Öryggi í óbyggðaferðum
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Flm. (Kristín Einarsdóttir):
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 571, um öryggi í óbyggðaferðum.
    Flm. ásamt mér eru hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, Jón Helgason, Kolbrún Jónsdóttir, Stefán Valgeirsson, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Karvel Pálmason og Friðjón Þórðarson.
    Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera ráðstafanir til að bæta öryggi þeirra sem ferðast í óbyggðum með því að samræma og setja reglur og lög eftir því sem við á og með því að skipuleggja fræðslu, ráðgjöf og upplýsingar til ferðafólks.
    Við undirbúning málsins verði haft samráð við samtök áhugafólks um ferðalög og slysavarnir.``
    Fjöldi sjálfboðaliða vinnur mikið og óeigingjarnt starf að björgunarmálum í björgunarsveitum og slysavarnafélögum um land allt. Reynslu þessara aðila og annarra af hálendis- og jöklaferðum þarf að nýta þegar lögð eru á ráð til að bæta öryggi í óbyggðaferðum. Þessir aðilar hafa oftsinnis bent á nauðsyn þess að efla öryggi í ferðalögum á hálendi Íslands.
    Margar hugmyndir og tillögur hafa komið fram frá björgunarsveitafólki um það hvernig auka megi öryggi ferðafólks á öræfum, bæði í blaðagreinum og í beinni tillögugerð m.a. í samráði við Ferðamálaráð Íslands. Samvinna þeirra aðila sem vinna að þessum málum hefur aukist upp á síðkastið þó enn megi bæta þar um og mætti hlutur opinberra aðila vera meiri til stuðnings og til samræmingar. Á
undanförnum árum hefur það oft komið fyrir að erlendir ferðamenn lendi í ógöngum í óbyggðum. Nýlegt dæmi og umtalað er þegar breskur ferðamaður varð úti í Öræfasveit í janúar sl. í veðri sem algengt er hérlendis á þessum árstíma. Slík dæmi eru mörg sem leitt hafa til manntjóns, slysa og kostnaðarsamrar leitar, oft vegna ófullnægjandi útbúnaðar og kunnáttuleysis. Þannig gerist það flest haust að leita þarf að rjúpnaskyttum sem týnt hafa áttum og villst. Fjöldi fólks leggur á sig mikla fyrirhöfn við leit og af því hlýst ómældur kostnaður auk þess sem leitarmenn stofna sjálfum sér í hættu. Útlendingar eru e.t.v. í enn meiri hættu en Íslendingar þar sem þeir þekkja lítið sem ekkert til aðstæðna hér á landi og þeirrar óblíðu náttúru sem við búum við.
    Í dagblaðinu Tímanum föstudaginn 19. jan. er sagt frá þeirri leit sem gerð var að breska ferðamanninum sem ég minntist á hér áðan. Og þar er haft eftir fólkinu sem hann talaði við áður en hann fór í þennan leiðangur, með leyfi forseta: ,,Við reyndum með öllum brögðum að telja honum hughvarf en honum varð ekki þokað. Við höfðum samband við lögreglu en þeir tjáðu okkur að ekki væri hægt að hefta för mannsins. Við spurðum hann hvers vel hann væri nestaður og hann tjáði okkur að hann ætlaði að lifa á berjum.`` Og svo aðeins síðar í þessari sömu blaðagrein stendur: ,,Það var með naumindum að húsmóðurinni á Hofi tókst að neyða brauðpoka upp á manninn um það leyti

sem hann var að hverfa út úr dyrunum. Hvort það var eina nestið sem hann hafði meðferðis er ekki vitað. Útbúnaðurinn var ekki upp á marga fiska. Að vísu var hann með bakpoka og ég veit að hann var með ísöxi og brodda. Klossarnir sem hann var í virtust ekki vatnsheldir. Þá var hann ekki með tjald en sagðist grafa sig í fönn. Við spurðum hann eftir varmapoka eða slíku og reyndist hann hafa einhvern slíkan poka.`` Það er alveg greinilegt að maðurinn hefur ekki gert sér grein fyrir hvernig veður geta orðið hér á landi á þessum árstíma. Það er því í allra þágu að bæta öryggi ferðamanna sem leggja leið sína í óbyggðir. Þar eru fyrirbyggjandi aðgerðir af ýmsu tagi ódýrasta og besta ráðið.
