Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 20. febrúar 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Í desember sl. urðu umræður á Alþingi um vaxtaákvörðun ríkisstjórnarinnar á húsnæðislánum sem tekin var 5. des. Sú umræða var að frumkvæði hv. 1. þm. Reykv. Friðriks Sophussonar. Sú umræða sem hér hefur farið fram um það frv. sem hér er til umræðu, bæði í dag og í fyrri viku sem ég hef haft tök á að kynna mér, sýnist mér ekki færa fram neitt nýtt í þessu máli umfram það sem rætt var hér á Alþingi í desember sl. Mér heyrist að hv. 17. þm. Reykv. Geir H. Haarde flytji sömu efnisatriði og rök í þessu máli og hv. þm. Friðrik Sophusson gerði. En í umræðunum í desember sl. svaraði ég hv. þm. Friðrik Sophussyni lið fyrir lið þeirri gagnrýni sem hann setti fram í þessu máli.
    Það sem nú kemur fram í máli hv. síðasta ræðumanns, og fram kom einnig í desember, er að ekki sé gætt eðlilegrar jafnræðisreglu íslensks stjórnarfars, að ákvörðun ríkisstjórnarinnar standist ekki lög og það beri að hnekkja henni. Ég dró fram í umræðunni í desember lögfræðilálit þar sem ég hafði lagt mig sérstaklega eftir að kanna það hvort hér væri ekki farið að í fyllsta samræmi við lög. Það álit las ég hér fyrir hv. þingdeild. Það var ekki einn lögfræðingur sem kom að þessu máli heldur fleiri. Álit þeirra um það hvort þessi ákvörðun ríkistjórnarinnar frá 5. des. stæðist ekki lög varð á eina lund og í þá veru að þessi ákvörðun stæðist fyllilega lög og þá jafnræðisreglu sem hér hefur verið nefnd.
    Ég vitna til einnar setningar í lögfræðilegu áliti sem þá lá fyrir en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Það eitt sér að breyta reglum um vexti af lánum Byggingarsjóðs ríkisins miðað við ákveðið tímamark má því segja að sé eðlilegt og brjóti engan veginn í bága við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar.``
    Ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu, herra forseti, til að endurtaka það sem fram fór í desember. Ég vil þó leyfa mér að rifja upp að í þeirri umræðu dró ég fram að þegar Framsfl. og Sjálfstfl. voru í ríkisstjórn á árinu 1984 stóðu þeir með alveg sama hætti að vaxtaákvörðun í húsnæðislánakerfinu eins og nú er gert. Þá lá einnig fyrir lögfræðiálit frá lögfræðingi Húsnæðisstofnunar ríkisins þar sem fram kom að heimilt væri að hækka vexti á þegar tekin lán frá árunum 1980--1984. Engu að síður stóðu sjálfstæðismenn og framsóknarmenn að þessari ákvörðun með nákvæmlega sama hætti og nú er gert. Þar var verið að hækka vexti á lánum Byggingarsjóðs ríkisins, ekki um 1% eins og nú er gert, heldur um 1,25% og hún virkaði ekki á þegar tekin lán fremur en nú. ( FrS: Það eru allt önnur lög.) Ég er að draga fram, virðulegi þm., að þá lá fyrir álit um það hvort heimilt væri að hækka vexti á þegar tekin lán. Það álit var að það væri ótvírætt heimilt.
    Sú ákvörðun sem var tekin í desember átti engum að koma á óvart. Sú ákvörðun að vextir mundu ekki hækka á þegar tekin lán átti heldur ekki að koma neinum á óvart. Af hverju segi ég þetta? Vegna þess

að það lá fyrir í umræðum um vaxtabætur sl. vor að þegar vaxtahækkun kæmi til framkvæmda samfara upptöku húsbréfakerfisins yrðu vextir ekki hækkaðir á þegar tekin lán. Þetta kom fram í ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Þetta kom fram í meirihlutaáliti fjh.- og viðskn. og þetta kom einnig fram í samkomulagi því sem ríkisstjórnin hafði gert við Kvennalistann. Enginn mótmælti því á þessum tíma að ákvörðuninni, þegar hún yrði tekin með upptöku húsbréfakerfisins, yrði hagað með þeim hætti. Ég man ekki eftir að hafa heyrt Sjálfstfl. andmæla því og ekki stjórnarflokkana. Þvert á móti var lögð áhersla á það af stjórnarliðum sem tjáðu sig um þetta mál að þegar vextir yrðu hækkaðir með upptöku húsbréfakerfisins yrðu þeir ekki hækkaðir á þegar tekin lán. Þetta lá alveg skýrt fyrir.
