram fari rækileg kynning á málsleiðinni og hvert brotaþola beri fyrst að snúa sér. En slíkt er að sjálfsögðu forsenda fyrir því að aðstoð nýtist.
    Ég hafði hér orð um það í upphafi máls míns fyrir öllum þessum fsp. að nefndin hefði lagt ríka áherslu á mikilvægi þess að allir starfsmenn sem kæmu að því að liðsinna brotaþola og annast þyrftu á rækilegri kennslu og menntun að halda til þess að vera starfi sínu vaxnir. Þess vegna hef ég einnig spurt hæstv. dómsmrh. að því hvort haldin hafi verið sérstök námskeið fyrir lögreglumenn til að fræða þá um kynferðisafbrot og áhrif þeirra á brotaþola og hvort slík fræðsla hafi verið eða verði felld inn í grunnnám lögreglumanna eða tekin upp sem hluti af reglubundinni endurmenntun þeirra.