    Flm. till. mæla hins vegar ekki með ferðabanni eða því að loka svæðum fyrir ferðafólki nema í undantekningartilvikum. Ég tel mjög mikilvægt að hafa í huga að það er engin lausn að banna fólki að fara í slíkar ferðir sem hugsanlega geta haft einhverja hættu í för með sér. Íslendingar vilja sjálfir geta ferðast um land sitt og leitast er við að laða hingað erlenda ferðamenn, ekki síst með því að auglýsa íslenska náttúru og óbyggðir. Það leggur okkur skyldur á herðar. Þáttur í að gera óbyggðaferðir aðlaðandi fyrir innlenda sem erlenda er að bærilega sé séð fyrir öryggismálum og að ferðamenn verði sjálfir þátttakendur í að bæta þar úr og gera sér grein fyrir því sem borið getur að höndum. Frá því vorið 1985 hefur verið starfrækt tilkynningarþjónusta fyrir ferðamenn. Að henni standa Landssamband hjálparsveita skáta, Landssamband björgunarsveita og fyrirtækið Securitas. Þjónustan er þannig að fólk sem ætlar í óbyggðaferðir getur hringt og greint frá ferðaáætlun sinni. Komi það ekki fram á tilgreindum tíma er eftirgrennslan eða leit hafin. Í greinargerð sem Friðrik B. Friðriksson hjá Landssambandi hjálparsveita skáta hefur skrifað, þar sem hann lýsir þessari tilkynningarþjónustu sem þeir standa fyrir, stendur, með leyfi forseta:
    ,,Oft kemur fyrir að ferðamenn óska eftir ráðleggingum vegna ferða sinna og er þeim þá vísað á skrifstofu Landssambands hjálparsveita skáta. Leitast
starfsfólk sambandsins við að greiða götu fólksins eftir bestu getu. Stundum líst okkur ekki á fyrirætlanir fólks og reynum við þá að hafa áhrif á ferðaáætlanirnar. Komið hefur fyrir að við höfum hótað erlendum ferðamönnum að hafa samband við útlendingaeftirlitið vegna ferða sem við höfum talið vera glapræði, en það er sjaldgæft. Yfirleitt er ferðafólk sem hefur samband við okkur vel útbúið en stundum vantar mikið á að svo sé. Sennilega fáum við til okkar frekar fólk sem er varkárt en að okkar dómi mættu mun fleiri nýta þessa ókeypis þjónustu. Þess má svo geta að við teljum nær öruggt að tilkynningarþjónustan hafi bjargað mannslífum.`` Þetta segja þeir hjá Landssambandi hjálparsveita skáta.
    Byggja mætti m.a. á þeirri reynslu sem fengist hefur af þessari þjónustu. Í mörgum löndum er þess krafist að fólk sem ferðast um svæði þar sem hættur

eru miklar kaupi sér vátryggingu fyrir leitarkostnaði. Sums staðar er vátryggingarupphæðin svo há að það er varla á færi hins almenna borgara að kaupa slíka tryggingu. Ég get nefnt sem dæmi að á Grænlandi er þeim sem vilja fara upp á jökul bannað að fara þangað nema þeir hafi keypt sér vátryggingu og hún er svo dýr að það er nánast ógerlegt fyrir venjulegt fólk að kaupa hana og er þá raunar bara fyrir einhverja ríka menn að fara í ferðir þar upp á jökul. Við viljum ekki koma upp neinu slíku hér, við verðum að reyna að gæta okkar á því að ferðir upp á hálendið verði ekki einhverjar lúxusferðir. Það er hins vegar eðlilegt að kanna hvort slíkt kæmi til greina hér á landi í einhverjum tilvikum þegar um sérstaka ævintýramennsku er að ræða. Einnig heyrast þau sjónarmið að erlendir ferðamenn sem ætla í áhættusamar ferðir hér á landi verði skyldaðir til að kaupa leitar- og björgunartryggingu. En efnahagur fólks má alls ekki vera ráðandi um það hverjir geta ferðast um óbyggðir sér til yndisauka.
    Með flutningi till. er ekki ætlunin að benda á tilteknar lausnir heldur að Alþingi láti málið til sín taka og hlutist til um aðgerðir. Við mótun þeirra þarf margt að athuga og er aðeins vikið að nokkrum þáttum í tillgr. Áhersla er lögð á fræðslu, ráðgjöf og upplýsingar til ferðafólks, en einnig að sett verði og samræmd lög og reglur sem stuðlað geti að bættu öryggi án þess að ganga um of nærri frjálsri og óheftri umferð um landið. Hafa ber í huga að ferðum fylgir ætíð nokkur áhætta en óþarfi er að ýkja hana eða bregðast við henni með boðum og bönnum. Flm. hafa m.a. í huga eftirfarandi atriði sem athuga ber þegar fjallað er um öryggi í óbyggðaferðum:
    Fræðslu fyrir ferðamenn innlenda sem erlenda um helstu hættur sem orðið geta á vegi þeirra við breytilegar aðstæður á ólíkum árstímum og hvernig bregðast megi við. Slíkar leiðbeiningar er m.a. hægt að færa inn á kort og í bæklinga sem ætlaðir eru ferðamönnum.