    Það sem er kannski nýtt í þessari umræðu er að hér er komin fram krafa í formi frv. til laga flutt af fjórum hv. þm., þar á meðal einum stjórnarliða, um að hækka vexti á þegar tekin lán. Annað verður ekki séð af því frv. sem hér liggur fyrir og það er auðvitað athyglisvert út af fyrir sig.
    Því hefur verið haldið fram að hægt væri að ná sömu upphæð með því að hækka vexti á þegar tekin lán frá 1984 um til að mynda 0,4%, það mundi skila svipuðu inn í Byggingarsjóð ríkisins og 1% vaxtahækkun frá 5. des. sl. Þetta er ekki rétt vegna þess að útreikningar sýna að vaxtahækkun sem einungis miðar við 5. des. og þau lán sem eru tekin eftir það gefur meira en vaxtahækkun upp á 0,4% frá til að mynda 1984.
    Á árinu 1992 mundi 0,4% á lán frá 1984 gefa 222 millj. en vaxtahækkun upp á 1% frá 5. des. sem virkar ekki á þegar tekin lán mundi gefa 267 millj. Á árinu 1993 mundi 0,4% hækkun frá 1984 gefa 252 millj. meðan 1% vaxtahækkun frá 5. des. gefur 343 millj. Og ef við tökum 1994 sem dæmi, þá gæfi 0,4% frá 1984 282 millj. meðan 1% vaxtahækkun frá 5. des. gefur 419 millj. Samtals á fimm ára tímabili mundi vaxtahækkun upp á 0,4% gefa um 1100 millj. meðan 1% vaxtahækkun frá 5. des. mundi gefa 1337 millj.
    Ég tel út af fyrir sig ekki ástæðu til að hafa mikið lengra mál um það frv.
sem hér liggur fyrir. Ég vil þó koma með nokkrum orðum inn á það sem hv. síðasti ræðumaður nefndi nú síðast í sínu máli sem er fjárhagsstaða Byggingarsjóðs ríkisins. Ég tek alveg undir það og deili áhyggjum hv. þm. um það að fjárhagsstaða Byggingarsjóðs ríkisins er ekki góð. Það vita auðvitað allir sem hafa skoðað þetta mál að miðað við þau lög sem eru í gildi og þá sjálfvirkni sem er raunverulega í okkar útlánakerfi með lögunum frá 1986 kallar þetta á gífurlega mikið ríkisframlag. Vaxtamismunurinn hefur líka verið mjög mikill í þessu kerfi. Það hefur verið tilhneiging, ekki bara í þessari ríkisstjórn heldur líka ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar, svo að ég nefni hana sem dæmi þar sem ég sat líka sem félmrh., til að ganga á þessi ríkisframlög sem ætluð eru í Byggingarsjóð ríkisins. Og vænti ég að hv. þm., t.d. Friðrik Sophusson og

Þorsteinn Pálsson, sem voru í þeirri ríkisstjórn muni að það var alltaf tilhneiging til að draga úr ríkisframlögum í Byggingarsjóð ríkisins. ( ÞP: Hver gerði þá tillögu?) Gerði þá tillögu í ríkisstjórn að draga úr framlögum í Byggingarsjóð ríkisins? ( Gripið fram í: Hver var fjmrh.?) Ég er að nefna hver var forsrh. og menn sem eru að gagnrýna það nú að gengið sé á ríkisframlagið, það er stutt síðan þeir studdu dyggilega að slíkt yrði gert í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar.
