Norræna sjóréttarstofnunin
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Ragnhildur Helgadóttir):
    Frú forseti. Á þskj. 593 hef ég leyft mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. menntmrh., svohjóðandi:
    ,,Hver er afstaða menntmrh. til tillögu á norrænum vettvangi um að leggja niður Norrænu sjóréttarstofnunina?``
    Ástæðan til þessarar spurningar er sú að fyrir dyrum stendur að taka afstöðu til ábendingar embættismannanefndar um það að í sparnaðarskyni skuli sá þáttur norrænna fjárlaga sem er framlög til menningarmála breytast á þann veg að þar verði spöruð sérstaklega framlög til þeirra stofnana sem kalla má fastar stofnanir, og í staðinn verði peningunum veitt til annarra nýrra viðfangsefna.
    Nú er það svo að Norræna sjóréttarstofnunin sem aðsetur hefur í Osló varðar Íslendinga mjög miklu. Af starfsemi þessarar stofnunar hafa Íslendingar mikla hagsmuni og þangað hafa íslenskir lögfræðingar getað sótt ómetanlega þekkingu sem nýtist okkur vel í hagsmunamálum okkar hér á landi og ekkert virðist benda til þess að úr því dragi á næstu árum. Stofnun þessi er eina samnorræna stofnunin á sviði lögfræði og nýtur orðið alþjóðlegrar viðurkenningar og það svo að verið er að reisa sambærilega stofnun eftir þeirri fyrirmynd í Þýskalandi og sama er uppi á teningnum í Englandi. Á þessum rúmu 25 árum sem stofnunin hefur starfað hafa nærri 20 Íslendingar dvalist þar við nám og rannsóknir með styrk frá henni. Þannig er að aðstaða við þessa stofnun stendur Íslendingum opin, hvort sem þeir eru styrkþegar eða ekki, og Íslendingar hafa unnið þar, bæði í hópi fastra starfsmanna, svo og sem fræðimenn eingöngu. En að sjálfsögðu er það svo við þessa stofnun sem víðar að það fer saman að menn
eru starfsmenn stofnunarinnar og leggja stund á fræðilegar rannsóknir.
    Nýlega hefur verkefni stofnunarinnar verið víkkað nokkuð með því að nú tekur hún einnig til rannsókna á réttarsviðinu að því er varðar auðlindir, m.a. á hafsbotni. Sett hefur verið á fót sérstök olíuréttardeild, sem svo er kölluð, við stofnunina. Sjóréttarstofnunin fæst einnig við ýmiss konar verslunarrétt. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra skýri afstöðu menntmrh. Íslands til þessa máls en afstaða mun væntanlega verða tekin á Norðurlandaráðsþingi í næstu viku og á fundum í framhaldi af því.