Úrbætur í meðferð nauðgunarmála
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í ræðu fyrirspyrjanda skipaði Jón Helgason dómsmrh. nefnd 1984 til að vinna að þessum málum. Ég held að það sé allra mat að sú nefnd vann hið ágætasta starf og ég held að ég fari rétt með, ég tók ekki eftir því hvort það kom fram, en nefndin skilaði af sér síðla árs 1988. Og ef ég veit rétt, þá var mjög ítarleg skýrsla og athyglisverð prentuð sl. haust.
    Þetta mál var af núv. dómsmrh. lagt fyrir ríkisstjórnina 13. nóv. sl. ásamt tillögum um fjórar aðgerðir getum við kallað það. Það var nokkuð rætt á þeim fundi og þegar samþykkt fyrsta tillaga dómsmrh. um að leggja fyrir Alþingi frv. Aðrar tillögur eru enn til meðferðar.
    Í þessu tilfelli eins og öðrum er það viðkomandi ráðherra sem metur hvort þarf að leggja mál fyrir ríkisstjórn, t.d. í framhaldi fyrirspurnar. Það er því algerlega á hans ábyrgð. Mér sýnist að hér sé það dómsmrh., með við skulum segja tilstuðlan heilbr.- og trmrh. því að þeir komu báðir að þessu máli, sem meta það hvað þarf að leggja fyrir ríkisstjórn og hvað þarf samþykki ríkisstjórnar í þessu máli. Núv. dómsmrh. hefur talið að svo þurfi að vera og því lagt það fyrir ríkisstjórnina og ég er honum fullkomlega sammála. Hér er um mál að ræða sem þarf að taka á. Ég er fullkomlega sammála hv. fyrirspyrjanda. Og mér þykir slæmt að dregist skuli hafa frá a.m.k. sl. hausti þegar skýrslan var gefin út eða jafnvel 1988 að koma þessu máli fyrir ríkisstjórn.