Norræna þjóðfræðistofnunin
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að upplýsa að mig rekur ekki minni til að málið sem slíkt hafi komið til umfjöllunar í ríkisstjórn. Sem svar við fsp. hv. fyrirspyrjanda um Norrænu þjóðfræðistofnunina hlýt ég að vísa í það svar sem ég gaf áðan þar sem vitnað var til málsmeðferðarinnar almennt og rakinn aðdragandi málsins. Í niðurlagi þess svars kom fram að afstaða menntmrh. eða menntmrn. er á þessu stigi sú að það sé ekki rétt að taka afstöðu til einstakra tillagna á þessu stigi heldur bíða niðurstöðu menningarmálanefndar þangað til fyrir liggi endanlegar tillögur um sparnað eða ráðstafanir til að skapa aukið svigrúm til útgjalda eða nýrra verkefna á þessu sviði. Það er sem sagt sú afstaða sem ráðuneytið hefur að það sé ekki rétt að tína út úr einstakar tillögur hvorki um að leggja niður einstakar stofnanir né aðrar sparnaðarráðstafanir sem vinnunefndin velti upp og síðan fóru til umfjöllunar í menningarmálanefndinni.
    En ég hygg að í raun og veru eigi ekki að þurfa um það að deila hvað það hlýtur að vera sem við Íslendingar mundum öðru fremur leggja áherslu á að yrði varið fyrir slíkum sparnaðar- eða niðurlagningaraðgerðum. Ég nefndi það áðan að ég teldi auðsætt að Norræna sjóréttarstofnunin hlyti þar að vera okkur mikilvægari en flest annað og ég vil sömuleiðis nefna þá stofnun sem var spurt um, þ.e. Norrænu þjóðfræðistofnunina í Finnlandi, og leyfa mér að fullyrða að það geti varla verið deilumál að þurfi að fórna einhverju af þessari starfsemi, þá standi þessar tvær stofnanir okkur Íslendingum nær en til að mynda sérstök stofnun í Asíufræðum, svo ágæt sem hún ábyggilega er út af fyrir sig. Hér er annars vegar um að ræða starf sem er okkur ákaflega mikilvægt vegna okkur undirstöðuatvinnuvega og hins vegar menningarstofnun á norrænu sviði sem sömuleiðis hlýtur auðvitað að vera mikilvægt að standa vörð um.
    Á hinn bóginn verður ekki horft fram hjá því að það verður ekki mikið um nýja starfsemi á vettvangi Norðurlandaráðs á þessu sviði nema annað tveggja gerist, að það verði um auknar fjárveitingar til þess málaflokks að ræða eða mönnum takist að spara útgjöld frá þeim rekstri sem þegar er fyrir. Eins og ég nefndi í fyrra svari mínu eru uppi hugmyndir og hafa verið teknar ýmsar ákvarðanir um að reyna að auka og taka upp starfsemi, og ég nefndi dæmin um Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðinn, samstarf um vísindamenntun, nemenda- og kennaraskipti og fleira af því tagi, og þess vegna hefur sú vinna farið fram sem hér hefur verið gerð að umtalsefni, að skoða hvar hægt væri að draga úr útgjöldum. Niðurstöður liggja sem sagt ekki fyrir og afstaða ráðuneytisins er sú að það sé ekki rétt að taka, á þessu stigi málsins, afstöðu til einstakra tillagna.