    Starfrækslu tilkynningarþjónustu í núverandi eða breyttu formi og tilkynningarskyldu sem gæti náð til ákveðinna fáfarinna eða erfiðra ferðasvæða. Dæmi um slíkt geta verið jöklaferðir, klifur í fjöllum og jöklum og gönguferðir um fáfarin svæði svo eitthvað sé nefnt. Sameina mætti tilkynningarþjónustu og ráðgjöf um leiðaval og útbúnað, svo og aðrar leiðbeiningar.
    Athuga þarf hvort tryggingafélög taka að sér að veita þeim tryggingu sem ferðast utan alfaraleiða án óhóflegs kostnaðar. Tengja mætti slíkar tryggingar við leitar- og björgunarþjónustu og jafnvel gera þær að skilyrði fyrir leit við tilteknar aðstæður.
    Setja þarf skýrari reglur en nú gilda um akstur í óbyggðum, merkja akstursleiðir og koma upp viðvörunarskiltum á hættulegum stöðum, m.a. við ótrygg vöð á ám.
    Heimildir þurfa að vera til að banna ferðalög inn á tiltekin svæði við sérstakar og afbrigðilegar aðstæður, t.d. vegna snjóflóðahættu eða vegna yfirvofandi óveðurs.
    Aukið eftirlit af hálfu löggæslu í óbyggðum getur

jafnframt stuðlað að bættu öryggi svo og samvinnu björgunaraðila og löggæslu.
    Margar af þeim hugmyndum sem fram hafa komið til að bæta öryggi í óbyggðum krefjast ekki breytinga á lögum heldur betri skipulagningar og samræmingar og að settar verði reglur á grundvelli núgildandi laga. Af lögum og lagaákvæðum sem tengjast þessu máli má benda á eftirfarandi:
    Lög um almannavarnir, nr. 94/1962. Hlutverk almannavarna er m.a. að skipuleggja og framkvæma aðgerðir sem miða að því að koma í veg fyrir, eftir því sem unnt er, að almenningur verði fyrir líkamstjóni af völdum náttúruhamfara eða annarri vá. Lögin fjalla um aðgerðir sem snerta almenning vegna hættu sem steðjar að stórum fjölda frekar en aðgerðir sem snerta einstaklinga sem hafa komið sér í klípu af eigin rammleik.
    Einnig má benda á lög um lögreglusamþykktir, nr. 36/1988. Í a-lið 3. gr. segir m.a.: ,,... allt sem lýtur að því að draga úr hættu og óþægindum, greiða fyrir umferð og tryggja öryggi fólks ...`` Þarna er verið að tala um skyldur ráðherra til að setja reglugerð um lögreglusamþykktir. Fljótt á litið sýnist að tilgangur lögreglusamþykkta sé ekki að vernda einstaklinginn fyrir eigin
gerðum. Frekar er verið að banna hegðun sem raskar friði annarra borgara. Hugsanlegt er þó að bæta við greinum með nýjum ákvæðum sem skylda dómsmrh. til að setja reglugerð um lögreglusamþykkt á hálendinu er kæmi þá í stað lögreglusamþykkta einstakra sveitarfélaga.
    Í þriðja lagi eru lög um eftirlit með útlendingum, nr. 45/1965. Ef einungis á að auka skyldur erlendra ferðamanna sem hyggjast fara inn á hálendið virðist rétt að setja ákvæði um slíkt í lög um útlendingaeftirlit. Hvað varðar tilkynningarskyldu þá er í lögunum heimild fyrir dómsmrh. að setja sérstakar reglur um tilkynningarskyldu útlendinga ef þeir dveljast hér á landi. Það er hugsanlegt að þetta ákvæði eitt sér sé nægjanleg lagaheimild til að kveða á um skyldu útlendinga til að tilkynna fyrirhugaðar fjallaferðir og skyldu til að tilkynna sig meðan á ferð stendur. En að sjálfsögðu gildir þetta ekki um Íslendinga.
    Jafnframt því að athuga hvort gildandi lög og lagaákvæði séu fullnægjandi er rétt að kanna þörf á nýjum lögum og lagaákvæðum. Ég tel æskilegt að hraða þeim aðgerðum sem tillagan gerir ráð fyrir og hafa sem besta samvinnu við þá mörgu aðila sem málið varðar. Hef ég þá fyrst og fremst í huga þá aðila sem hafa staðið að björgunarmálum á undanförnum árum en fleiri þurfa þar að sjálfsögðu að koma til.
    Að lokinni umræðu um tillöguna legg ég til að henni verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.