Vegalög
Miðvikudaginn 21. febrúar 1990


     Flm. (Guðmundur G. Þórarinsson):
    Virðulegi forseti. Ég flyt hér ásamt hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni og Guðna Ágústssyni frv. til laga um breytingu á vegalögum á þskj. 580. Frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,1. gr.: 40. gr. laganna, sbr. 72. gr. laga nr. 87/1989, orðist svo:
    Vegagerð ríkisins skal aðstoða nýbýlastjórn við lagningu nýbýlavega, enda sé kostnaður greiddur af sérstakri fjárveitingu í fjárlögum, samkvæmt vegáætlun eða á annan hátt.
    Vegagerð ríkisins skal sjá um gerð og viðhald reiðvega samkvæmt sérstakri reiðvegaáætlun sem samgrh. lætur gera í samráði við samtök hestamanna og sveitarfélaga til fjögurra ára í senn. Kostnaður við gerð reiðvega skal greiddur af hóffjaðragjaldi skv. 2. gr. laga um fjáröflun til vegagerðar, nr. 3/1987, og sérstökum fjárveitingum á fjárlögum, samkvæmt vegáætlun eða á annan hátt.
    2. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Þetta frv. er flutt samhliða frv. um breytingu á lögum um fjáröflun til vegagerðar, þar sem aflað er fjár til reiðvegagerðar með sérstöku hóffjaðragjaldi, og þáltill. um gerð reiðvegaáætlunar, þ.e. þessi þrjú mál mynda eina samstæða heild:
    1. Að fela Vegagerð ríkisins, svo að skýrt sé, gerð og viðhald reiðvega, en hingað til hefur slík framkvæmd ekki verið á höndum neins sérstaks.
    2. Að afla fjár til reiðvegagerðar.
    3. Að fela samgrh. í þingsályktun að láta vinna sérstaka reiðvegaáætlun þar sem forgangsröð verkefna komi fram.
    Eins og allir vita sem hér eru inni nýtur hestamennska sívaxandi vinsælda. Umferð ríðandi manna er orðin mjög mikil, einkum í nágrenni við þéttbýli. Það gefur auga leið að sambýli umferðar ríðandi manna og aukinnar umferðar bifreiða getur orðið örðugt. Það er nauðsynlegt að taka tillit til hestamanna í umferðinni umfram það sem þegar hefur verið gert.
    Þess vegna er nauðsynlegt að taka þessi mál fyrir með skipulegum hætti. Í núgildandi vegalögum er einungis fjallað um reiðvegi í 46. gr. en þar segir:
    ,,Vegagerð ríkisins skal aðstoða nýbýlastjórn við lagningu nýbýlavega og samtök hestamanna við gerð reiðvega, enda sé kostnaður greiddur af sérstakri fjárveitingu á fjárlögum, samkvæmt vegáætlun eða á annan hátt.``
    Eins og fyrr segir: Með flutningi þessa frv. eru tekin af öll tvímæli um það að Vegagerð ríkisins skal annast gerð og viðhald reiðvega. Þar með er ákveðinn sá aðili sen hefur veg og vanda af framkvæmdinni.
    Það er rétt að hér komi fram að í maí 1982 var undirritað samkomulag milli Landssambands hestamannafélaga og Vegagerðar ríkisins um gerð reiðvega. Þessi mál hafa verið þannig að á fjárlögum hafa hverju sinni verið takmarkaðar fjárveitingar til gerðar reiðvega og Landssamband hestamanna hefur ákveðið skiptingu þessarar fjárveitingar milli

hestamannafélaga en umdæmisverkfræðingar Vegagerðarinnar fylgjast með því að áætlaðar framkvæmdir séu inntar af hendi og greiða féð út. Það eru einnig dæmi um það að Vegagerð ríkisins hefur annast framkvæmdir fyrir hestamannafélögin.
    Það mun vera mat manna að ágreiningur hafi fljótlega orðið um túlkun á því samkomulagi sem ég hef hér lýst og reyndar er birt sem fylgiskjal með þessu frv. Það er þess vegna alveg nauðsynlegt að koma þessum málum í fastara form. Ég ætla ekki að fara hér náið út í sjálft samkomulagið milli Landssambands hestamannafélaga og Vegagerðar ríkisins, en þeir sem gerst til þekkja vita að það samkomulag hefur valdið ágreiningi. Allra hluta vegna og vegna þróunar hestaíþróttarinnar er nauðsynlegt að koma þessum málum í ákveðinn farveg og Vegagerð ríkisins hefur til þess betri möguleika, tæki, reynslu og þekkingu að sjá um þessa vegagerð en aðrir þó að sveitarfélög geti vissulega komið þarna inn í og unnið ákveðna hluti. Gerð reiðvega er yfirleitt ekki kostnaðarsöm, en allir hlutir kosta nokkuð og hér er sem sagt gert ráð fyrir að unnið sé eftir sérstakri reiðvegaáætlun sem gerð er til fjögurra ára í senn og þar sé verkefnum forgangsraðað.
    Gert er ráð fyrir að þessi reiðvegaáætlun, sem vitnað er til í frv., sé unnin í náinni samvinnu við fjölmarga aðila í þjóðfélaginu sem að þessu máli koma, svo sem Landssamband hestamannafélaga, samtök sveitarfélaga, Vegagerð ríkisins, Náttúruverndarráð, Landgræðslu, Skógrækt ríkisins, Skipulagsstjórn og Ferðaþjónustu bænda, einstök sveitarfélög og landeigendur allt eftir því sem við á. Áætlunin á að miða að því að bæta aðstöðu hestamanna á þjóðvegum og haga þessari umferð þannig að öryggi gegn slysum verði sem mest. Hún miðar að því að viðurkenna umferð ríðandi manna sem hluta af samgöngum landsmanna, að friðlýstar verði fornar reiðleiðir og þeim haldið við. Við mat á umferð á hestum þarf að hafa sérstaklega hliðsjón af hesthúsahverfum, staðsetningu þeirra, skeiðvöllum, hrossabúum, hagagöngu, staðsetningu gisti- og ferðamannastaða, veitinga- og útivistarstaða. Þar kemur einnig fram að við gerð þessarar áætlunar er nauðsynlegt að hafa hlið á girðingum þar sem
alfaraleiðir og girðingar skerast en jafnframt að tryggja vernd svæða og leiða sem hafa gildi vegna náttúrufegurðar og skilyrða sem gera þau eftirsóknarverð sem reiðlönd. Og að sjálfsögðu má umferð ríðandi manna eigi spilla ræktuðu landi, túnum, görðum eða skógrækt eða valda öðrum spjöllum.
    Var það samkomulag, forseti, að ég mælti fyrir báðum frv. í einni ræðu og í einu máli, þau hanga alveg saman, eða vill forseti afgreiða þetta mál fyrst? ( Forseti: Já.)
    Ég ætla þá ekki að hafa fleiri orð um þetta mál. Frv. lýtur sem sagt í einföldum orðum og örfáum að því að fela Vegagerðinni þetta verkefni.
    Ég legg til, herra forseti, að að lokinni umræðu verði frv. vísað til hv. samgn.