    Ég hef marglýst yfir, og lýsti því yfir í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar og ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, að það gengi ekki að ganga svona á ríkisframlagið. Og það er alveg ljóst, eins og ég hef sagt, að fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs ríkisins er stefnt í hættu með þessu. ( ÞP: Hvað ætlarðu nú að gera?) Það er nefnd núna sú ákvörðun að lækka ríkisframlagið enn um 100 millj. Ég viðurkenni að það er mjög erfið ákvörðun að taka. En við höfum gengið hér í gegnum kjarasamninga, tímamótakjarasamninga og það byggir á því að þessir kjarasamningar og forsendur þeirra haldi, að allir leggi sitt af mörkum til þess að svo megi verða. Ég ætla mér ekkert að ganga þar undan merkjum og leggja ekki mitt fram til að svo geti orðið. Það er ekki margt að sækja í félmrn. í því efni. Ég er ekki viss um að menn hefðu viljað ganga á framlög Byggingarsjóðs verkamanna eða framlög í málefnum fatlaðra. Ef svo er að menn hefðu viljað það frekar en að velja Byggingarsjóð ríkisins, þá væri ágætt að þær raddir kæmu fram hér í þingsölunum nú. En það er ekkert ráðuneyti sem getur skorast undan því að taka þátt í óhjákvæmilegum niðurskurði til að forsendur þessara kjarasamninga haldi. Vissulega var þetta erfið ákvörðun fyrir mig að fallast á, að ríkisframlagið í Byggingarsjóð ríkisins yrði skert. En ég hef margtekið þetta mál upp í ríkisstjórninni og ríkisstjórnin hefur samþykkt að gerð verði úttekt á fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs ríkisins með það að markmiði að leiða í ljós áætlaða meðalvexti á eignum og skuldum sjóðsins og rekstrarafkomu næstu árin. Og á grundvelli þeirrar úttektar verða gerðar tillögur um leiðir til að koma jafnvægi á fjárhag sjóðsins. Þessar tillögur verða lagðar fyrir ríkisstjórnina til ákvörðunar eigi síðar en 1. júní nk. Þar þurfa menn að taka ákvarðanir um það hvað þurfi að gera til að koma jafnvægi á fjárhag sjóðsins. Það gerist annaðhvort með auknu ríkisframlagi eða breytingu á vöxtum eða með því að draga úr útlánum. Ég sé ekki aðrar leiðir í því efni.
    Það er alveg rétt hjá hv. þm. að með þessu áframhaldi, að skerða svo framlög í Byggingarsjóð ríkisins, gengur verulega á eiginfjárstöðu sjóðsins. Og þetta er ekkert nýtt sem verið er að upplýsa á þessari stundu. Ég hef marghaldið því fram opinberlega að það þyrfti að grípa til aðgerða til þess að styrkja fjárhag Byggingarsjóðs rikisins þannig að það eru engin ný sannindi sem nú eru að koma fram um þessi mál.
    Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta frv. frekar en tel óhjákvæmilegt, virðulegi forseti, að koma inn á

atriði sem fram kom í umræðunni í síðustu viku hjá hv. þm. Alexander Stefánssyni, sem mér þykir nú miður að er ekki viðstaddur þessa umræðu. Að vísu vék hv. þm. að óskyldu efni, ekki því efni sem þetta frv. varðar, en notaði tækifærið við þá umræðu til að fjalla um annað málefni, starfsmannamál Húsnæðisstofnunar ríkisins, þar sem fram komu að mínu viti miklar rangfærslur sem nauðsynlegt er að leiðrétta. Þar ræðst hv. þm. með miklu offorsi á starfsmannahald Húsnæðisstofnunar ríkisins sem endurspeglar að mínu mati þekkingarleysi hv. þm. á störfum Húsnæðisstofnunar og skilningsleysi á miklu vinnuálagi starfsfólks stofnunarinnar. Hér er beinlínis, virðulegi forseti, mjög gróflega og ranglega farið með staðreyndir í þessu máli sem nauðsynlegt er að leiðrétta svo hið sanna komi fram. Það sem gerir þetta mál kannski alvarlegra er að þessi þingmaður á sæti í ráðninganefnd ríkisins og getur því haft aðstöðu til að hafa áhrif á niðurstöðu málsins. Ég vil lesa stuttan kafla úr ræðu hv. þm., en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Og ég ætla aðeins að skjóta því hér inn, sem sýnir í hvaða stöðu þessi mál eru núna í Húsnæðisstofnun, að það er komin fram beiðni frá Húsnæðisstofnuninni um það að fá heimild til að fjölga starfsmönnum í stofnuninni, fastráðnum starfsmönnum fyrir utan þessa lausráðnu, upp í 61 fastráðinn starfsmenn úr 39 sem núna eru starfandi. Og þetta er rökstutt með því að nú séu komin svo mikil ný verkefni, svo sem eins og ráðgjafardeild og
húsbréfadeild og hvað eina, að það þurfi að fjölga fólki. Ég tel að það sé fullkomin ástæða til að stöðva þessa þróun meðan verið er að leita að raunveruleikanum í þessum málum.`` Og síðan segir hv. þm.: ,,Þegar ráðgjafarstofnun Húsnæðisstofnunar var sett á fót 1984--1985 af þáverandi ríkisstjórn var ákveðið að færa til starfsfólk innan stofnunarinnar til að sinna þessu hlutverki og það var gert án þess að fjölga nokkuð fólki. Það var tekið úr tæknideildinni og fært yfir í ráðgjafardeild og fært milli deilda þannig að það jafnaðist út og þannig hefur þessu hlutverki verið sinnt til þessa dags.`` Síðan segir hv. þm.: ,,Nú kemur skriðan og samkvæmt þessu þætti mér ekki ótrúlegt, ef að þessu verður gengið sem ég vona að verði ekki, að fjöldi starfsmanna í Húsnæðisstofnun yrði brátt orðinn einhvers staðar um 80--90 manns án þess að árangur eða aukin þjónusta komi í ljós í sambandi við reksturinn í heild.``
    Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að hér er hv. þm. að láta að því liggja að fjölgun starfsfólks í Húsnæðisstofnun ríkisins hafi öll orðið í tíð minni sem félmrh., sem vissulega er alrangt. Það hefur ekki verið heimiluð fastráðning starfsfólks í Húsnæðisstofnun ríkisins síðan 1983 þrátt fyrir mjög aukin verkefni hjá þessari stofnun, bæði með upptöku kerfisins sem var tekið upp 1986, með kaupleigukerfinu og fleira. --- Ég fagna því að hv. þm. gengur í salinn og hlýðir á þessa umræðu vegna þess að ég taldi nauðsynlegt að taka upp ákveðinn kafla úr ræðu hv. þm. frá síðustu viku sem fjallar um starfsmannahald í Húsnæðisstofnun ríkisins.

    Staðreyndin er nefnilega sú að sú fjölgun sem átt hefur sér stað í Húsnæðisstofnun ríkisins frá 1983 og til dagsins í dag verður raunverulega mest á tímabilinu 1983--1987. Fastráðnir voru 39 manns 1983 en á árinu 1987 eru 55 fastráðnir starfsmenn þar. Þar af var stór hluti, eða 17 starfsmenn sem höfðu verið lausráðnir. Frá þessu tímabili hefur aðeins fjölgað um einn starfsmann. Því er það mjög furðulegt að hv. þm. láti að því liggja að í tíð hans sem félmrh. hafi einungis verið hagrætt og fært milli deilda en engin aukning á starfsfólki hafi átt sér stað. Ég tel að það sé mjög villandi sem hér kemur fram og nauðsynlegt að leiða fram hið sanna í þessu máli. Það er auðvitað ótækt að sitja undir því að hv. þm. lætur að því liggja að öll fjölgunin, öll skriðan eins og hv. þm. orðaði það, hafi orðið í minni tíð sem ráðherra og nauðsynlegt að það rétta komi fram í þessu efni.
