Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Miðvikudaginn 21. febrúar 1990


     Pálmi Jónsson:
    Herra forseti. Hv. félmn. hefur unnið hratt að þessu máli sem er þegar komið til 2. umr. þó 1. umr. hafi staðið hér í gær.
    Ég hafði við umræðu um skýrslu forsrh. um kjarasamningana fyrir fáum vikum gert þá athugasemd að ef það atriði samkomulagsins sem lýtur að búvöruverði stæði kynni það að þýða frystingu á verði til sauðfjárbænda út verðlagsárið 1990--1991, vegna þess að grundvallarverð er ákveðið í september og lög gera ekki ráð fyrir hækkun á verði til bænda vegna sauðfjárafurða eftir að það hefur verið ákveðið. Þess vegna væri athugavert hvernig þetta yrði framkvæmt. Ég hef spurst nokkuð fyrir um þetta og fengið þær upplýsingar m.a. að inni í þetta reiknist ekki sú frestun sem varð á launalið verðlagsgrundvallarins við verðákvörðun í haust sem mun vera á þessu verðlagsári um 115 millj. kr. eða sem svarar 3% af verði. Þetta fé er greitt af niðurgreiðslulið utan hins eiginlega verðlagsgrundvallar og ég hefði kosið að fá það staðfest í þessari umræðu að þessi hluti af verði til sauðfjárbænda verði áfram greiddur, væntanlega af niðurgreiðslulið, á verðlagsárinu 1990--1991. Verði það ekki gert og komi ekki fram hækkun þá er verið að hafa beint af bændum sem þessu nemur.
    Ég hef þær upplýsingar frá aðilum sem gerst vita um þessi mál að ef markmið kjarasamninganna nást og verðlagshækkanir fara ekki upp fyrir rauðu strikin kynni það að þýða á næsta verðlagsári fyrir sauðfjárbændur allt að 3% lægra verð en ella væri. Það er sú skerðing sem þeir mundu taka á sig og kúabændur að líkum sambærilega.
    Ég ætla ekki að gera athugasemdir við það að bændasamtökin og bændur landsins taki á sig sem því nemur ef þau mikilvægu markmið sem kjarasamningarnir byggja á nást og náist þau ekki þá koma til hin rauðu strik og þá gilda auðvitað ekki lengur ákvæðin um fast verð eins og allir vita. Ég hefði
gjarnan viljað fá upplýst hvort á næsta verðlagsári standi áfram sú greiðsla á allt að 3% af verði sem á þessu ári verður um 115 millj. kr. og frestað var í haust.
    Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, herra forseti. Ég hefði gjarnan viljað, ef hæstv. forsrh. treystir sér til að svara þessari fsp. minni við umræðuna, spyrjast fyrir um það í leiðinni hvað liði undirbúningi að niðurskurði ríkisútgjalda sem birst hafa fregnir af í fjölmiðlum og stundum er þar sagt að þau mál hafi verið lögð fyrir fjvn., sem ekki er rétt. Þau mál hafa vafalaust verið fyrir lögð meiri hl. fjvn., en ekki fyrir nefndina í heild. Og ég hef ekki séð neinar tillögur frá hæstv. ríkisstjórn um þetta efni utan þess sem sagt hefur verið um þetta mál í fjölmiðlum. Þess vegna vildi ég gjarnan spyrjast fyrir um hvernig þau mál standa
    Ég get svo tekið undir með hv. 17. þm. Reykv. að það er auðvitað mjög ankannalegt að sjá í þeim plöggum sem hér var dreift í dag, t.d. frv. til

fjáraukalaga fyrir árið 1988, frv. til laga um samþykkt ríkisreikningsins fyrir árið 1988 og greinargerð fjmrn. um afkomu ríkissjóðs fyrir árið 1989 sem einnig nær yfir fleiri ár, hversu þar gætir mjög misræmis í tölum. Og í greinargerðinni sem dags. er 20. febr. eru ekki réttar tölur um afkomu ríkissjóðs á árinu 1988, heldur eru þar gamlar tölur sem er sagt að séu bráðabirgðatölur þar sem hallinn er sagður á því ári um 7,2 milljarðar, en er í raun nær 8,2 milljarðar. Það er auðvitað hálfankannalegt að sjá þessum gögnum dreift hér með slíku misræmi í tölum sem nú eiga að liggja fyrir.
    Vegna þess að skammt er til þingflokksfunda ætla ég ekki að ræða þessi mál á víðari grundvelli þó að af nógu sé að taka en láta þetta nægja, herra forseti.