Stjórnarráð Íslands
Miðvikudaginn 21. febrúar 1990


     Margrét Frímannsdóttir:
    Virðulegi forseti. Í mörg ár hefur það verið baráttumál Alþb. að hér yrði stofnað umhverfisráðuneyti. Í dag heyra þessi mál, umhverfismálin, undir átta ráðuneyti og því nauðsynlegt, til að ná fram samræmingu, að setja þennan málaflokk undir eitt ráðuneyti.
    Nú seinni árin hefur umræðan um umhverfismál og nauðsyn á aukinni umhverfisvernd orðið meira og meira áberandi og þetta gamla baráttumál Alþb. hefur nú verið tekið inn í stefnuumræðu allra flokka. Það var því sérstakt fagnaðarefni þegar hæstv. ríkisstjórn tók þá ákvörðun að sett yrði á stofn sérstakt umhverfisráðuneyti og lagði fram tvö stjórnarfrumvörp þess efnis. Fyrir mér var það augljóst og sjálfsagt að umræða og afgreiðsla beggja þessara frumvarpa færi fram samhliða því lítil ástæða væri til þess að stofna ráðuneyti umhverfismála án þess að fyrir lægi hvaða verkefni það ráðuneyti ætti að hafa. Það hlýtur líka að hafa verið ætlunin í upphafi því að frumvörpin voru unnin og lögð fram samhliða.
    Ég sagði áðan að Alþb. hefði lengi barist fyrir stofnun umhverfisráðuneytis. Um það vitna ályktanir og samþykktir flokksins. Við höfum rætt hvaða málaflokkar eiga heima undir þessu ráðuneyti og liggja fyrir samþykktir flokksins þessa efnis. Þegar frumvörp hæstv. ríkisstjórnar voru lögð hér fram í haust og loks hillti undir það að stjórn umhverfismála yrði sett undir einn hatt datt mér satt að segja ekki í hug að við yrðum fyrst að kaupa hattinn og setja hann á kollinn á einum hæstv. ráðherra. Hvað færi undir hattinn að öðru leyti yrði að koma í ljós seinna. En því miður þróuðust málin þó þannig og sú ákvörðun sem hér blasir við var tekin. Sem stuðningsmaður hæstv. ríkisstjórnar og eftir umfjöllun í þingflokki Alþb. gekkst ég undir það að haga afgreiðslunni á þennan hátt, en þó í trausti þess að það frv. sem nú er til umfjöllunar í allshn. Nd. fengi nægan tíma og vandaða umfjöllun. Það að
allshn. Ed. fjallaði um frumvörpin saman, þrátt fyrir að fylgifrv. er ekki komið til þessarar hv. deildar, sýnir svo að ekki verður um villst að þingmenn virðast álíta það eðlilega málsmeðferð. Þrátt fyrir að ég hafi hér lýst mínum persónulegum vilja gagnvart afgreiðslu málsins ítreka ég að eftir umræðu í þingflokki Alþb. urðu önnur sjónarmið ofan á.
    Hv. þm. Skúli Alexandersson er fulltrúi Alþb. í allshn. þessarar hv. deildar. Hann skrifaði nafn sitt undir nál. og gerir það með samþykki þingflokks Alþb. Ég vona að þetta hafi svarað spurningu þeirri sem hv. þm. Salome Þorkelsdóttir beindi til mín í dag en ég vil þá líka segja að fyrirsögnin fyrir þessu stutta viðtali sem birtist í Dagblaðinu, þar sem segir: ,,Óánægja eykst``, getur varla átt við mig vegna þess að þessi ástæða mín hefur legið fyrir alveg frá upphafi.
    Ég vil svo aðeins nefna hér þá tillögu sem hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir nefndi að hefði verið birt í allshn. Nd. í morgun. Sú tillaga hefur ekki verið

rædd af þingflokki Alþb. Ef staðreyndin er hins vegar sú að þessi tillaga sé samkomulag milli einhverra hv. fulltrúa stjórnarflokkanna og kynnt sem slík, án þess að þingflokkarnir hafi fengið tækifæri til þess að fjalla um hana, ef hún er samþykkt af væntanlegum hæstv. umhverfisráðherra, lýsir það metnaðarleysi og stefnuleysi í þessum málum öllum. Við samþykkjum líklega í þessari hv. deild að stofna umhverfisráðuneyti án þess að vita hvaða málaflokkar eða verkefni færast undir þetta væntanlega ráðuneyti. Með þessu sýnum við, hv. þm. sem stöndum að þessum stjórnarfrv., hæstv. ríkisstjórn mikið traust. Treystum því að frekari ákvarðanir og útfærsla á verkefnum umhverfisráðuneytis fái hér vandaða umfjöllun og vinnubrögðin verði vönduð í hvívetna. Ef hins vegar á að keyra fylgifrv. í gegn líka sýnir það aðeins eitt, að hugur fylgir ekki máli hvað varðar stofnun umhverfisráðuneytis.
    Ég hef ákveðnar skoðanir á því hvaða verkefni eigi að færast undir umhverfisráðuneyti, en tel rétt að láta þá umræðu bíða þess að niðurstaða fáist í hv. Nd. og við fáum frv. þess efnis til umfjöllunar hér.