Efling löggæslu
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Flm. (Guðmundur H. Garðarsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir góðar undirtektir við þessari þáltill. sem var flutt á sínum tíma að frumkvæði sjálfstæðismanna með góðum stuðningi Lögreglufélags Reykjavíkur. Hæstv. ráðherra tók mjög jákvætt undir það að þessi tillaga fengi stuðning hans. Því vænti ég þess að hún verði afgreidd út úr allshn. og verði þá liður í því að efla það starf sem máli skiptir í tengslum við löggæsluna á Íslandi.
    Það sem vakti athygli mína í ræðu hæstv. dómsmrh. voru tölur um fjölgun í lögreglu á Íslandi á síðustu árum, sérstaklega í sambandi við mannafla í Reykjavík. Hæstv. ráðherra sagði m.a. að á árunum 1983--1989 hefði fjölgun stöðugilda verið fimm á Stór-Reykjavíkursvæðinu á sama tíma sem hér á sér stað mikil fjölgun íbúa, svo ekki sé meira sagt, jafnframt því sem öll umferð gerbreytist á þessum árum svo sem hv. þm. þekkja.
    Jafnframt sagði hæstv. dómsmrh., sem okkur hv. þm. er kunnugt um, að stöðugildum hefði fjölgað um sextán, m.a. við meðferð fjárlaga um tíu en áður hefði verið ákveðið að fjölga um sex og einnig mundu koma núna tíu afleysingamenn. Hér er um grundvallarafstöðubreytingu að ræða sem við hljótum að fagna, sérstaklega flm. þessarar tillögu sem og þeir aðilar sem eiga mikilla hagsmuna að gæta sem íbúar Stór-Reykjavíkursvæðisins.
    Það ber að virða og þakka fyrir það sem vel er gert í þessum efnum, en jafnframt vil ég, virðulegi forseti, vekja athygli á því sem hæstv. dómsmrh. sagði um að á Reykjavíkursvæðinu hefðu verið tekin upp ný og betri vinnubrögð og vísaði sérstaklega til aukins samstarfs lögreglustjórans í Reykjavík og borgaryfirvalda. Ég vil undirstrika þetta atriði sérstaklega. Ég tel að þetta samstarf hafi einnig átt mikinn þátt í því að þessi mál fá núna meira og betra brautargengi en áður fyrr. Og ég minni á það að borgarstjóri Reykjavíkur, Davíð Oddsson, tók þetta mál sérstaklega til meðferðar
sl. haust og nefndi þá m.a. í ræðu og riti að til greina kæmi að færa lögregluna í Reykjavík aftur inn á framkvæmdasvið Reykjavíkurborgar. Nú er ég ekki að koma með tillögu um það hér á þessu stigi en ég vek athygli á þessu.
    Sem sagt, gott samstarf þeirra aðila sem eiga að fjalla um þessi mál og geta komið við sögu með áhrifamiklum hætti hefur leitt til þess að nú er fjallað um eflingu löggæslu með allt öðrum og mun betri hætti en áður fyrr.