Stjórnarráð Íslands
Miðvikudaginn 21. febrúar 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Enn er með öllu óvíst hvaða verkefnum fyrirhugað umhverfisráðuneyti á að sinna og engin stefna í umhverfisverndarmálum fylgir því frv. sem hér er til afgreiðslu. Ég tel það lýsa fullkomnu ábyrgðarleysi og vanvirðu ríkisstjórnarflokkanna við málefnið að þröngva fram afgreiðslu þessa frv. án þess að ljóst sé hvaða verkefni hinu nýja ráðuneyti verða falin.
    Við kvennalistakonur höfum sýnt það mörgum sinnum að við viljum sinna umhverfismálum betur en hingað til hefur verið gert, m.a. með því að koma á fót raunverulegu umhverfisráðuneyti og teljum það í raun lykilatriði. Við viljum við setja á stofn umhverfisráðuneyti málefnisins vegna og því teljum við nauðsynlegt að um leið og slíkt ráðuneyti verður stofnað fái það ákveðin verkefni og þann sess í stjórnkerfinu sem því ber.
    Hæstv. ríkisstjórn hefur misst sjónar á því sem ætti að vera aðaltilgangurinn með stofnun umhverfisráðuneytis, þ.e. að koma betra skipulagi á stjórn umhverfismála með markvissa umhverfisvernd í huga. Það eru kvennalistakonum því mikil vonbrigði og við hörmum að svo skuli staðið að afgreiðslu mála sem hér er gert og munum ekki taka þátt í afgreiðslu þessa máls. Því greiði ég ekki atkvæði.