Bifreiðagjald
Föstudaginn 23. febrúar 1990


     Karl Steinar Guðnason:
    Frú forseti. Ég get ekki stillt mig um að leiðrétta þá rakalausu fullyrðingu sem hv. 2. þm. Norðurl. e. hafði í frammi hérna áðan, þegar hann fullyrti að ég hefði sagt í gær að ég treysti ekki launanefndinni sem á að vakta samningana. Þetta eru bara ósannindi, hv. þm. Hins vegar fór ég nokkrum orðum um það að við samningana 1986 var líka launanefnd sem byggð var á hugsuninni um jafnvægi óttans, eins og kallað var. Hún reiknaði út hver væri staða framfærsluvísitölunnar og hvað bæri að hækka kaup eða hvort það ætti að hækka, en hafði engin tök á því að koma í veg fyrir ýmsar hliðarverkanir í þjóðfélaginu með aðgæslu, með verðgæslu, með því að þrýsta á þegar verðbólguhvetjandi þættir færu af stað. Þeir samningar brugðust vegna þess að ríkisstjórnin sem þá var kom aftan að okkur. Þetta er viðurkennd staðreynd.
    Ég hef oft sagt að þáv. hæstv. forsrh. gerði mikið til að hjálpa til við að koma þeim samningum á en þrekið var ekki meira en svo að launþegar þurftu að upplifa það að þeir samningar runnu út í sandinn. Verkalýðshreyfingin ásamt vinnuveitendum setti launanefnd aftur á stofn nú. Það var breytt launanefnd, launanefnd sem hafði meira valdsvið eða meiri umsvif, launanefnd sem á að fylgjast með þróun verðlagsmála hvarvetna í þjóðfélaginu og gæta þess að ekki fari allt úr böndunum, fylgjast með þjóðhagsstærðum, fylgjast með hinum ýmsu þáttum þjóðfélagsins í því skyni að tryggja að kjarasamningarnir haldi. Öfugt við það sem hv. 2. þm. Norðurl. e. segir hef ég mikla trú á þessari nefnd og hana munu skipa hæfir einstaklingar sem munu duga vel í sínu starfi. Ég hef trú á því að þetta fyrirkomulag muni verða aðalmöndullinn í því að tryggja að þessir kjarasamningar haldi.
    Hvað varðar bifreiðagjald sem nú hefur verið rætt um vil ég upplýsa það sem ég hef upplýst áður, og er reyndar staðreynd, að aðilar vinnumarkaðarins gerðu
ráð fyrir þeirri skattlagningu. Það sýnir hvað þessi samningagerð er vönduð að menn gerðu ráð fyrir því sem væntanlegt var og þar á meðal þetta bifreiðagjald. (Gripið fram í.) Já, og það er tilgreint í fylgiskjölum samninganna. Og ég vil upplýsa það að á minnisblaði sem Alþýðusambandið lét frá sér fara við fjh.- og viðskn. Nd. segir svo, með leyfi forseta:
,,1. Í viðræðum fulltrúa ASÍ við ríkisstjórnina var lögð áhersla á að aðgerðir stjórnvalda til að draga úr hækkun framfærsluvísitölu beindust að því að lækka verð á brýnustu lífsnauðsynjavörum, t.d. brauðum. Ríkisstjórnin hefur hins vegar ekki talið sér fært að verða við þeim tilmælum.
    2. Með frestun gjalddaga bifreiðagjaldsins er verið að koma í veg fyrir að framfærsluvísitalan hækki 1. mars vegna þessa gjalds. ASÍ telur þessa aðgerð jákvæða, enda er með henni komið í veg fyrir 0,3% hækkun á framfærsluvísitölu 1. mars miðað við upphaflegar áætlanir.
    3. Fulltrúar fjmrn. hafa viðrað hugmyndir við ASÍ um hvernig þeir geti hugsað sér að ná takmarkinu um

0,3% lækkun á framfærsluvísitölunni miðað við það sem annars hefði orðið. Okkur er ekki kunnugt um að búið sé að útfæra þessar hugmyndir endanlega.``
    Undir þetta ritar fyrir hönd ASÍ Ari Skúlason, hagfræðingur Alþýðusambandsins.
    Ég tek undir þessi rituðu orð frá Alþýðusambandinu. Ég ítreka að mönnum er ljóst hvað var í farvatninu, hvað var í pípunum. Mönnum var ljóst að til stóð að setja þetta bifreiðagjald á. En á meðan ekki hefur fundist leið til þess að verða við óskum okkar um 0,3% lækkun framfærsluvísitölu er það jákvæð aðgerð að fresta gildistöku þessa bifreiðagjalds um einn mánuð.