    Hér er ekki öll sagan sögð, virðulegi forseti, því þessi hv. þm. telur að hans hlutverk í ráðninganefndinni sé að stöðva þessar fastráðningar eða eðlilega fjölgun á starfsfólki Húsnæðisstofnunar ríkisins í umboði þingsins, eins og hv. þm. sagði. Ég vil lesa þessa setningu, með leyfi forseta: ,,Að sjálfsögðu er þetta ekki tengt þessu máli en mér þótti ástæða til að nefna það hér því að á fundi sem ég sat í morgun í einni lögskipaðri nefnd kom þessi beiðni fram með miklum látum og kröfum um að það yrði afgreitt samstundis, sem ég að sjálfsögðu í umboði þingsins neitaði.`` Þ.e. að fastráða starfsfólk sem verið hefur lausráðið alveg frá 1983 og að verða við beiðni um eðlilega fjölgun í þessari stofnun í samræmi við þann vöxt sem orðið hefur á starfsemi stofnunarinnar.
    Ég get nefnt hér sem dæmi að svo er ástandið innan þessarar stofnunar, af því að hvorki fæst heimild til að fastráða þá sem lausráðnir eru né heimild fyrir eðlilegri fjölgun, að í húsbréfadeildinni sem hefur starfað núna í nokkra mánuði er einn starfsmaður, forstöðumaður þessarar deildar. Þessi forstöðumaður sér um alla afgreiðslu fyrir deildina, svarar í símann, er í móttöku þegar fólk kemur o.fl. Hann hefur ekki einu sinni ritara sér til aðstoðar eða nokkurn sem svarar í símann. Álagið á honum hefur verið það mikið að afgreiðslutími hefur sífellt verið að lengjast að því er varðar húsbréfakerfið því hann einn hefur ekki undan og ekki fæst heimild hjá ráðninganefndinni til að ráða starfsfólk. Og fyrir utan það, virðulegi forseti, er alveg ljóst að þarna er verið að hafa réttindi af starfsfólki ef ekki á að heimila fastráðningar hjá þeim sem nú eru lausráðnir.
    Í kjarasamningum ríkisins við BSRB og BHMR í apríl og maí 1989 var bókað að stefnt skuli að því að fastráða þá lausráðnu starfsmenn ríkisins sem höfðu tveggja ára samfleytt starf. Þetta hefur ekki verið framkvæmt þar sem ráðninganefndin hefur ekki enn staðfest þessa samninga að því er varðar Húsnæðisstofnun ríkisins. Og það er auðvitað alveg furðulegt ef hv. þm. telur það hlutverk sitt í ráðninganefnd að standa gegn því að fólk sem þar hefur verið lausráðið, og missir þar af leiðandi ýmis réttindi, fái ekki fastráðningu og að heimiluð verði

nauðsynleg fjölgun.
    Þetta taldi ég rétt, virðulegi forseti, að draga fram svo að hið sanna komi í ljós í þessu máli og vænti ég þess að hv. þm. sjái að sér og velji sér annað hlutverk í nefndinni en standa gegn eðlilegri ráðningu starfsfólks í Húsnæðisstofnun ríkisins. Mér finnst það lýsa miklu skilningsleysi hv. þm. á því mikla álagi sem er á þessari stofnun ef hv. þm. ætlar að standa gegn þessu með þeim hætti sem hann hefur gert og telur að hann sé að gera það í umboði þingsins.
    Að gefnu tilefni, virðulegi forseti, taldi ég nauðsynlegt að draga þetta inn í umræðuna þar sem hv. þm. taldi nauðsynlegt í umræðu um þetta frv. um Húsnæðisstofnun ríkisins að fara fram með þessi ósannindi sem hann gerði í sl. viku. En ég sé ekki ástæðu til að ræða frekar um það frv. sem hér er til umræðu og læt máli mínu lokið.