Fjáröflun til vegagerðar
Miðvikudaginn 21. febrúar 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég hygg að það sé í þeirri góðu bók Faxa, eftir dr. Brodda Jóhannesson, þar sem hann vekur athygli á því hvílíkt draumaland Ísland hefur verið meðan hér voru ekki til neinar girðingar. Og ég tala nú ekki um neinir skurðir og menn höfðu þetta land frjást til ferðalaga t.d. að vetrarlagi eins og Skagafjörðinn sem þá hefur verið slíkt draumaland fyrir hestamenn að með ólíkindum má vera. Enda var harðasta andstaða gegn girðingarlögum í Skagafirði og þeir vöruðu við þeirri hættu sem fylgdi þegar búið væri að girða þvers og kruss og menn kæmu ríðandi heim frá Króknum, færu glannalega og væru fullir.
    En samt er það svo að þetta höfum við gert og við höfum spillt þessu landi. En á þessari öld núna í rólegheitunum er verið að taka þann mesta umferðarrétt af venjulegum þéttbýlisbúum sem hægt hefur verið að taka af þeim og það er ferðafrelsið um þetta land fyrir ríðandi mann. Það er gert með ýmsum aðferðum. Skipulagslögum og mörgu, mörgu öðru. Og í nágrenni við þéttbýli horfir til vaxandi vandræða hvernig þeir eiga að ferðast á hestum sem á því hafa áhuga, vegna þess að þannig er staðið að málum að veruleg slysahætta skapast í umferðinni eins og allir vita sem hafa kynnst umferðarmálum t.d. í kringum höfuðborgina á sunnudögum og laugardögum þegar fer að vora hér á þessu svæði.
    Ástandið í kringum þéttbýlisstaðina úti á landi er ekkert betra. Ég held þess vegna að hestamenn muni mjög fagna því að hér er kveðið skýrt á um skyldurnar og ekki undan því skorast að þeir sem eiga að njóta öðrum fremur taki þátt í að greiða þann kostnað. Ég hélt satt best að segja að þrátt fyrir þá staðreynd að Eysteinn Jónsson, sá mæti foringi framsóknarmanna, hafi vafalaust haft sterk áhrif í Alþingi Íslendinga á sinni tíð og mótað um margt viðhorf manna þá væru sjálfstæðismenn svo vel lesnir í þeirri fyrstu bók í hagfræði kapítalismans sem kennd er í skólum og heitir Litla gula hænan, að það færi ekkert á milli mála að þeir skildu að réttindi og skyldur ættu að fara saman. En eins og menn muna þá hafði Litla gula hænan það alveg á hreinu að þeir einir ættu rétt á að éta brauðið sem tækju þátt í þeim kostnaði sem því fylgdi að baka það. Og ég vissi ekki til að Sjálfstfl. hefði samþykkt neina stefnuyfirlýsingu gegn þessum grundvallarrökum.
    Hins vegar kemur mér ekki á óvart þegar stórmál eru flutt þó formaður flokksins standi hér upp til að lýsa stuðningi og fagna ég því að sjálfsögðu.